07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í C-deild Alþingistíðinda. (424)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil freista að fá hv. þm. A.-Húnv. til þess að skilja, hvað um er að r æða. Hv. þm. heldur því fram, að það hafi verið þrætt um það í sambandi við skattasamningana, — en hann var ekki nema nokkurn tíma í samninganefndinni, — hvort skatt, sem greiddur er af tekjum ársins 1940, skuli heimilt að draga frá tekjum yfirstandandi árs.

Þetta er rangt. – Við kröfðumst þess framsóknarmenn, — og hefur hv. þm. Seyðf. staðfest, að ég fer rétt með, — að niður skyldi felld úr skattal. heimild til þess að draga greiddan tekjuskatt og útsvör frá tekjum við ákvörðun skattskyldra tekna, en um það var deilt, hvort skatturinn skyldi koma til frádráttar tekjum ársins 1940, en ekki tekjum ársins 1941.

Ef hv. þm. A.-Húnv. hefði rétt fyrir sér, hefði þetta ákvæði átt að gilda um skattálagningu yfirstandandi árs, hefði þá þurft að vera sérstaklega um það samið, og hefðu, samkv. því, flokkarnir ekki getað gert breyt. á skattalöggjöfinni á Alþ. 1942. Nú átti að kjósa til Alþingis s. l. vor. Vill þá hv. þm. A.-Húnv. halda því fram, að með samningunum í fyrra hafi sjálfstæðismenn bundið svo hendur sínar, að þeir hefðu ekki getað breytt skattalöggjöfinni á Alþ. 1942, ef þeir hefðu náð meiri hluta á því þingi? Auðvitað ekki. Þetta sannar hins vegar, að fullyrðingar hv. þm. eru rangar. Alþ. 1942 getur breytt eins og því sýnist álagningu skatts á tekjur ársins 1941. Þetta stendur fast. Eftir er að fá úr því skorið, hvort flokkarnir bundu hendur sínar á þingi 1942 í samningunum síðast liðið vor. Ég segi, að þeir hafi ekki gert það, og hver einasti maður, sem tók þátt í samningunum, veit, að það er rétt. — Og alveg sérstaklega tókum við framsóknarmenn fram, að þótt við þá legðum ekki fram brtt. í þá átt, sem þetta frv. gerir, mætti það ekki misskiljast, því að eftirleiðis mundum við bera þær breyt. fram, unz þær næðu samþykki þingsins.

Halda menn nú, að sjálfstæðismenn séu svo grunnfærnir, að þeir hafi ekki skilið, hvað þessi yfirlýsing þýddi? Þeir vissu, að skv. þessari stefnuyfirlýsingu þá var alveg undir jafnaðarmönnum komið, hvort grundvallarbreyting yrði samþ. á Alþ. 1942, nema því aðeins, að Sjálfstfl. ynni á í kosningunum.

Það kann að vera, að hv. þm. A.-Húnv. hafi ekki skilið þetta og megi afsaka hann með því, en það hafa áreiðanlega aðrir gert.

Nú skulum við setja sem svo, að sjálfstæðismenn hafi byggt á misskilningi hv. þm. A.- Húnv. Hvaða frágangur var það þá á svona stórkostlegum samningi, að hafa það ekki beinlínis fram tekið í honum, að ákvæðin um skattafrádrátt skyldu gilda tiltekinn tíma? Það sjá allir, að ef Sjálfstfl. hefði litið svona á, hefði hann auðvitað krafizt skýlausra yfirlýsinga af Framsfl., að þessu ákvæði mætti ekki breyta á þinginu 1942.

Ég skal taka það fram, að það hefur alltaf vakið undrun hjá mér, að sjálfstæðismenn vildu ekki ganga inn á okkar leið. Hvort þeir hafa treyst því, að jafnaðarmenn stæðu fast við sína mótstöðu, get ég ekki um sagt, en jafnaðarmenn höfðu lýst yfir því, að þeir vildu ekki ganga inn á þessa breyt. að svo stöddu. Sjálfstæðismenn máttu hins vegar ganga að því vísu, að þetta flokksmál Framsfl. yrði flutt þing eftir þing, þar til næðist fylgi meiri hluta þingsins.

Hv. 5. þm. Reykv. sagðist ekki genginn svo í barndóm, að hann byggist við því, að framsóknarmenn stæðu við gefin heit. Slík fáryrði sem þessi hafa ekkert gildi og eru ekki svaraverð. En sumum kynni að finnast, að eitthvað í þessa átt mætti með réttu segja um framkomu Sjálfstfl. í dýrtíðarmálunum. Þrisvar hafa legið fyrir ákveðnar yfirlýsingar frá forystumönnum flokksins um fylgi við úrlausnir í málinu, og þrisvar hefur flokkurinn snúið við blaðinu og gengið frá yfirlýsingum sínum.