21.10.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Fyrirspurnir um stjórnarframkvæmdir o.fl.

Á 6. fundi í Sþ., 21. okt., skýrði forseti frá, að sér hefði borizt svo hljóðandi umsögn frá forsætisráðherra út af símskeyti 4. landsk. þm., dags. 20. okt.:

„Mér hefur borizt bréf yðar, herra forseti, dags. 16. þ. m., þar sem óskað er umsagnar minnar um símskeyti 4. landskjörins þingmanns, Ísleifs Högnasonar, er eigi kveðst að þessu sinni hafa verið boðaður til þingsetu samkvæmt stjórnskipunarlögum og áskilur sér og öðrum rétt til þess að mótmæla á þeim grundvelli lagasetningum yfirstandandi aukaþings.

Í þessu sambandi vil ég taka fram eftirfarandi:

Hið opna bréf ríkisstjóra, er stefnir Alþingi saman til aukafundar mánudaginn 13. október, er gefið út 9. s. m. og birt í Lögbirtingablaðinu næsta dag. Auk þess að birta hið opna bréf hefur verið venja að tilkynna þingmönnum utan Reykjavíkur með símskeyti, hvenær Alþingi eigi að koma saman. En þetta hefur öll þau ár, sem ég hef verið forsætisráðherra, verið framkvæmt án sérstakra fyrirmæla frá mér. Vegna þess, að undanfarna daga höfðu alþingismenn setið flokksfundi í Reykjavik, áleit ráðuneytið, að þeir mundu allir komnir til bæjarins, og gætti þess því eigi að boða þá til þings á annan hátt en gert var með hinu opna bréfi.

Í símtali, sem 4. landskjörinn átti við hlutaðeigandi skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, skýrði skrifstofustjórinn frá því, að hér væri um leiðinlega yfirsjón að ræða, sem stafaði af framangreindri ástæðu.

Hermann Jónasson,

Til forseta sameinaðs Alþingis,

Reykjavík.“