10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (548)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég verð að játa það, að ég skil ekki, hvaða stig sauðfjársjúkdóma hefur grípið hv. 1. þm. N.-M. Ég verð að segja það, að ég skildi ekki hans hugsanagang rétt vel, en þó mátti af því, sem hann sagði, ráða það, að ég hefði átt að segja Morgunblaðinu frá þessari fregn áður en Alþ. hafði tekið afstöðu til málsins. (PZ: Hver kom með þá till. á fundinum?) Er sjúkdómurinn orðinn svona magnaður? Getur ekki maðurinn skilið það? Hverjum dettur annað í hug, ef sú fregn berst, að Íslendingar geti fengið einhliða riftunarrétt á stærsta verzlunarsamningi, sem gerður hefur verið, en að Alþ. eigi að taka ákvörðun um það, hvort honum skuli riftað eða ekki? Hvaða skrípalæti eru hér á ferðinni? Það er yfirganganlegt ólán, að maður skuli þurfa að hlusta á svona þvaður í alvarlegum málum.

Varðandi þau ummæli hv. 1. þm. Rang., að ég hafi gripið til ósanninda vitandi vits, af því að ég hefði heldur viljað segja ósatt en satt, og að ég hafi sagt, að bændur fengju milli 30–40 aura fyrir mjólkurlítrann, vil ég taka þetta fram. Ég átti þátt í því nú fyrir 1–2 mánuðum — ég skal bæta því við, að heimildin er náttúrlega ekki merkileg, en er höfð eftir tveim merkum bændum, þeim Stefáni í Reykjahlíð og Einari bónda í Lækjarhvammi, — að spyrjast fyrir um það, hvert útborgunarverðið væri, og sögðu þessir menn mér, að hv. 1. þm. N.-M. hefði sagt, að mjólkurverðið mundi verða rúml. 38 aurar. (PZ: Ekki satt.) — Hér kom fram góð uppástunga frá hv. 1. þm. Rang. um, að þessi skjöl í málinu verði prentuð, og vil ég beina því til hæstv. utanrmrh., hvort það er ekki hægt. Svo þegar það er búið, skora ég á þennan hv. þm. að koma fram úr þessu skjóli og gera grein fyrir því, hvað það er, sem hann er að reyna að koma sér undan.