16.10.1941
Sameinað þing: 4. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

Fyrirspurnir um stjórnarframkvæmdir o.fl.

Á 4. fundi í Sþ., 16. okt., las forseti eftir farandi símskeyti frá 4. landsk. þm. (ÍslH), dags. samdægurs í Vestmannaeyjum:

„Forseti sameinaðs þings,

Alþingi, Rvík.

Með skírskotun til símskeyta, sem hafa farið milli mín og herra ríkisstjóra Íslands undan farna daga vegna þess, að hlutaðeigandi ráðuneyti hefur vanrækt að kveðja mig til þingsetu á þingi því, sem nú situr, leyfi ég mér að óska þess, að þér, herra forseti, tilkynnið háttvirtum alþingismönnum, að ég hafi enn enga kvaðningu fengið um að sitja þetta þing, ef vera kynni, að þeim þætti ástæða til nokkurra aðgerða. Jafnframt óska ég, að þér, herra forseti, tilkynnið háttvirtum alþingismönnum, að ég áskil mér og hverjum öðrum íslenzkum ríkisborgara rétt til mótmæla hverra þeirra lagasetninga, sem þing þetta kann að afgreiða, með því að því hefur eigi verið saman stefnt samkvæmt stjórnskipunarlögum.

Virðingarfyllst

Ísleifur Högnason.“

Kvaðst forseti mundu beiðast bréflegrar umsagnar forsætisráðherra út af orðsendingu þessari.