07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (398)

11. mál, dýrtíðarráðstafanir

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það er nú búið að ræða svo mikið dýrtíðarmálin, að það mundi vera að bera í bakkafullan lækinn að fara að ræða mikið um þau í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Flest þau atriði, sem um ræðir í þessu frv., eru uppsuða úr gildandi 1. um þessi mál og því frv., sem flm. þessa máls voru nú að drepa hér í d. Þó er frá þessu ein mikilsverð undantekning, og vil ég minnast á hana sérstaklega. En hún er sú, að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að ríkisvaldið fái neinu ráðið um kaupgjaldið í landinu, en hins vegar á það algerlega að ráða verðlagi landbúnaðarafurða. Við framsóknarmenn getum ekki fallizt á þessa einhliða lausn málsins og erum þess vegna á móti frv. Hin smærri atriði frv. hirði ég ekki að rekja nánar, enda eru þau fá og ekki mikils virði. Hv. þm. Seyðf. minntist hér sérstaklega á álagningu á erlenda vöru og nefndi þar til, að gert væri ráð fyrir, að heildarálagningin á kornvöru færi ekki fram úr 30% af innkaupsverði. Þetta er ekki eins stórt atriði og hv. þm. vildi vera láta, og get ég upplýst það, að álagningin hefur verið milli 30–40% og a. m. k. undir 40%. Hér er því um svo lítils háttar breyt. að ræða, að hún hefur ekki nein veruleg áhrif á verðlagið í landinu.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara að taka hér upp almennar umr. um málið, þar sem þær hafa nú staðið yfir í 7 daga samfleytt.