28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Fyrirspurnir um stjórnarframkvæmdir o.fl.

Finnur Jónsson:

Ég vil mjög ítreka það við hæstv. ríkisstj., að hún láti ekki við svo búið sitja í þessu máli. Því að það er vitanlegt, að í raun og sannleika væri Alþ. algerlega óstarfhæft til þess að fara með utanríkismál þjóðarinnar, ef sú regla yrði upp tekin, að einstökum þm. yrði leyft átölulaust að fremja trúnaðarbrot við hæstv. Alþ. Hér á vitanlega ekkert mat einstakra hv. þm. að koma til greina, því að sumir hv. þm. kunna að líta svo á, að það sé ástæðulaust að' þegja yfir hlutum. En aðrir hv. þm. álíta það kannske mikilsvert að segja frá því, sem gerzt hefur. En ef á annað borð er búið að gera samþykkt um þessi mál, þá hlýtur það að verða krafa hæstv. Alþ., að sú samþykkt um þögn um mál sé haldin. Það var verið hér í gær að skýra frá dómi, sem gengið hefði yfir einn ritstjóra hér í bænum fyrir það, að hann hefði talað óvarlega í utanríkismálum. Og maður verður að álíta, að slíkir dómar séu í raun og veru ekki annað en skrípaleikur, ef Alþ. sjálfu eða þm. á að haldast uppi óátalið að skýra frá þeim gerðum, sem Alþ. hefur ákveðið, að halda skuli leyndum.

Nú vil ég einnig ítreka það við hæstv. ríkisstj., að hún leysi mig frá því þagnarheiti, sem á mig hefur verið lagt í þessu máli, með því að farið er að skýra frá þessu máli. En ef hæstv. ríkisstj. hins vegar telur sér það ekki fært, að hún gefi þá yfirlýsingu um afstöðu í þessu máli, sem sé þannig, að hún beri með sér þann þingvilja, sem í ljós kann að hafa verið látinn á lokuðu fundunum, en gefi ekki þeim samþykktum, sem gerðar hafa verið, þann blæ, að þær séu allar með því úr lagi færðar.