19.11.1941
Efri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (507)

24. mál, skyldusparnaður

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég tel rétt að láta þetta mál ekki ljúkast án þess, að ég lýsi ánægju minni yfir, að það skuli vera komið fram. Það hefur átt erfitt uppdráttar innan stj., og þess vegna gott að fá stuðning Alþ. í því. Ég fagna sérstaklega yfir því, að þessar till. koma fram frá einum þm. Sjálfstfl. hér í d. Það orkar ekki tvímælis, að Framsfl. stendur óskiptur að málinu. Það er enginn ágreiningur um, að þetta mál sé mikilsvert. Og það er gott, ef flokkarnir geta sameinazt um að leysa þetta mál.

Ég ætla ekki í þessum umr. að rekja nauðsyn þess að koma hér á skyldusparnaði. Hún liggur næstum í augum uppi. En rétt er að taka það fram, eins og líka hefur komið fram í umr., að vitanlega er þetta aðeins einn þáttur í dýrtíðarráðstöfunum, sem gera þarf. Kom þetta greinilegast fram, þegar einn hv. þm. minntist á það, að ríkið tæki á sig ekki 1itlar skyldur í sambandi við skyldusparnað, þær skyldur, að peningarnir, sem teknir væru af þegnunum í dag, yrðu ekki lítils eða einskis virði eftir 5–6 ár. En einmitt þetta sýnir, að þessi ráðstöfun ein út af fyrir sig er ekki nægileg. Og það er varla siðferðislega rétt að gera slíkt, nema hægt sé að bjóða þegnunum þann rétt, sem ríkinu er skylt að bjóða þeim, ef þessir peningar væru teknir af þeim, og skal ég ekki fara frekar inn á þetta atriði.

Ég sé ekkert á móti því, eins og raunar kemur fram hér í till., að ríkið hafi ráð yfir þessum peningum og geti jafnvel, eins og tekið er hér fram, lánað þá á þeim þrengingartímum, sem í hönd fara. En mest hefur þó verið rætt um þetta mál í sambandi við það, hvernig við getum losað okkur við skuldir við það land, sem við skuldum mest og hefur valdið okkur áhyggjum. Það hefur verið rætt um það, hvernig við getum leyst inn þessar skuldir. Og það er víst, að við Íslendingar eigum nú ríflega fjárfúlgu upp í þessar skuldir, sem nú er sparifé annarrar þjóðar, en nú þykir ef til vill ekki betra hjá þessum þjóðum að eiga sparifé sitt, annars staðar en einmitt í þessum bréfum. Og þegar rætt er um það, hvort ríkið megi hafa þessa fjármuni undir höndum og leggja inn í sinn sjóð, vildi ég einmitt setja þetta fram, vegna þess að það er áreiðanlega ekki lítið atriði að setja einmitt þetta mál í samband við sparnað, því að sparnaður innanlands er sjálfstæðismál að því er snertir okkar fjárhag og afkomu. Og þetta ætti að geta orðið þjóðinni hvatning að nota sitt sparifé til þess að leysa okkur af skuldaklafanum. Og vissulega ætti Íslendingum ekki að vera vorkunn frekar en þegnum erlendri þjóða að eiga sparifé sitt í íslenzkum ríkisskuldabréfum. Við verðum að læra að haga fjármálum okkar á þá lund, að sú tiltrú sé vakandi hjá þegnunum, að ekki sé annars staðar betra að eiga sína fjármuni en í skuldabréfum hjá íslenzka ríkinu. Og það er alveg rétt, sem einn hv. þm. tók fram, að þessi tiltrú verður ekki vakin nema með því móti; að íslenzka ríkið sjái fótum sínum forráð, að þegnarnir hafi ekki ástæðu til að ætla, að svo óvarlega sé stýrt, að peningar, sem teknir eru í dag, verði lítils virði eftir 5–6 ár.