19.11.1941
Efri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (505)

24. mál, skyldusparnaður

Magnús Jónsson:

Það er ekki vonum fyrr, að fram kemur till. í þessa átt, því að skyldusparnaður, ef framkvæmdur yrði, mundi í raun og veru ná meginatriðunum af því, sem nú liggur fyrir, eins og fjármálum nú horfir við. Skyldusparnaður, sem væri framkvæmdur þannig, að menn legðu fram hvort sem væri vissan hluta af tekjum sínum eða vissan hluta af tekjuauka sínum, eins og hæstv. viðskmrh. nefndi, mundi ná því tvennu, sem mest bagar, taka úr umferð mikið af því fé, sem eykur verðþensluna, og tryggja okkur handbært fé, þegar undan hallar síðar. En það er bara þessi sami gamli vandi og þegar mýsnar ætluðu að fara að hengja bjöllu á köttinn. Það var þjóðráð að láta köttinn vera með bjöllu, en erfiðleikarnir voru bara að framkvæma það. Það kom mjög skýrt fram í ræðu hæstv. viðskmrh., að þessi leið er laukrétt í sjálfu sér, en það eru bara feikna örðugleikar við að framkvæma hana. Mér finnst því í raun og veru mjög lítill munur á því, hvort þessi till. kemur fram í Ed. eða Sþ., vegna þess að það er í raun og veru ómögulegt fyrir hv. þm. að mynda sér skoðanir á þessu máli, fyrr en þeir sjá einhverjar ákveðnar till. Hitt verður eins og að samþ. að hengja bjöllu á köttinn. Það er augljóst, að þetta er hentugt. Hitt er bara spurningin, hvort hægt er að finna leið, sem er réttlátleg og vekur ekki andúð allra eða fjölmargra, svo að hún verði ekki framkvæmanleg þess vegna. Ég vil benda á í þessu sambandi eitt atriði, sem er ákaflega erfitt úrlausnar, en það er, hvernig hægt er að tryggja þeim, sem leggja þetta fé fram, að það verði einhvers virði, þegar til þess á að taka á sínum tíma. Tekur ríkið ekki með þessu ábyrgð á sig, að þetta fé verði vel varðveitt og í sínu gildi, þegar á að borga það út kannske eftir 5 eða 10 ár, eða hver veit eftir hvað langan tíma?

Ég stóð upp aðallega af því, að mér finnst þetta ekki vera nema einn liður af mörgum, sem nú þarf að hefjast handa um, en það er alhliða rannsókn á því, hvernig eigi að bregðast við, þegar aftur fer að halla undan í landinu. Það er áreiðanlegt, að það eru skipaðar n. fagmanna til þeirra hluta, sem eru minna virði en þessir. Við skulum segja, að það komi kannske ekki mikið út úr því, en mér finnst mikill munur, ef farið er nógu snemma að starfa að þessu heldur en að halda að sér höndum og láta svo allt lenda í eintómu fálmi, þegar skriðan fer af stað. Og þá kemur ekki eingöngu skyldusparnaður til greina, heldur og ýmiss konar ráðstafanir um, hvað mönnum verði úr þessu fé og hvað er hægt að vísa mönnum á, þegar alveg hverfa svo og svo stórar atvinnugreinar, og hvaða úrræði eru þá fyrir allt það fólk, sem missir þessa atvinnu, hvort menn geta þá komið sér fyrir í sveit, í verstöðvum eða annars staðar, þar sem möguleikar eru til afkomu, þegar menn grípa ekki peninga upp úr grjótinu hvar sem er. Það væri því eðlilegt, að þetta mál væri rannsakað á enn víðari grundvelli en það, sem skyldusparnaðurinn nær.

Ég hjó eftir því, þegar hæstv. viðskmrh. sagði, að skyldusparnaður væri eins konar ríkislán. Ég held, að það þurfi ekki að vera. Ég álít, að það megi ekki heldur koma fyrir, að ríkissjóður noti þetta fé, enda virtist mér það ekki heldur vera meiningin hjá hv. flm., heldur að það væri geymt á lokuðum reikningum. Það mundi hvíla ábyrgð á ríkinu á þessu fé, og þess vegna mætti það ekki koma fyrir, að það rynni inn í ríkisféhirzluna, því að þá gæti það orðið eins mikill baggi og þægindi. Nei, ég hef skilið það svo, að menn væru skyldaðir til að leggja svo og svo mikið af tekjum sínum á sparisjóð, og þar ætti það að liggja vaxtalaust, því að bankarnir gætu ekki ávaxtað það, þar sem þetta yrðu lokaðir reikningar.

Ég er sem sagt alveg með þessari till., og ég sé það ekki mikið gera til, þó að hún hafi komið fram í d., en ekki í Sþ. Hæstv. stj. tekur málið sjálfsagt eins til athugunar fyrir því. En þó að ég hafi ekki flutt till. nú, þá er það af því, að ég hef litið svo á, að þingið gæti hætt á hvaða degi sem væri. En ég álít, að stj. ætti að athuga þetta eða þm. ættu á næsta þingi að koma með till. um að skipa n. — það mætti vera stór n., sem væri vel skipuð fagmönnum, — til þess að athuga þetta allt saman. Ég hef lesið um það í blöðum, að aðrar þjóðir leggi mikið kapp á að rannsaka, hvað gera skuli, þegar þessum ósköpum linnir. Styrjaldarþjóðirnar eiga þar enn þá stærra verkefni en við, því að þær verða að koma öllu upp, sem hefur verið þar lagt í rústir, en einnig hjá okkur eru fjölmörg verkefni, sem bráð nauðsyn er á að rannsaka og leysa sem fyrst.