12.11.1941
Efri deild: 14. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (452)

6. mál, stimpilgjald

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Eins og tilgreint er í nál. fjhn., dróst afgreiðsla máls þessa vegna veikindaforfalla hv. 1. þm. Eyf., en hins vegar var búizt við, að hann mundi koma bráðlega til þings, og þótti því rétt að doka við, þar til er hann kæmi.

Þess er einnig getið í nál., að n. talaði við skrifstofustjóra fjmrn. um málið, og er það sumpart að hans ósk, að málið er fram komið. — N. getur út af fyrir sig litið vingjarnlegum augum á frv., því að búast má við, að sú venja, sem er tíðkuð nokkuð, að í afsalsbréfum sé ekki tilgreint kaupverð og bréfin stimpluð eftir fasteignamatsverði, verði til þess, að ríkissjóður missi einhvern hluta af því, sem honum ber af stimpilgjaldi. N. álítur rétt, að athugun fari fram á því, hvort ekki sé hægt að finna réttari grundvöll að fara eftir og skapa meira samræmi í framkvæmdina en nú á sér stað. En n. fær ekki séð, að með frv. sé hægt að tryggja þetta.

Með frv, er farið fram á, að bætt sé inn í 14. gr. gildandi 1. um stimpilgjald ákvæði um, að þegar afsalsbréf eða leigusamningar greina ekki hina stimpilskyldu upphæð, beri að áætla hana það háa, að víst sé um það, að söluverð eða leiga hafi ekki hærra verið í raun og veru. Verð fasteigna undir slíkum kringumstæðum skuli aldrei áætla lægra en tvöfalt fasteignamat hinnar seldu eignar. Það liggur í augum uppi, að menn geta komizt í kringum þetta með því að tilgreina söluverðið. Og hvernig er hægt að hafa eftirlit með, að slíkt verði ekki gert? N. þótti, að úr þessu gæti jafnvel orðið meira misrétti en nú á sér stað, og væri beinlínis verðlaunað „svindl“ um tilgreiningu kaupverðs. Hinir óhlutvöndu menn slyppu við gjaldið.

Án þess að n. treysti sér til að gera brtt., þótti henni nær að reyna að ná hækkuninni með því t. d. að reyna að hækka hundraðstöluna um vissan hluta fremur en eins og gert er ráð fyrir í frv., að ein regla gangi yfir alla jafnt, og ekki sé betri grundvöllur á að byggja en fasteignamatið. Það getur verið hæpið að láta t. d. húseignir og jarðeignir falla undir það sama, því að þegar hátt verð er á húseignum, þarf ekki hið sama að eiga við um jarðeignir. Það getur verið mikill munur eftir eðli fasteigna, hvað gjaldið á að vera hátt.

N. vill ekki láta fella frv., því að hún viðurkennir, að nauðsynlegar séu breyt. í þessu efni, heldur vill hún láta afgreiða það með nokkurs konar ályktun þessarar d. í formi hinnar rökst. dagskrár á þskj. 39.