18.11.1941
Neðri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (438)

23. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Herra forseti!

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er mjög gamalt ágreiningsmál, en ég hef hugsað mér að láta fortíðina að mestu liggja í þagnargildi og vita, hvort ekki er hægt að líta á það sem algert nútímamál. Ég skal þó í upphafi taka fram, að ég held, að innflutningshöftin hafi alla tíð verið talin neyðarúrræði, sem ætíð hefur verið stutt með einum einasta hlut, sem er gjaldeyrisvandræði, og ég held, að ef þau hafa verið talin neyðarúrræði áður, þá séu þau það ekki síður nú, því að hvað sem líður léttúð manna út af hag og horfum ríkis og landsfólks, getur engum manni dulizt, að það er ákaflega háskasamlegt fyrir eyþjóð eins og okkur Íslendinga, sem erum hér mitt á ófriðarsvæðinu með lítinn skipakost til aðdrátta, að leggja hömlur á innflutning, þar sem mjög mikinn hluta af nauðsynjum landsmanna verður að flytja að. Og þó að við sleppum öllum fjárhagshliðum í þessu máli, verður aldrei fram hjá því gengið, að þetta er mjög stórt öryggismál fyrir þjóðina. Það er vitanlegt, síðan stríðið hófst, að vegna gjaldeyrishaftanna hefur orðið mikil þurrð á allflestum þeim vörum, sem þjóðin þarf nauðsynlegast að nota. Við upphaf stríðsins álitu að sönnu margir, að allmikil breyt. væri orðin á þessu, því að það er reynsla, að þegar stríð brýzt út og allar þjóðir reyna að birgja sig upp sem bezt, ekki sízt smáþjóðirnar, þá hækka vörur fljótlega mikið í verði, þótt að vísu vegi hækkun útflutningsvara mikið þar á móti. Þrátt fyrir þetta þótti ekki ráðlegt að gera verulegar ráðstafanir til þess að birgja landið að mun upp að vörum, en hitt ráðið tekið, að láta skuldir greiðast og innieignir safnast erlendis, áður en slíkar ráðstafanir væru gerðar. Það er háski, bæði af því, hve siglingaleiðir okkar hafa lengzt, er sækja þarf til Ameríku, og hinu, að æ erfiðara verður að fá vörur, a. m. k. frá Norðurálfuþjóðum, sakir hernaðarþarfa þeirra, hernáms sumra þeirra og siglingabanns, eins og alkunna er.

Ekki þarf að lýsa, hvílíku fargi létti af Íslendingum, þegar það varð kunnugt, að Englendingar mundu láta niður falla hömlur þær, sem þeir hafa um skeið lagt á innflutning okkar, og hefðu lofað að kaupa £ fyrir $, svo að telja má, að skortur okkar á dollurum til vörukaupa sé úr sögunni. Eftir það skilst mér hér vera einungis um öryggismál okkar að ræða, þar sem aukning á innflutningi nauðsynja er. Raunar fer verðlag sjálfsagt hækkandi allt til stríðsloka, og farmgjöld fara hækkandi, svo að hér getur oltið á miklum fjárhæðum, en margfalt þyngra vegur þó öryggið, sem nást þarf með auknum innflutningi. Því ber að leita allra ráða til að birgja landið nauðsynjum, meðan unnt er. Þó að innflutningshöftum sé af létt að fullu, verður við nóga erfiðleika að stríða, þar sem flutningavandkvæðin eru. Ýmsir munu nú segja, að ekki minnki þau, þótt innflutningur sé gefinn frjáls, svo að frelsið gagni lítið. Skipakostur okkar er ekki það mikill, að við getum annað öllum flutningum okkar frá Ameríku nema fá til þess leiguskip. En bæði Bretar og Bandaríkjamenn, sem við eigum þau mál undir, hafa nú strangt eftirlit með því, hvernig skipakostur er notaður, og munu skammta akkur hann eftir því, hversu miklar vörur við eigum ófluttar á hverjum tíma að landinu og frá. Þegar hægt er að benda á, að ekki liggi ósend vestra nema nokkur tonn af nauðsynjavörum til landsins, verður erfitt að sannfæra Englendinga eða Ameríkumenn um það, að skipaþörf okkar sé brýn og okkur stefnt í háska, nema úrbót fáist. Miklu heldur fást leiguskip, ef fyrir liggja tugir og hundruð smálesta af nauðsynjum, sem bíða flutnings hingað.

Ég lofaði í upphafi að fitja ekki upp á neinni deilu um fortíðina. En ég vil kanna, hvort það hefur ekki verið af heilum huga mælt, sem mér hefur alltaf skilizt á hæstv. viðskmrh., að á höftin bæri að líta sem illa nauðsyn, og væri sjálfsagt að afnema þau, þegar gjaldeyrisástand leyfði. Ég vil vita, hvort hv. þm. getur ekki. komið saman um, að nú sé skylt að reyna að ná sem mestum nauðsynjum inn í landið og að þetta sé nú í fremstu röð mála okkar. Þegar ný stjórn er að taka við völdum, finnst mér einmitt vera tími til að semja um þessi mál, — beri þá fyrst og fremst að samþ. þetta frv., áður en þinginu lýkur, en ríkisstj, snúi sér af alefli að því að útvega skipakost með samningum.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, nema tilefni gefist. Um leið og ég beini til ríkisstj. ósk um, að hún taki sem skjótast upp samningana, vil ég æskja þess, að frv. gangi til 2. umr. og allshn.