07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (397)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir

Flm. Haraldur Guðmundsson) :

Ég get verið fáorður um þetta frv. nú af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess, að því fylgir allýtarleg grg., sem ég í verulegum atriðum get látið nægja að vísa til, og í öðru lagi vegna þess, að í sambandi við það frv., sem hér var áðan verið að. greiða atkv. um (frv. um ráðstafanir gegn dýrtíðinni), hafa farið fram miklar umr. um dýrtíðarmálin í heild. Í þeim umræðum hefur margt komið fram, bæði frá mér og öðrum, sem ég hefði gjarnan viljað láta fylgja í framsögu.

Eins og hv. þdm. sjá, er þetta frv. til breyt. á og viðauka við 1. frá síðasta Alþ. um ráðstafanir vegna dýrtíðarinnar og tekjuöflunar í því sambandi. Og við flm. þessa frv. litum svo á, að það sé mjög miður farið, að heimildin til þeirra 1. skuli ekki hafa verið notuð. Eins og fram hefur komið, hefur ekki náðst samkomulag um það í ríkisstj. að beita þeim heimildum, sem. fyrir eru í téðum l. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er því gert ráð fyrir þeirri breyt. á 1., að í stað hinna ýmsu heimilda, sem þar eru gefnar, komi nú bein fyrirmæli frá Alþ.

Þetta á sérstaklega við um lækkun tolla og farmgjalda á vörum, sem fluttar eru til landsins. Auk þess er nokkrum nýjum ákvæðum bætt við í frv., sem flest eru í samræmi við það, sem við flm. þessa frv. töldum, að hefði átt að taka með í 1., þegar þau voru afgr. s. l. vor.

Meginefni frv., auk þess sem ég áður hef greint frá, er það, sem nú skal greina.

Í fyrsta lagi samræming alls verðlags í landinu og, að eftirlitið sé haft í höndum eins aðila og sé tvímælalaust á ábyrgð ríkisstj. Það er ekki ætlazt til, að þær n., sem nú starfa, verði lagðar niður, heldur leggi þær till. sínar fyrir sérstaka ríkisverðlagsn. og verði henni til aðstoðar, en sú n. hefði aftur á móti það vald, sem nú liggur í höndum þessara mismunandi nefnda.

Tvær meginástæður liggja til þessarar mikilvægu breyt. Í fyrsta lagi sú, að við teljum sjálfsagt, að sami aðilinn beri ábyrgð á notkun þess fjár, sem gert er ráð fyrir, að notað verði til af halda dýrtíðinni niðri, því að það liggur í augum uppi, að það má gera hvaða ráðstafanir sem er til þess að halda dýrtíðinni niðri gagnslausar, ef sjálfstæðar n. eru stofnaðar, sem eyða kannske stórfé þannig, að það komi að engu gagni.

Ríkisstj. ætti með þessu frv. að fá mikið fé til þess að halda verðlaginu niðri. Og við lítum svo á, að æðsta vald um verðlagsákvæði eigi að vera í hennar höndum. N. þær, sem nú hafa verðlagseftirlit með höndum, eru skipaðar með sérstöku sjónarmiði fyrir augum og koma því aldrei að þeim notum, sem æskilegt væri. Hér er ekki gert ráð fyrir, að neitt sé víkkað eða fært út frá því, sem nú er, í að ákveða verðlag á vörum, hvort heldur eru innlendar eða útlendar vörur. Við leggjum til, að sú n., sem fara ætti með þessi mál, yrði skipuð af ríkisstj., en það þýðir að sjálfsögðu það, að ef ekki næst samkomulag innan ríkisstj. um þessi mál, þá hlýtur sá ráðh., sem með viðskiptamálin fer, að hafa þar úrskurðarvald. Og ef þetta á að koma réttlátlega niður, verður hann að hafa vald til þess að fyrirbyggja, að ráðstafanir verði gagnslausar fyrir störf gagnslausra nefnda.

