10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (545)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það má segja um álit mitt á atvmrh., sem ég verð víst enn að kalla hæstv., „að lítið var, en lokið er.“ Og þetta er af þremur eða fjórum meginástæðum, auk margra, sem minna er um vert.

Sú er fyrst, að ráðh. hefur sýnt það hér við þessar umr., að hann þekkir ekkert til þeirra kafla siðfræðinnar, er ræða um trúnað og drenglyndi. Annaðhvort hafa honum aldrei verið kenndir þeir, hann ekki móttækilegur fyrir þau fræði, eða áhyggjur yfir „fjölskyldusjónarmiðum“ hafa með árunum þurrkað áhrif uppeldisins burt.

Sú er önnur, að hann viðhefur hér í þessum umr. siði og orðbragð götustráka. Þegar talað er um trúnaðarbrot við Alþ., þá fer hann að ræða um ágæti enska fisksölusamningsins, sem er allt annað mál. Þetta sæmir ekki ráðherra.

Sú er hin þriðja, að þegar böndin berast að honum, og það má heita sannað, að það sé hann, sem er sögumaður Morgunblaðsins, þá fer hann að eins og götustrákur og fer að reyna að leiða athyglina frá sér og benda á, að aðrir í öðrum dæmum hafi líka brotið trúnað Alþ. Þetta gera lítilmenni oft í rökþrotum og vandræðum.

Og loks er svo sú fjórða, og það er það dæmafáa alvöruleysi, sem þessi maður ávallt sýnir í öllum málum, sem ekki snerta Kveldúlf sérstaklega. Ég í þessu máli er þetta svo áberandi, að hann heldur það einhvern gamanleik, þótt vitað sé, að sá níðhöggur er meðal þm., sem lepur í Morgunblaðið það, sem hann hefur sjálfur samþykkt, að skyldi einungis vitnast innan veggja Alþingis.

Ég vil nú aðeins skýra frá staðreyndum í þessu máli, eins og þær liggja fyrir frá mínu sjónarmiði.

Á hinum lokaða þingfundi las hæstv. atvmrh. upp símskeyti frá Pétri Benediktssyni í London, þar sem frá því er skýrt, að við megum rifta fisksölusamningnum, þ. e. segja honum strax upp. Hann segir okkur frá, að þetta skeyti hafi hann fengið sama morguninn og að ekki sé farið að ræða það við viðskiptanefnd. Eftir því má fullyrða, að ráðherrarnir, eitthvað af skrifstofufólki í stjórnarráðinu og einhverjir starfsmenn á landssímanum hafi þá verið búnir að sjá skeytið og þeir vitað, að við máttum rifta samningnum.

Í svari Valtýs Stefánssonar til forseta, vegna fyrirspurnar hans til Morgunblaðsins um, hvaðan það hafi fengið upplýsingar af lokaða fundinum, segir Valtýr, að margir menn úti um bæinn hafi vitað um innihald skeytisins. Það má því öllum vera ljóst, að þessir mörgu menn úti um bæinn hafa hlotið að fá vitneskju sína um innihald skeytisins frá einhverjum, er þekktu það, en það voru, eftir upplýsingum hæstv. atvmrh., ráðherrarnir einir og svo eitthvað af skrifstofufólki. Þessir eða einhverjir þeirra hafa því hlotið að vera sögumenn þessara mörgu bæjarmanna.

En svo skeður annað. Á lokaða fundinum ber hæstv. atvmrh.. fram till. um það, hvort segja skuli samningnum upp frá okkar hálfu eða ekki. Og þetta segir Valtýr líka, að margir menn úti í bæ hafi vitað að átti að gera.

Hver gat sagt mörgum mönnum úti í bæ, hvað hæstv. atvmrh, ætlaði sér að gera, með því að leggja fram till. á lokaða fundinum, annar en hæstv. atvmrh. sjálfur? Höfum við nokkurn mann, sem getur lesið í hug hæstv. atvmrh. og sagt mörgum mönnum, hvað hann ætli að bera fram á lokaða fundinum og láta ganga til atkv. um, annan en hann sjálfan? Sjá nú ekki allir, hver strákurinn er, sem lapið hefur í Morgunblaðið? Ég held það liggi ljóst fyrir. Og sá maður hefur fyrirgert virðingu minni, sem raunar var lítil áður, en er nú með öllu horfin.