03.11.1941
Sameinað þing: 10. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (527)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég verð nú að segja það, að ef hæstv. atvmrh. er eins opinskár í tali við flokksmenn sína og hann er hér á Alþ., a. m. k. í þessari ræðu, þurfa þeir ekki að hafa mikið vit í kollinum til að ráða fleira af orðum hans en beint á að vera opinbert. Hvað átti hann nú t. d. við með orðum sínum áðan, þar sem skilja mátti, að svo hefði um samizt, að íslenzkir útflytjendur fengju afurðir greiddar í dollurum framvegis? Það væri gaman að heyra meira um það.

Enn fremur voru mjög athyglisverðar bendingar í skeyti því, sem ríkisstj, sendi til brezku stjórnarinnar út af fisksölusamningnum og ráðherra las. Þar segir, að það liggi „í hlutarins eðli, að ríkisstj. hefur reynt að vinna gegn allri óánægju með samninginn og mun gera það áfram,“ en um leið er eins og kvartað sé yfir því að hafa ekki „vald til þess að hindra gagnrýni á einstökum atriðum samningsins beinlínis.“ Mér þætti fróðlegt að vita, hvers vegna ríkisstj. þykist þurfa í slíku skeyti að bera sig upp undan því, að enn sé hér nokkurt ritfrelsi. Hvaða ástæðu hafði hún til að setja þetta í skeytið? Vonandi ber ekki að skilja það sem hjálparbeiðni í innanlandsmáli, en það er þá a. m. k. mjög óviðeigandi auðmýktarafsökun þess, að ríkisstj. hefur mistekizt að bæla niður með flokkavaldi alla óánægju með samninginn.

Hæstv. ráðh, talaði mest um það, hvort samningurinn væri góður eða vondur, þótt það mál sé ekki til umr., heldur hitt, hvort rétt eða rangt hafi verið að ljóstra því upp, sem gerðist á lokuðum fundi Alþ. Hann óskaði þess, að þær umr. væru lokaðar, — fyrst og fremst umr., en síður niðurstaða þeirra, segir hann nú. Ekkert var tekið fram annað en að fundurinn með öllu, sem þar gerðist, skyldi vera lokuð bók. Hví gerði ráðh. það ekki strax að till. sinni, að ályktun fundarins yrði gerð fyrir opnum dyrum? Ætli hann hafi ekki haft sérstakar ástæður til þess þá að óska þess ekki? Það er ríkisstj. innan handar og eðlileg leið, og þá hafa þeir menn, sem hafa sérstaka afstöðu til þessa máls, tækifæri til þess að koma fram með hana. Nú er ákveðnum mönnum bannað að koma opinberlega fram með sína skoðun á sama tíma sem öðrum er leyft að túlka skoðanir þeirra á rangan hátt.

Hæstv. ráðh. vildi sannfæra menn um, að það væri málefninu einungis til góðs, að niðurstaða hins lokaða fundar hefði komið opinberlega fram. — Hér er ekki verið að ræða um það. Hæstv. ráðh. gæti kannske sannað, að það væri málefninu til góðs, en það réttlætir ekki aðferðina, sem viðhöfð er við birtinguna. Hæstv. ráðh. sagði enn fremur, að málefnalega sé það ekki aðeins heimilt, heldur skylda að skýra þjóðinni frá þessu. Hæstv. ráðh. hefði þá átt að rækja þá skyldu sína með því að hafa opinberar umr. og opinbera atkvgr. um málið. Svo kórónar hæstv. ráðh. ummæli sín með því að segja, að Morgunblaðið hafi með því að koma þessari vitneskju til þjóðarinnar bætt fyrir yfirsjónir Alþ.! Ó, hvað við eigum gott að eiga svona indælt blað! Ef Alþ. hefur ekki vit á því, hvað er þjóðinni fyrir beztu, kemur Morgunblaðið og bætir úr ávirðingum þess! Það er ekki amalegt að hafa slíkan dóm yfir Alþ. og sízt þörf á að örvænta um hag þjóðarinnar meðan svo er. — En mætti ég spyrja hæstv. atvmrh.: Ef Morgunblaðið hefði fengið vitneskju um það, hvað hér var að gerast skömmu fyrir hernámið, segjum 9.–10. apríl 1940, og það hefði þá skýrt þjóðinni frá því, hefði það þótt þjóðinni til góðs? Var þá sjálfsagt að skýra frá þeirri vitneskju, og hvað hefði hæstv. ráðh. þá sagt? Það má vel vera, að einhverjum hefði þótt það gott, en ekki hæstv. ráðh.

