20.10.1941
Sameinað þing: 5. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (486)

1. mál, eyðingar á tundurduflum

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að rekja, hvernig það er til komið, að byrjað var á þessum tundurduflaeyðingum, en það er sennilega rétt hjá hv. þm. Ísaf., að þessi till. hefur verið komin fram af hans hálfu, áður en málið var rætt við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins. En það er rétt, að það komi hér fram, að dráttur varð nokkur á framkvæmd þessa máls hjá stj., af því að henni var send, af brezku herstjórninni hér, skýrsla um það, að tundurdufl, sem slitnuðu upp, væru óskaðleg. En það hefur sýnt sig, að sum þeirra hafi sprungið í miklu brimi, bæði á Norðausturlandi og eins í Skagafirði. Þá var samhliða því á það bent, að þó að þessi skýrsla lægi fyrir, þá mundi þessu ekki vera trúað af sjófarendum, og í sama mund staðfesti reynslan það með þeim dæmum, sem ég benti á, þegar tundurduflin sprungu við Norðurland. Þess vegna var ráðizt í að gera út skip til þess að eyðileggja tundurduflin. Hitt man ég ekki svo, að ég þori að fullyrða það, en mig minnir þó, að forstjóra Skipaútgerðar ríkisins hafi verið falið að ræða um það við brezku hernaðaryfirvöldin, að þau tækju þátt í kostnaðinum við að eyðileggja tundurduflin, en það liggur ekki skýrsla fyrir um, hver árangur hafi orðið af því samtali. hað er ekki nema eðlilegt að fara fram á þetta, en hins vegar vil ég taka fram, eins og hv. þm. Ísaf., að það má ekki verða til að hamla nauðsynlegum ráðstöfunum í þessu efni.