23.10.1941
Efri deild: 4. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (449)

6. mál, stimpilgjald

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Í upphafi 14. gr. er ákvæði, sem löggjafinn hefur ætlazt til, að beitt yrði í slíkum tilfellum. Þar segir, að „þeir, sem hafa á hendi stimplun skjala, geta krafizt allra nauðsynlegra skýringa af hálfu þeirra, sem stimplunar beiðast, og ákveða síðan gjaldið“. — Ef sá, sem stimpla skal, sér eitthvað tortryggilegt við upphæðina, sem skjalið tiltekur, ber honum að krefjast skýringa, og séu þær ekki gefnar réttar, liggja sektir við og fimmföldun stimpilgjaldsins, að mig minnir. Ég vil þó síður en svo hafa á móti þessari ábendingu hv. 1. þm. N.-M. og vænti þess, að fjhn. taki hana til greina, svo framarlega, sem henni þykja eigi ákvæði l. fullskýr fyrir.