21.11.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

Þinglausnir

forseti (HG) :

Ég mun ásamt skrifara ganga frá fundargerð þessa síðasta fundar í sameinuðu þingi og lít svo á, að þingið fallist á það án atkvgr., ef enginn mælir því í gegn.

Þá vil ég samkvæmt venju lesa stutt yfirlit um störf þingsins.

Þingið hefur staðið frá 13. okt. til 21. nóv., eða samtals 40 daga.

Þ i n g f u n d i r hafa verið haldnir:

Í neðri deild 27

— efri deild 24

— sameinuðu þingi 16

Alls 67 þingfundir

Þ i n g m á l og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp :

1. Stjórnarfrumvörp:

a. Lögð fyrir neðri deild 2

b. — — efri deild 1

— 3

2. Þingmannafrumvörp :

a. Borin fram í neðri deild 9

b. — — í efri deild 6

— 16

– 18

Þar af :

a. Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrumvörp 2

Þingmannafrumvörp 6

— alls 8 lög

b. Fellt :

Þingmannafrumvarp 1

c. Ekki útrædd :

Stjórnarfrumvarp 1

Þingmannafrumvörp 8

—18

II. Þingsályktunartillögur:

a. Borin fram í neðri deild .... 1

b. Borin fram í efri deild ...... 1

c. Bornar fram í sameinuðu þingi G

— 8

Þar af :

a. Þingsályktanir afgr. til stj.:

1. Ályktanir Alþingis .... 2

2. Ályktun efri deildar … 1

—- alls 3 þál.

h. Felld ....... ................... 1

e. Ekki útræddar .................... 4

— 8

Þar af:

a. Þingsályktanir afgr. til stj.:

1. Ályktanir Alþingis …. 2

2. Ályktun efri deildar … 1

— alls 3 þál.

h. Felld ……………… 1

c. Ekki útræddar …….. 4

8

Mál til meðferðar í þinginu alls .......... 26

Störfum þessa Alþingis er nú lokið. Það er

hið 58. löggjafarþing, en 73. samkoman frá því er Alþingi var endurreist. Það er annað aukaþingið, sem haldið er á þessu ári, en hið 14. í röð aukaþinga.

Tvær meginástæður lágu til þess, að þetta aukaþing var kvatt saman: Hin fyrri sú, að eigi náðist samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til þess að vinna gegn dýrtíðinni samkvæmt lögum frá síðasta reglulega Alþingi. Þar sem þessi löggjöf því eigi varð framkvæmd og ágreiningur varð einnig um, hverjar aðrar aðgerðir skyldi upp taka, mun ríkisstjórnin hafa talið rétt að leggja málið fyrir Alþingi á ný.

Önnur ástæðan var, að ríkisstjórnin taldi rétt og skylt að gefa Alþingi skýrslu um mikilsvarðandi utanríkismál og kynna sér álit þess á einstökum þýðingarmiklum atriðum í sambandi við samninga við stjórnir Bretlands og Bandaríkja Vesturheims.

Þessi tvenn viðfangsefni, hversu haga skuli sambúð okkar og viðskiptum við þessi tvö stórveldi og á hvern hátt skuli jafna niður þeim sameiginlegu byrðum, sem þjóðin óhjákvæmilega verður að bera, ef takast á að stöðva hina sívaxandi dýrtíð, hefur Alþingi það, sem nú lýkur störfum, haft við að fást.

Um hið fyrra viðfangsefnið skal ei fjölyrt hér. Alþingi hefur þar skorið úr þeim málum, sem fyrir það voru lögð.

Um hið síðara skal þetta sagt:

Tvö frumvörp voru lögð fyrir Alþingi um ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Voru þau flutt að tilhlutun tveggja af flokkum þeim, er styðja ríkisstjórnina, sitt af hvorum. Var annað þeirra frumvarp til nýrrar löggjafar um þetta efni, áður lagt fyrir fund í ríkisstjórninni, og náðist eigi samkomulag um það þar. Alþingi felldi þetta frumvarp. Hitt frumvarpið var um breytingar á og viðauka við gildandi löggjöf um ráðstafanir gegn dýrtíðinni. Það varð eigi afgreitt.

Forsætisráðherra baðst lausnar fyrir ráðuneytið, þegar sýnt var, að eigi náðist samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um frumvarp það, er þar var lagt fram, og veitti ríkisstjóri ráðuneytinu lausn, eftir að Alþingi hafði fellt frv. þetta. Eftirgrennslanir ríkisstjóra um myndun nýrrar ríkisstjórnar, sem einn eða tveir flokkar stæðu að, báru engan árangur.

Málalok urðu því þau, að samstjórn sömu þriggja flokka og áður var mynduð í ný. Eru ráðherrar hinir sömu og verkaskipting óbreytt. Forsætisráðherra tjáði Alþingi, er stjórnarmyndunin var tilkynnt því, að tilætlun ríkisstjórnarinnar sé að nota heimild gildandi laga til þess

að koma í veg fyrir aukningu dýrtíðarinnar og leita eftir því til næsta þings, hvort unnt sé að ná samkomulagi um þau mál, sem ágreiningi hafa valdið.

Enn sem fyrr munu verða misjafnir dómarnir um störf Alþingis, að þessu sinni ef til vill ómildari en oft áður. Alþingi hefur ekki tekizt að gera þessu viðfangsefni full skil. Það hefur slegið því á frest fyrst um sinn, í trausti þess, að notaðar verði heimildir gildandi laga og að á þann hátt takist að afstýra vaxandi verðbólgu, þar til það kemur næst saman til fundar.

Það er einlæg von mín og okkar alþingismanna, að svo megi verða. Og þá ekki síður hitt, að næsta Alþingi takist að bæta um það, sem vangert kann að reynast, og gera viðfangsefni þessu full skil á þann hátt, sem þjóðinni allri er fyrir beztu í bráð og lengd.

Að svo mæltu þakka ég hv. alþingismönnum samstarfið á þessu Alþingi. Þingmönnum þeim, sem heima eiga utan Reykjavíkur, óska ég fararheilla og góðrar heimkomu. Og landsmönnum öllum árna ég árs og friðar.