20.10.1941
Sameinað þing: 5. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (484)

1. mál, eyðingar á tundurduflum

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þessi till., bæði aðaltill. og eins viðaukatill., er staðfesting á því, sem stj. hefur þegar gert, og er gott, að fram komi á Alþ. og verði samþ.till., sem hér liggur fyrir.

Það hefur verið upplýst í framsögu og röksemdum fyrir þessari till., hvað gert hefur verið í þessu máli. Það hafa aðallega verið notuð 3 skip í þessu skyni, en Þór, sem unnið hefur að eyðingu duflanna, hefur orðið að taka til strandferða, sérstaklega til Vestmannaeyja, og var það gert af brýnni nauðsyn. En síðan hefur Sæbjörg, til viðbótar því, sem varðskipin hafa séð um þessa eyðingu eftir föngum, verið leigð til þess að vinna einnig að því að eyðileggja duflin, og hefur sá samningur verið framlengdur fyrir stuttu síðan. Hins vegar er gott, að fyrir liggi frá Alþ. samþykkt, þar sem stj. séu heimiluð mikil fjárframlög í þessu skyni, sem verður gert, ef þessi till. verður samþ.

Þá leggur hv. þm. V.-Sk. til í viðaukatill. sinni. að stj. hlutist einnig til um, að eyðilögð verði tundurdufl, sem rekur á land. Hingað til hefur það verið svo, að stjórn brezka flotans hér á landi hefur verið tilkynnt um tundurdufl, sem þurfti að eyðileggja, en það er alveg satt, að mjög seint hefur gengið að eyðileggja þau, og það svo mjög, að til vandræða hefur horft. Þess vegna var tekið til þess ráðs fyrir nokkru síðan að ítreka mjög alvarlega þá beiðni til brezku herstjórnarinnar, að Íslendingum yrði kennt að eyðileggja tundurdufl, til þess að ekki þyrfti að leita til brezku herstjórnarinnar um þessi mál. Í því skyni hefur Skipaútgerð ríkisins verið heimilað að verja fjármunum.

Af þessum ástæðum get ég vel fallizt á, að þarft sé að samþ. þessa till. Hún er staðfesting í því, sem stj. hefur verið að vinna að, og stj. mundi líka líta á það sem heimild til frekari aðgerða en gerðar hafa verið, enda hefur sýnt sig, að þess er þörf.