17.11.1941
Sameinað þing: 12. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (557)

17. mál, lambauppeldi á mæðiveikisvæðinu

Flm. (Jón Pálmason) :

Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 25, frá mér og hv. 5. landsk. þm., fer fram á það að skora á ríkisstj. að hækka það fjárframlag, sem veitt er til stuðnings bændum á fjárpestarsvæðinu, þannig að hægt verði að greiða 25 krónur á lamb í uppeldisframlag á þessu ári.

Ástæðurnar fyrir þessari brtt. eru að mestu teknar fram í grg. hennar, sem eru þær, í fyrsta lagi, að eftir því, sem fjárpestin útbreiðist meira og varnirnar gegn útbreiðslu hennar bila meira, eftir því verða líkurnar minni fyrir því, að hægt verði að grípa til þeirra ráðstafana, sem orðaðar hafa verið, að útrýma þessum voða með niðurskurði, og þá er brýn þörf á að koma í veg fyrir, að sú framleiðsla, sem byggist á sauðfjárræktinni, leggist niður eða minnki á þessum svæðum, sem fyrir þeim vágesti hafa orðið sem fjárpestin er. Í öðru lagi er þess að geta, að það, sem farið er fram á hér, sem sé að framlagið verði 25 kr. á lamb í uppeldisframlag, er ekki hlutfallslega hærra framlag, miðað við verðlagsbreyt. þá, sem orðið hefur í landinu, heldur en þessi styrkur upphaflega var.

Í þriðja lagi er þess að geta, að þeir örðugleikar, sem landbúnaðurinn á nú við að stríða og m. a. gera það að verkum, að fólkið fer meira frá þeirri framleiðslu nú heldur en þó áður hefur verið, þeir koma náttúrlega langharðast niður á þeim landshlutum, sem hafa skerta sína framleiðslu jafnmikið og orðið er á þessum fjárpestarsvæðum.

Ég tel þess vegna, og við flm. þessarar þáltill., að það sé mjög sanngjarnt að fara þessa á leit, sem þáltill. er um, m. a. vegna þess að við teljum, að tilkostnaður við framleiðslu landbúnaðarvara verði svo mikill í samanburði við verð á þeim, að sanngjarnt sé að hækka þetta framlag. Og ég fyrir mitt leyti tel, að sú hvatning, sem í þessari hækkun felst, ef samþ. verður, sé eina leiðin til þess, að sauðfjárrækt geti haldizt í viðunandi horfi á fjárpestarsvæðinu.

Ég geri ráð fyrir því, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að þessi þáltill. muni hafa það í för með sér, ef samþ. verður, að hækka þurfi fjárframlag til þessara uppeldisframlaga sem svarar hátt á þriðja hundrað þús. króna. hað munu hafa verið síðast um 20000 kindur, sem veittur var uppeldisstyrkur á, og má ætla, að tala þeirra kinda verði eitthvað svipuð næst. Þess er að vísu að geta, að það hefur enginn látið sér detta annað í hug en að þessi styrkur yrði eitthvað hækkaður, þó ekki yrði að því marki, sem við flm. þáltill. leggjum til. En annars er um það atriði það að segja, að ég geri ráð fyrir því sem sjálfsögðu, að það verði athugað nánar í hv. fjvn., sem ég geri till. um, að þessari þáltill. verði vísað til að þessari umr. lokinni, hve mikil fjárútlát þetta hefur í för með sér.