06.11.1941
Neðri deild: 17. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (379)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Jón Pálmason:

Það er aðeins örstutt aths. vegna rangfærslu, sem hér kom fram hjá hv. þm. Ísaf. Hann hafði eftir mér ummæli, sem voru ákaflega fjarri því, sem ég sagði, og þykir mér það undarlegt. Hv. þm. Ísaf. bar mig fyrir því, að jafnvel eftir „frjálsu leiðinni“ ætti að lögfesta kaupgjaldið með gerðardómi og banna verkföll.

Ég var einmitt að sýna fram á í minni ræðu, að ef þetta frv. ætti að vera framkvæmanlegt, mundi þurfa að banna verkföll, — en, það var fjarri því, að ég vildi aðhyllast þá leið. Hitt er skoðun mín, að ef einhverjar róttækar ráðstafanir á að gera til þess að koma í veg fyrir vandræði út af vinnudeilum, þá eigi ríkisstj. að hafa heimild til þess að lögfesta miðlunartill. sáttasemjara ríkisins í vinnudeilum, — ef á þarf að halda. Það er mildari aðferð en lögfesting kaupgjaldsins. Þetta var gert árið 1937, og reyndist þá nauðsynlegt. Það getur verið nauðsynlegt að geta gripið til slíkrar heimildar.

Ég skal ekki blanda mér í friðmæli hv. þm. Ísaf. við Framsfl. og þær óskir, sem hann bar hér fram um góða samvinnu við hann framvegis. Það kann að vera, að ekki þurfi nú mjög á þeim blíðmælum að halda, og vil ég á engan hátt spilla horfunum á því.