10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (539)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Forseti (HG) :

Ég skal ekki lengja þessar umr. En út af þeirri skýringu, sem hæstv. atvmrh. gaf áðan, vildi ég segja það eitt, að þar er um tvennt mjög ólíkt að ræða.

Það mál, sem hér er til umr., er um það, að brotinn hefur verið trúnaður við Alþ. með því að bera út fregnir af lokuðum fundi þess. Það er því með öllu óskylt máli því, sem hæstv. ráðh. talaði um og vildi bera það saman við. Þar var um að ræða skriflega kosningu á opnum fundi í sameinuðu þingi.

Ég skal í þessu sambandi taka það fram, að slik vottorðagjöf, sem þar átti sér stað, er mjög óeðlileg. Það kann að orka tvímælis, hvort ástæða var til að gefa slíkt vottorð, af því að þar var um að ræða leynilega kosningu. Ég taldi þó rétt að gera það, en ætla samt ekki að gera grein fyrir þeim ástæðum núna, sem til þess lágu. En þess vil ég geta, að ég álít óheppilegt og óeðlilegt að blanda þessu inn í þessar umr., því að hér er um mjög ólík mál að ræða.