20.11.1941
Sameinað þing: 15. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Enda þótt till., sem hér er fyrst á dagskrá, snerti mig allverulega, þar sem ég er flm. hennar, hefði ég viljað sætta mig við þá afgreiðslu, sem felst í nál. allshn., því að þar kemur fram augljós þingvilji að vita slíkt framferði, sem till. greinir frá.

Ég verð samt að segja, að þar sem hér hefur komið fram mikill misskilningur á eðli málsins hjá þeim hæstv. atvmrh. og hv. þm. S.-Þ., tel ég að athuga verði þetta mál miklu nánar, og einkum með tilvísun til þess, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að hér væri nýtt mál í uppsiglingu, eins konar „kollumál“, tel ég því fjarstæðara að slíta þingfundum svo skjótt. Ég tel því sjálfsagt, að Alþ. gefist tækifæri til að athuga betur bæði þetta mál og það mál, sem hv. þm. S.-Þ. hefur boðað.

Það skiptir engu máli, hverju einn nauðaómerkilegur ráðh. heldur fram í þessu efni. Ég segi nei.