07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (416)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskmrh. (Eysteinn Jónason) :

Ég vildi, út af því eina atriði, sem hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni, og þeim misskilningi, er kom fram hjá honum í því sambandi, segja örfá orð.

Hæstv. fjmrh. minntist á, að sér virtist það vera beinlínis gengið á gerða samninga um skattamálin á síðasta þingi, ef skattal. væri nú breytt á þann hátt, sem hér er lagt til, að gert verði. Ég vil leggja mig fram til þess að leiðrétta þennan misskilning á þessu fyrsta stigi málsins, um leið og hann kemur fram, og vil upplýsa eftirfarandi, til viðbótar því, sem ég tók fram um þetta í framsöguræðu minni.

Í öllum þeim samningum, sem áttu sér stað á þinginu í fyrra, héldum við því eindregið fram framsóknarmenn, að það bæri að breyta grundvellinum fyrir skattaálagningunni á þann hátt, sem nú er gert ráð fyrir í þessu frv. Hið sama var gert í milliþn. þeirri, sem starfaði um sömu mundir. Því var lýst yfir af hálfu fulltrúa Sjálfstfl. í samninganefndinni, að þeir vildu ekki fallast á þessa breyt. Því var einnig lýst yfir af fulltrúum Alþfl., að þeir vildu ekki, eins og þá stæðu sakir, fallast á þessa breyt. Við marglýstum eftir því í samninganefndinni, hvort afstaða flakkanna væri óhagganleg eins og þá stóðu sakir, og fengum alltaf sömu svör. Við framsóknarmenn lýstum yfir því við alla þessa samninga, bæði seint og snemma, að Framsfl. hefði tekið þetta mál upp sem stefnumál sitt og mundi flytja það á Alþ., hvenær sem hann hefði tækifæri til, unz hann gæti komið því fram, ef hann gæti fengið fylgi fyrir því. Um leið og við gengum inn á það í samninganefndinni að flytja ekki á síðasta Alþ. till. um þessa breyt. á skattalögunum, sem lögð var talsverð áherzla á af hinum flokkunum, þá tókum við það fram, að við gengjum inn á það einungis af þeim ástæðum, að hinir flokkarnir hefðu lýst því skýrt yfir í samninganefndinni, að þeir ætluðu ekki að fylgja slíkri breyt. og að við gerðum það til þess að vekja ekki óþarfar þrætur á því þingi, þar sem fyrirsjáanlegt var, að slíkum breyt. væri ekki hægt að koma fram þá. En við tókum það einnig skýrt fram, einmitt til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að við mundum fylgja þessu stefnumáli okkar fram, hvenær sem tækifæri gæfist, þangað til við fengjum því framgengt. Í umr., sem um skattamálin fóru fram hér á hæstv. Alþ., kom það fram, að hér var aðeins um bráðabirgðasamkomulag að ræða og um þetta atriði sérstaklega.

Um frádráttarregluna og hækkun á varasjóðshlunnindum útgerðarinnar lét ég á því þingi falla eftirfarandi ummæli, eftir að ég hafði gert eins ýtarlega og mér var unnt grein fyrir þeirri stefnu, sem Framsfl. hafði tekið í þessu máli, — með leyfi hæstv. forseta : —

„Nú vil ég taka það fram, að enda þótt þetta hafi verið hér sagt um þessa breyt. og Framsfl. hafi ákveðið að beita sér fyrir því að koma henni á, hefur það þó verið gert til samkomulags að flytja ekki þessa breyt. eins og nú standa sakir. En ég verð þó að nota tækifærið til þess að lýsa yfir því, að við framsóknarmenn munum reyna að koma þessari breyt. fram seinna, enda þótt við flytjum ekki sérstaka till. að þessu sinni. Ég vil einnig geta þess um leið, af því að ég gleymdi að tala um það áðan, að við höfum fallizt á að takmarka ekki árið 1940 þær upphæðir, sem aðilar mættu leggja til varasjóða. En eigi að síður teljum við, að þessar takmarkanir verði að setja, vegna þess að við álítum, að þessi varasjóðshlunnindi geti ekki náð lengra en að vissu marki.

Í samninganefndinni var þetta tekið enn greinilegar fram af okkar hálfu, því að við óttuðumst það, sem hefur komið hér fram, að ef við legðum þetta mál ekki fram á þingi síðar, þá gæti það orðið misskilið. Alveg sama mun hafa komið fram af okkar hálfu í þeim blaðaumræðum, sem um þetta mál hafa átt sér stað.

Skv. þeim skattal., sem voru samþ. hér á síðasta þingi, var frá því einu gengið, að greiddur skattur og útsvör á árinu 1940 skyldi dregið frá, en hitt var greinilega tekið fram í samningunum, að í framtíðinni færi um þetta eins og önnur atriði skattal., hvað Alþ. aðhylltist á hverjum tíma.

Ég vildi benda á, til þess að draga það enn greinilegar fram, að í öllum þeim samningum, sem áttu sér stað um skattamálin á síðasta Alþ., var aldrei að öðru vikið en að þar væri um bráðabirgðalausn að ræða. Það var öllum jafnmikið áhugamál, af skiljanlegum ástæðum. Þegar samningar stóðu yfir um þessi skattamál, þá stóðu kosningar fyrir dyrum, og ekki var farið að ræða kosningafrestun milli flokkanna. Flokkarnir vildu auðvitað hafa frjálsar hendur um að fylgja stefnu sinni í skattamálum, hvað sem bráðabirgðasamningum um þau liði. Má minna á í þessu sambandi, að ekki hefðu menn með neinum rétti getað talið, að Sjálfstfl., með því að ganga inn á þá skatta, sem samþ. voru í fyrravor, hafi skuldbundið sig til að láta þá haldast, ef hann hefði í kosningunum, sem þá voru framundan, fengið bolmagn til þess að breyta þeim. Engum hefði til hugar komið að ætlast til slíks. Þetta tek ég fram til þess að fyrirbyggja þann misskilning, sem kom fram hjá hæstv. fjmrh.