07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (425)

14. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Skúli Guðmundsson:

Menn eru nú farnir að vitna um, hvað gerzt hafi í samningum um skattamálin á síðasta þingi, og það jafnvel þeir, sem ekkert voru við þá riðnir, eins og hv. 5. þm. Reykv: Þeir, sem tóku þátt í samningunum af hálfu Sjálfstfl., voru ráðherrar flokksins, hv. 1. þm. Reykv. og hv. þm. A.-Húnv. að nokkru leyti, er frá leið. Ég vil lýsa yfir því, að það er í alla staði rétt, sem hæstv. viðskmrh. hefur sagt, að við framsóknarmenn tókum það oft fram, að við vildum koma fram þeirri breyt., sem í þessu frv. felst, og gerðum ítrekaðar tilraunir til þess á samningafundum að fá hina flokkana til þess að fallast á hana. Fannst mér einkennilegt, að sjálfstæðismenn skyldu ekki fallast á þessa till., því að þeir hlutu að sjá, að þau fyrirtæki, sem fengu mikinn gróða á árinu 1940, hlutu skv. henni að fá lægri skatt á þessu ári. Var um það rætt í n., hvort við mundum þá flytja um þetta brtt. á þingi, en eftir tilmælum hinna flokkanna féllum við frá því í það skipti, til þess að auka ekki á deilur um málið, enda fyrirsjáanlegt, skv. yfirlýsingum beggja hinna flokkanna, að slík brtt. hefði ekki orðið samþ.

Hitt er alrangt, að við höfum gengið inn á að flytja ekki brtt. þar að lútandi á næsta þingi, enda minnist ég þess ekki, að far ið væri fram á slíkt. Tókum við fulltrúar Framsfl. í fjhn. greinilega fram okkar vilja í málinu, eins og nál. í þingtíðindum ber með sér.

Með breyt. í skattal. s. 1, vor var miðað við yfirstandandi tíma, að ákveða skatt af tekjum ársins 1940. Í mörgum gr. frv. er það skýrt tekið fram, að ákvæði þeirra gildi aðeins um tekjur ársins 1940. Þannig er t. d. í síðustu gr., um heimild til að hækka laun skattanefndarmanna. tekið fram, að á árinu 1941 megi þau vera hærri en eftir gömlu l., en ekkert ákveðið um framtíðina.

Aðdróttunum hv. þm. A.-Húnv. um óheiðarleik okkar framsóknarmanna í þessu sambandi er því vísað heim til föðurhúsanna.