03.11.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (524)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Forseti (HG) :

Áður en gengið er til umr. um það mál, sem hér liggur fyrir, vil ég skýra frá bréfaviðskiptum, sem farið hafa fram um málið milli forseta Sþ. og ritstjóra Morgunblaðsins :

„Reykjavík, 29. okt. 1941.

Í Morgunblaðinu 25. þ. m. er í grein, með fyrirsögninni „Brezka stjórnin bauð Íslendingum að rifta fisksölusamningnum. Alþingi einhuga um, að hann gildi áfram.“ birt frásögn af því, er fram hafi farið á lokuðum fundi í sameinuðu Alþingi í síðast liðinni viku, er ræddur hafi verið fisksölusamningurinn við Breta, og kveðst blaðið hafa haft sannar spurnir af því, er gerzt hafi. Að þessu er og síðar vikið í greinum í blaðinu 26. og 28. þ. m.

Með því að Alþingi ályktaði, að mál þetta skyldi rætt fyrir luktum dyrum og í því verður að teljast fólgin skuldbinding af hálfu þingmanna um að segja ekki frá því, er á fundinum gerðist, allra sízt til birtingar í opinberu blaði, leyfi ég mér að spyrjast fyrir um, hvaðan blaðinu hafi komið þær fregnir af fundunum, er það hefur birt, og vænti ég svars hið allra fyrsta.

Haraldur Guðmundsson,

forseti sameinaðs þings.

Ritstjórn Morgunblaðsins: `

Þessu bréfi svarar Morgunblaðið á þessa leið :

„MORGUNBLAÐIÐ. Reykjavík, 1. 11. 1941.

Herra Haraldur Guðmundsson,

forseti sameinaðs þings.

Með bréfi, dags. 29. þ. m., spyrjist þér fyrir um, hvaðan Morgunblaðinu hafi borizt fregnir naf atkvæðagreiðslu um brezk-íslenzka viðskiptasamninginn, sem fram fór á lokuðum fundi í sameinuðu Alþingi á dögunum. Út af þessu skal yður tjáð eftirfarandi :

Almenningi var kunnugt, að umræður fóru fram á lokuðum fundum Alþingis um ýmis utanríkismál, m. a. um brezk-íslenzka viðskiptasamninginn. Fregnir höfðu einnig borizt um það, að Bretar hefðu lagt það einhliða á vald okkar Íslendinga að losna við samninginn. Þetta var á vitorði margra utan þings, og vitað var, að Alþingi átti að ákveða, hvort halda skyldi samningnum eða segja honum upp. Af þessu leiðir, að þess var beðið með mikilli eftirvæntingu, hvaða ákvörðun Alþingi tæki.

Úrslit atkvæðagreiðslunnar á Alþingi varð því brátt heyrum kunn, enda bárust blaðinu fregnir af henni frá ýmsum mönnum utan þings.

Valtýr Stefánsson.“