Það hefur komið fyrir, að þótt málefni hafi verið rædd á opnum fundum, þá hefur hæstv. ráðh. stundum kunnað því illa, ef reynt hefur verið að koma víða út frásögnum. — En hér er ekki verið að ræða um þetta málefnalega. Ég get verið þeirrar skoðunar, að það sé bezt fyrir mig og mitt blað að fá að segja sem allra mest frá hinum lokaða fundi og finnst hart að vera enn bundinn, — en það getur aldrei verið rétt, að eitt blað eigi að hafa dómsvald til að kveða á um það, hvort Alþ. eigi að birta opinherlega málalok af lokuðum fundi þess.

Hv. flm. minntist á, að ef það hefði verið mitt blað, sem skýrði frá þessu, mundi hafa kveðið við annan tón, þá hefði ekki skort gagnrýni hjá hæstv. ráðh. Ég býst við, að slíkt hefði þá verið kallað landráð. — En það var ekki ég eða mitt blað, — nú var það Morgunblaðið, sem bætti úr yfirsjónum Alþ. Þó skilst mér, að það sé einkum að bæta úr yfirsjónum hæstv. atvmrh., að láta ekki fram fara opinberar umr. um málið. Ég verð að óska alvarlega eftir, að við fáum rétt til að skýra frá okkar afstöðu, eftir að svo mikið hefur komið fram um afstöðu hæstv. ráðh., sem raun er á orðin. En það snertir að sjálfsögðu fisksölusamninginn, en ekki það mál, sem hér er til umræðu.

Er trúnaðarbrotið við Alþ. réttlætanlegt? — um það verður Alþ. að fella sinn úrskurð. Þessi till. er því engan veginn neitt grínplagg, eins og hæstv. ráðh. vill vera láta. Ég er þess einnig fullviss, að það hefði ekki verið skoðað sem grín, ef mitt blað hefði átt hlut að máli.

Ég veit það fullvel, að ritstjórar blaðanna vita oft fullvel ýmislegt, sem þeir þó jafnvel ekki segja frá. (Atvmrh.: Hvað þýðir þetta „jafnvel“?) Það þýðir, að ef ég væri bundinn við eitthvert blað, mundi ég telja það skyldu mína að sjá svo um, að blaðið ljóstraði ekki því upp, sem ég ætti að þegja um, hvaðan svo sem blaðið hefði sína vitneskju.

Ég hef verið ritstjóri við blað áður,en ég varð þm. og veit vel, hvernig hægt er að ná fréttum frá þingmönnum. Venjulega hefur samheldnin verið það mikil, að þjóðstjórnarflokkarnir hafa séð svo um, að blöð þeirra birtu ekki slíkar fréttir. Nú bregður öðruvísi við. Nú skerst eitt blaðið úr leik til þess að skýra frá máli á lokuðum fundi Alþ., það blað, sem talið er blað hæstv. atvmrh., birtir viðtöl við hann og fylgir algerlega hans stefnu. Þetta blað reynir að nota sé., hve aðrir eru bundnir, og segir rangt frá afstöðu þeirra í skjóli þess. — Ég verð nú að segja, að þegar þannig er brotinn trúnaður við Alþ., sé ég enga ástæðu til þess að verðlauna trúnaðarbrotið með því að gefa blaðinu tækifæri til þess að afflytja andstæðingana. — Alþ. verður að taka ákvörðun um þetta mál.

Nú vil ég bera fram eina spurningu til hæstv. ríkisstj. Till. sú, sem hér liggur fyrir, er áskorun til ríkisstj. um að láta fram fara rannsókn á því, hver gerzt hefur brotlegur við trúnað Alþ. Af hálfu ríkisstj. hefur hæstv. atvmrh. einn talað. Ef Alþ. samþykkir þáltill., má Alþ. þá treysta því, að sú athugun fari fram? Sú rödd, sem heyrzt hefur frá ríkisstj., lofar ekki góðu um það. — Þætti mér vænt um að fá svar við þessari fyrirspurn minni.