Þá er gert ráð fyrir því, að þessi n. ákveði einnig þau raunverulegu farmgjöld, sem ætlazt er til, að skipaeigendur fái, af því að þótt ákveðið sé, að farmgjöld á vissum vörum megi ekki vera hærri en þau voru frá Kaupmannahöfn fyrir stríð, þá er ekki meiningin, að sá halli verði borinn uppi af skipafélögunum, heldur af dýrtíðarsjóði. Hins vegar yrði það að metast í hverju einstöku tilfelli, hversu mikið þætti ástæða til að greiða eimskipafélögunum, og hafi til hliðsjónar þann hagnað, sem þau höfðu á s. 1. ári.

Þá er einnig, nánar en nú er gert, ákveðið verksvið verðlagsn. Í staðinn fyrir, að í 1. um verðlagseftirlit er ekki ákveðið, við hvað skuli miða í starfsemi n., þá er hér lagt til, að meginreglan verði sú, að ekki verði leyfð meiri álagning á hverja einingu en var fyrir stríð, að viðbættum þeim kostnaði, sem hækkað hefur. En þetta byggist á því, að við teljum óeðlilegt, að sama hundraðsgjald sé lagt á vörur, hversu mikið sem þær hafa hækkað í verði. Það er fullvíst, að engin þörf er á að leggja á vöru, sem seld var á eina krónu fyrir stríð, sömu 30% nú og þá var gert, því að auk þeirrar miklu umsetningaraukningar, sem orðið hefur, hefur það bætzt við, að umsetningin hefur aukizt mjög að magni til, auk þess sem vörurnar hafa hækkað í verði.

Ég held, að eðlilegt sé í mörgum tilfellum að hafa álagninguna lægri en nú er til þess að draga úr dýrtíðinni.

Um skömmtunarvörurnar er lagt til, að ekki verði hærri álagning á þessar vörur en 30% samanlagt, í heildsölu og smásölu. Nú mun þessi álagning vera um 40%. Ég hygg ég megi fullyrða, að þessi álagning sé óþarflega rúm. Mér er nokkuð kunnugt um venjulega álagningu á þessar vörur, að vísu fyrir löngu síðan, 12 til 15 árum, og fullyrði hiklaust, að álagning á þessar vörur muni ekki hafa náð 34% þá. Það liggur í augum uppi, að það er eitthvað bogið við þetta fyrirkomulag, ef það þarf að kosta 41 krónu að skipta sundur og selja úr einum poka af hrísgrjónum t. d., en það er sú álagning, sem heimiluð er samkv. ákvörðun. verðlagsn. Ég hef reynt að kynna mér, hvað fært muni að fara í þessu efni, og komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki ætti að leyfa meiri álagningu en 25 til 30%. En með tilliti til aukinnar kaupgetu hjá öllum þorra manna og til þess að þrengja ekki kosti einnar stéttar, höfum við sett hámarkið 34%. Og höfum við gert ráð fyrir, að hluti heildsalanna yrði ekki meir í en svo, að smásalarnir gætu haft sem næst 25%. Til samanburðar vil ég geta þess, að hjá Kron hefur heildardreifingarkostnaður orðið 13.44 af útsöluverðí Ég veit ekki, hvað mikil álagning er á þessar vörur hjá þeim, en mér skilst, eftir því að dæma, að trúlegt sé, að álagning á innkaupsverð þurfi ekki að fara yfir 19 eða 20%. Annars þykir mér ekki ósennilegt, að hæstv. viðskmrh. hafi af þessu eitthvað fyllri upplýsingar.

Þá er einnig lagt til, eins og ég hef áður getið um, að fella niður eða lækka ýmsa tolla, og þar með skuli fella niður — ekki hálfan sykurtollinn, heldur allan. Þessi till. er ekki byggð svo mjög á því, að ekki geti verið ástæða til, undir sérstökum kringumstæðum, að tolla kaffi og sykur. Heldur er hún byggð á því, að það er að okkar hyggju beinlínis óskynsamlegt að innheimta háa tolla af innkaupsverði nú, því að það kemur beint niður á vísitölunni og eykur dýrtíðina. Ætlun okkar með því að hafa bein fyrirmæli um afnám tolla og lækkun flutningsgjalda er sú, að einmitt, með því að verja fé úr dýrtíðarsjóði til að lækka innkaupsverð varanna, kominna til kaupmanna og neytenda, sparast ekki aðeins hækkun flutningsgjalda og háir tollar, heldur einnig sú mikla álagning, sem nú er á þessar upphæðir, en sú álagning er nú 40 til 75%.

