10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (534)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Það er nú svipað fyrir mér eins og hæstv. atvmrh., að hann hafði nú gleymt ýmsu úr þeim umr. um Þetta mál, sem síðast fóru hér fram. Og það er því meiri ástæða fyrir mig að hafa gleymt því, því að það var ekki allt svo merkilegt eða þess vert að setja á minnið, sem hæstv. atvmrh. sagði þá í sinni ræðu. Þar af leiðandi hefur nokkuð fyrnzt yfir það. Þó voru þar viss atriði, sem mér þótti vænt um að fá yfirlýsingu hans um, sem að mínum dómi er nokkur vísbending um það, hvar ber að leita upptakanna að þessu trúnaðarbroti, sem hér er um að ræða.

Ég sagði í síðustu ræðu minni hér m. a., að ekki væri til nema einn maður, að ég héldi, í landinu, sem ég héldi, að gæti skrifað þá grein, sem um er að ræða í Morgunblaðinu, sem hefði slíkan rithátt, og mig minnir, að ég tæki þannig til orða: svo glamurskenndan og ruddalegan. Og hæstv. atvmrh. lýsti yfir því síðar í umr., að þessi grein hefði verið alveg að sínum smekk, hefði verið ljómandi góð og prýðileg. Segir þetta nokkuð til um upptök greinarinnar. Ég vissi áður, að greinin var að hans smekk, og sennilega framleidd úr hans eigin hugskoti. Það gefur ekki litla bendingu um það, hvar upptakanna og rakanna til þessarar greinar er að leita, hver ummæli hæstv. atvmrh. er búinn að hafa um hana, — alveg eins og hann hefur gerzt sá eini málsvari þess hér á hæstv. Alþ., að þetta trúnaðarbrot var framið. Það berast því hér á hæstv. Alþ. nokkuð fast böndin að ákveðnum aðila í þessu efni.

Ég hirði ekki að fara inn á einstök atriði nánar. Ég hygg, að ég hafi tekið það nægilega fram í fyrstu ræðu minni um þetta mál, hve alvarlegt mál er hér á ferð og hversu það er þinginu alveg lífsnauðsyn fyrir þess framtíðarstarfsemi, að það sé tekið föstum tökum á þessu og komið í veg fyrir, að sá ósómi, sem hér hefur átt sér stað, geti komið fyrir oftar, sem er ekki aðeins þinginu, heldur líka þjóðinni stórháskalegur undir þeim kringumstæðum, sem nú eru, að það sé ekki hægt að ræða utanríkismál sín á milli án þess að farið sé með það, sem í þeim málum á að vera leynt, beint til þjóðarinnar, og þyrlað upp fullyrðingum, sem verða mega þeim í hag, sem gera slíkt, gagnvart sínum andstæðingum. Þetta sýnir mikið ábyrgðarleysi og gáleysi á svo alvarlegum tímum sem nú. eru, að þetta mál er ekkert glens eða hégómamál, heldur mjög alvarlegt mál. Og það alvarlegasta í því er það, að það skuli sitja í ráðherrasæti sá maður, sem álitur þetta mál eitthvert hégómamál, sem þm. séu að leika sér að. Það sýnir, hversu þessi atvmrh. er gersneyddur tilfinningu fyrir því, hvað hér er um að ræða.

Svo er annað í sambandi við það, sem fram hefur komið, sem vert er að benda á. Það er, að það blað, sem komið hefur með fréttir af lokuðum fundi á Alþ., sem áttu að vera leyndar, það segir frá öðru broti heldur en því, sem það er beðið að gefa upplýsingar um. Blaðið er beðið að gefa upplýsingar um það, hvaðan það hafi fréttina, sem það birtir af lokaða fundinum á Alþ. En það gefur upplýsingar um það, að það er búið að fremja annað trúnaðarbrot gagnvart þinginu. Í bréfi frá Morgunblaðinu standa þessi athyglisverðu orð :

„Fregnir höfðu einnig borizt um það, að Bretar hefðu lagt það einhliða á vald okkar Íslendinga að losna við samninginn. Þetta var á vitorði margra utan þings og vitað var, að Alþingi átti að ákveða, hvort halda skyldi samningnum eða segja honum upp.“

Hér er því lýst yfir, að áður en hv. alþm. fá að vita um, hvað á að leggja fyrir lokaða þingfundinn, þá veit Morgunblaðið um það, sem þá er leyndarmál, sem kemur frá ríkisstj. og brezku samninganefndinni. Er þetta rétt meðferð á utanríkismálum? Er sá ráðh., sem hér er að verki og sannað er upp á, að hefur brotið trúnað við hæstv. Alþ., fær um að fara með þessi mál framvegis? Nei. Það rekur hver skömmin aðra hjá honum, þegar farið er að rannsaka þetta mál. Þetta skeyti hafði komið daginn áður en það var lagt fyrir hæstv. Alþ. Og það getur því ekki hafa komið frá neinum nema atvmrh., hvað átti að ræða á lokaða fundinum. Það er eins og hér séu börn að verki, sem ekkert vita, hvað þau eru að gera, og það á jafnháskalegum tímum eins og nú eru. Og svo leyfa þessir aðilar sér, sem búnir eru að gefa það bæði skriflegt og munnlegt hér á hæstv. Alþ., að þeir hafi staðið að þessu trúnaðarbroti og séu margsekir í því, að láta sér um munn fara, að hér sé bara um grín að ræða. Það er kominn tími til þess fyrir hæstv. Alþ. að fara að setja þessa menn frá stjórnarstörfum og þá menn að, sem álíta, að með alvöru eigi að ganga að þessum málum. Og mér væri forvitni að sjá framan í þann þm., sem áliti, að hér sé um hégómamál að ræða, þó að eitt af stærstu blöðum landsins haldi því fram, þegar ljóstað er upp hverju leyndarmálinu á fætur öðru, sem á að vera leynt meðan farið er með það af þinginu.

Það voru ýmis atriði, sem athyglisverð voru í ræðu hæstv. atvmrh., en öll voru á sömu bókina lærð og sýndu hið framúrskarandi skilningsleysi á því, hvaða alvörumál hér er um að ræða Hann spurði mig, hvað það væri í meðferð þessa máls, sem gæti orkað því, að menn snerust móti samningnum.

Þetta tvöfalda trúnaðarbrot, sem framið hefur verið, að skýra fyrst blaði frá því, að málið eigi að leggja fyrir Alþ., koma síðan og biðja um lokaðan fund um málið og í viðbót að skýra síðan Morgunblaðinu frá því, sem gerðist á þessum lokaða fundi, og reyna, í skjóli drengskaparheita annarra hv. þm., að vega í þann knérunn, sem gæti orðið málstað viss aðila til framdráttar. Það er gefinn hlutur, að eins og atvmrh. er að leitast við að eigna sér samninginn, sem hann á ekkert í fremur en aðrir, en gerir það sínum flokki til framdráttar, þá er hann að veikja aðstöðu sinnar eigin þjóðar til þess að fá samninginn endurbættan. Svo er hver silkihúfan upp af annarri, þannig að það er búið að fara með þennan samning þannig, að það er búið að skapa megna andúð gegn honum, bæði á Íslandi og í Bretlandi. Og það hefur komið fram orðsending erlendis frá, að það geti orðið háskalegt fyrir frelsi landsins, ef þessi meðferð heldur áfram á málum sem þessu. Og ef um er að ræða að velja um, annars vegar nokkurra milljóna króna hagnað af samningum, en hins vegar frelsi landsins, þá segi ég : Látum heldur milljónirnar fara, en höldum frelsinu.