10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (547)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Flm. (Sveinbjörn Högnason) :

Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni. Í þessum umr. er það þó orðið bert, að hæstv. atvmrh., sem lengst hefur gengið í því að verja þetta mál, finnst nú jafnvel skömm til þess koma, og hann reynir að finna einhverja leið út úr ógöngunum, sem náttúrlega er alveg jafngáfuleg eins og annað fleira, sem hann hefur flutt í þessu efni.

Þessi hæstv. ráðh. segir, að hann geti alveg eins vel trúað því, að ég hafi gert þetta, ég hafi farið til Morgunblaðsins til þess að fá tækifæri til að ráðast á hann fyrir að hafa gert þetta, og má af því sjá, að hæstv. ráðh. þykir ekki sómi að þessu máli og vill því gjarnan koma því yfir á mig. En ég get fullvissað hæstv. atvmrh. um það, að hann er orðinn ber að því, hver er hans afstaða í þessu máli, svo að það er tilgangslaust fyrir hann að reyna að koma skömminni af sér. Þá ferst hæstv. atvmrh. líkt og drengjum, sem eru að mana hvor annan, annar hefur hlaupið ofan í fjóshauginn og segir svo við hinn: Þú þorir ekki, þorir ekki. — En ég get fullvissað hæstv. atvmrh. um það, að hvað mikið sem hann manar mig, þá hef ég þó það mikla ábyrgðartilfinningu gagnvart Alþ., að ég mun aldrei hlaupa ofan í það hyldýpi, sem hann situr nú fastur í. Ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að það verði tekin til athugunar og lögð fram við næstu umr. rök hæstv. atvmrh. og gögnin frá brezku ríkisstj., svo að mér gefist tækifæri til að gefa upplýsingar gagnvart minni atkvgr. Ef þetta verður ekki gert, skoða ég mig bundinn mínu þagnarheiti. Mér er sama, hvað maður eins og atvmrh, manar mig til að brjóta mitt þagnarheiti, — ég geri það ekki.

Þá vildi hæstv. atvmrh. koma því inn, að ég vildi frekar fara með ósatt mál, ef ég gæti, heldur en hitt. Ég skal nú aðeins benda á dæmi um það, að hæstv. atvmrh. fer heldur með ósatt mál en satt, ef hann getur. Þó að málið sé óskylt, skal ég taka það til dæmis, að hv. þm. segir, að útborgunarverð mjólkur sé 30–40 aurar samtímis því, sem útsöluverð sé 80 aurar. Í þessu tilfelli kýs hæstv. atvmrh. fremur að segja vísvitandi ósatt en satt.