10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (536)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það orkar ekki tvímælis, að það er nauðsyn fyrir afgreiðslu ýmissa stórmála að geta haft um þau fullkominn trúnað og leynd, og á þetta er lögð rík áherzla í öllum þjóðfélögum, sem tilheyra því, er nefnt er réttarríki. — Það er vitanlega jafnnauðsynlegt fyrir okkur og aðra að viðhafa slíka leynd, og oft geta úrslit hinna mikilvægustu mála oltið á því, að þetta megi takast, því að á vissu tímabili getur staðið þannig á, að afgreiðsla máls sé undir þessu komin.

Hvert einasta þjóðfélag hefur sett um þetta löggjöf, og það höfum vér einnig gert, þ. e. í nýju hegningarlögunum, og lagt við því að ljóstra upp því, sem skylt er að þegja yfir á leynilegum fundum, allstranga refsingu.

Nú er þessa sérstök nauðsyn fyrir okkur síðan við tókum við okkar utanríkismálum, og þau eru stærri í meðförum og alvarlegri en áður var. Hins vegar er ekki að undra um jafnungt ríki og íslenzka ríkið, — sem ekki hefur farið með utanríkismálin að fullu fyrr en nú fyrir skömmu, þótt við höfum ráðið þeim að mestu síðan 1918 —- þótt jafnmikils þroska hvað þessu viðvíkur gæti ekki hjá okkur og öðrum þjóðum, sem vita, hve slík þagmælska er nauðsynleg og mikils virði. Má ef til vill á þann hátt afsaka, að meiri óvarfærni gætir hjá okkur, enda hefur svo óneitanlega viljað við brenna. Þetta er ágalli, sem við verðum að leiðrétta, og það er hættulegt, ef sú leiðrétting tekst ekki.

Hins vegar verð ég að telja það vafamál, hvort á að afgr. þetta mál á þann hátt, sem till. fer fram á, því að um fleiri leiðir er að ræða, sem eru jafneðlilegar, einkum þegar þess er gætt, hvernig við höfum almennt hagað okkur í þessum málum. Ég álít því rétt, að till. verði vísað til n. en ég ætlast til, að af hinum fáu ummælum mínum um mál þetta sé ljóst, að ég æski þess ekki, að henni verði vísað til n. til þess að verða svæfð þar, eins og oft vill verða. Ég álít, að með því að vísa málum til n. skapist hið rétta svigrúm fyrir Alþ. til þess að afgr. málið með þeirri yfirvegun, sem það á skilið.

Það ætti öllum að vera ljóst, að hér er ekki verulegur vandi á höndum, en verði till. samþ. eins og hún liggur fyrir, hefur Alþ. lagt fyrir sína dómstóla að hefja sakamálsrannsókn. Það kann að vera, að það sé vilji Alþ., en hins vegar ber að taka fullt tillit til þess, sem áður hefur verið gert. Verði till. felld, sem ekki er líklegt, hefur Alþ. kastað frá sér leynd þeirra mála, sem þagmælsku er þörf um, og er slíkt tvímælalaust hættulegt fordæmi.

Það eru möguleikar til þess að afgreiða málið á þann veg frá þinginu, að fullt aðhald skapist í framtíðinni, en þó sé það afgr. með fullri gætni og þannig, að heiðri þingsins sé samboðið. Ég legg því til, að umr. sé frestað og till. vísað til nefndar.