Þá er gert ráð fyrir því, að nú sé sett heimild til að innheimta útflutningsgjald af þeim vörum einum, sem seldar eru með stríðsgróða. En um það eru menn sammála, að ekki sé hægt að leggja útflutningsgjald á vörur, sem seldar eru með litlum hagnaði eða jafnvel tapi.

Þá er gert ráð fyrir því, að stofnaður verði sérstakur dýrtíðarsjóður til að mæta þeim útgjöldum, sem nauðsynlegt er að inna af hendi til þess að halda dýrtíðinni niðri eða minnka hana. Auk þess fjár, sem gert var ráð fyrir, að lagt yrði fram í þessu skyni úr ríkissjóði, sem voru 5 millj., er nú gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi einnig fram 3 millj., þannig að framlag hans verði 8 millj. kr. Þetta er lagt til með hliðsjón af hag ríkissjóðs, og að nokkru leyti er stuðzt við till. viðskmrh.

Þá er gert ráð fyrir, að aflað verði a. m. k. 3 millj. kr. með sérstökum stríðsgróðaskatti, og ef ekki er nokkurn veginn tryggt, að sú upphæð fáist, teljum við óhjákvæmilegt, að á næsta Þingi verði skattal. breytt í það horf, að a. m. k. sú upphæð fáist í ríkissjóð.

Enn fremur er gert ráð fyrir, að sá skattauki, sem á er lagður á þessu ári, 10%, renni í dýrtíðarsjóð, og fer það þá eftir afgreiðslu tekjuskattsl. á næsta þingi, hvort innheimtur verður sérstakur viðauki eða 1. breytt. Auk þessa framlags úr ríkissjóði — stríðsgróðaskattsins og álags á tekjuskatt, sem gert er ráð fyrir að nemi samtals 4 millj., — er svo gert ráð fyrir, að fengin verði með sérstökum sköttum sú upphæð, að dýrtíðarsjóði séu tryggðar a. m. k. 14 millj. kr. tekjur á næstu 12 mánuðum, auk þeirra tekna, sem fengjust með útflutningsgjaldinu á stríðsgróðasölu.

Þegar athugað er, hvaða skattstofnar eru líklegastir í þessu skyni, virðist okkur flm. þessa frv., að eðlilegast sé að leita þangað, sem óeðlilegar tekjur berast mönnum vegna þess sérstakt ástands, sem nú er. Kosturinn við það, eins og ég sagði áðan, að lækka innkaupsverð skömmtunarvara, er sá, að það kemur beint fram í verðlagi varanna og vísitölunni og kaupgjaldinu í landinu. Einnig er gert ráð fyrir því, að ofan á skemmtanaskattinn, sem kvikmyndahúsin nú greiða, sé lagt sérstakt gjald, sem nemi 25% af andvirði miðanna. Auk þessa er gert ráð fyrir að afla tekna í dýrtíðarsjóð með stríðsgróðasköttum, sem lagðir verði á sérstaklega. Einnig gæti ég hugsað mér fleiri tekjustofna í þessu skyni.

Ég lofaði því í upphafi að vera stuttorður, og get ég því látið þetta nægja að sinni. Ég vil þó aðeins fara nokkrum orðum um 9. gr. Þar er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilt að kaupa birgðir af nauðsynjavörum og sjá um dreifingu á þeim. Nokkuð hefur þótt á skorta, þrátt fyrir góðan vilja, að þetta hafi tekizt, og þótti því ástæða til þess að tryggja það, að ætíð væru til nægar birgðir nauðsynjavöru í landinu. — Ég mun að þessu sinni láta máli mínu lokið og mun ekki taka til máls aftur við þessa umr. nema sérstakt tilefni verði til þess, en vil leggja það til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og fjhn.