20.10.1941
Sameinað þing: 5. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (482)

1. mál, eyðingar á tundurduflum

Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti Eins og sjá má af þskj. því, sem fyrir liggur, höfum við 3 þm. leyft okkur að bera fram þá till. til þál., sem um er að ræða, að gefnu tilefni. Það er kunnugt, að tundurduflalagnir stríðsaðila þess, sem fyrir þeim stendur hér við land, hafa haft þær afleiðingar um nokkuð langan tíma nú orðið, að duflin eru á reki á siglingaleiðum og fiskimiðum landsmanna og rekur jafnvel á fjörur. Það þarf ekki að fjölyrða um, að af þeim getur stafað hinn mesti voði. Fiskiveiðar eru hindraðar og jafnvel bannaðar á vissum svæðum. Er ekki að undra, þótt þær verði torveldar, þegar þess er gætt, hve þráfaldlega fiskiskip verða vör við þessa vágesti. Mér er sagt, að eigi alls fyrir löngu hafi eitt botnvörpuskip fengið í einu þrjú dufl í vörpuna, og er það vottur þess, hver ógrynni eru af þeim. Nýlega hefur verið um það rætt, að fyrir Austfjörðum hafi ekki verið talið tryggt að fara til fiskjar, og á sumum öðrum stöðum hefur legið nærri, að veiðar stöðvuðust. Bátar fyrir suðurströndinni hafa hikað við að fara heim að næturlagi.

Við flm. erum ekki þeirrar skoðunar, að ekkert hafi verið aðhafzt til að eyða tundurduflum. Ríkisstj. hefur gert út skip í því skyni. Í fyrstu var Þór hafður við það starf, en síðan hefur hann verið tekinn til annars. Þau skip, sem upp á síðkastið hafa starfað að þessu, eru Óðinn og Sæbjörg. Hin varðskipin eru önnum kafin við að sinna flutningum á ýmsar hafnir, þar eð nær allar aðfluttar vörur eru settar á land í Rvík, en Eimskipafélagið og aðallega Skipaútgerð ríkisins verða að sjá fyrir skipakosti til flutninga út um land. Skipaútgerðin hefur því orðið að beina bæði Þór og Ægi þær leiðir. Það hefur samt ekki komið að fullu haldi, svo mikil er þörfin.

Þess ber og að gæta, að skip eins og Ægir

og Þór eru talin óþarflega stór og dýr til þess starfs eins að leita að tundurduflum. Til þess má vel nota smærri skip á borð við Óðin og Sæbjörgu. En það, sem á skortir, er; að þau tvö skip komast ekki yfir að fara eins oft um hættusvæðin og þörf væri til þess að öryggi fengist fyrir veiðiflotann og strandferðaskipin eftir því, sem frekast er kostur. Þess vegna er þörf á auknum skipastóli, og að þeirri aukningu er stefnt með till. okkar flm.

Það er öllum þm. kunnugt, að svo að kalla daglega eru tilkynningar um siglingahættu við strendur landsins lesnar í útvarp. Má þó nærri geta, að menn rekast ekki á nema lítið eitt af duflunum. Þó að það kunni að koma fyrir, að um missýningar hafi verið að ræða, þegar menn hafa þótzt sjá dufl, eru þau samt ákaflega víða, enda er ljósasti votturinn um það, hve mörg dufl hefur rekið á land. Það er vorkunnarmál, að Skipaútgerðin eigi erfitt með að sinna öllu þessu til fulls.

Í sambandi við þetta vil ég benda á, að nú stendur svo á, að siglingar til Bretlands hafa að miklu leyti stöðvazt, svo að mikill fjöldi skipa, t. d. skipa á borð við Óðin og Sæbjörgu, er laus. Mætti ætla, að hægt væri fyrir Skipaútgerðina að fá 2 slík skip leigð sanngjörnu verði. Þetta hefur komið til tals á milli okkar flm., og vil ég því benda sérstaklega á það.

Ég vona, að hæstv. Alþ. vilji styðja að framkvæmdum þessa máls, en hér þarf að vinda bráðan bug að, því að daginn styttir óðum, en það er aðeins í dagsbirtu, sem hægt er að vinna að eyðingu tundurdufla. Ég vil mælast til þess við þá n., sem fær málið til meðferðar, að hún hafi það hugfast, að sem minnst þurfi að dragast, að úr framkvæmdum yrði. En fram eftir nóv. mætti ætla, ef tíðin er sæmileg, að hægt væri að vinna ötullega að þessu starfi birtunnar vegna.

Ég sé, að fram er komin brtt. frá hv. þm. V.- Sk. um viðbót við þær ráðstafanir, sem hugsaðar eru í þáltill. okkar, sem sé að eyðileggja sem fyrst sjórekin dufl. Er það auðvitað nauðsynleg ráðstöfun.

Ég vænti, að hæstv. Alþ. skilji nauðsyn þessa máls. Við flm. höfum haft samráð við þá menn, sem mundu hafa yfirstjórn um framkvæmdir í þessu efni, og till. okkar er sumpart borin fram í samráði við þá.