21.10.1941
Neðri deild: 3. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

4. mál, húsaleiga

Garðar Þorsteinsson:

Ég verð að segja það, að ég varð mjög undrandi, þegar stj. gaf út bráðabirgðalögin, sem hér liggja fyrir, sama daginn og l. frá síðasta þingi um húsaleigu voru staðfest.

Því verður ekki neitað, að húseigendur eru þeir einu þegnar þjóðfélagsins, sem bókstaflega virðist hafa verið keppzt um að svipta sem mestu af rétti sínum yfir sínum eigin eignum og rýra tekjur þeirra á allan hátt. Öll þau l., sem út hafa verið gefin um húsaleiguna síðan stríðið hófst, hafa gengið út á að halda dýrtíðinni niðri að þessu leyti. Þetta hlýtur að vera út úr vandræðum gert. Mér skilst líka, að þessi stefna sé orsök þess, að nú er komið sem komið er í húsnæðismálunum. Ég er sannfærður um, að húsbyggingar hafa stöðvazt mikið til af þessum ástæðum. Enda munu heldur aldrei, sem betur fer, hafa verið eins mikil húsnæðisvandræði og einmitt nú í haust. Húsbyggingar hafa á undanförnum árum verið með minnsta móti, sem er bein afleiðing þess, hvernig löggjafinn hefur tekið á þessum málum frá upphafi.

Annars fæ ég ekki séð, hvað þessi brbl. fá bætt úr húsnæðisvandræðunum. Ég fæ ekki séð, að þau geri annað að verkum en það, að þeir, sem eru í húsnæði, geti setið þar áfram í trássi við eigendur húsanna og þrátt fyrir það, að aðrir sem hafa meiri siðferðislegan rétt til húsnæðisins, verða að vera úti á götunni. Ég sé ekki eitt einasta atriði, sem bætir úr vandræðunum. Það hafa nokkur tilfelli komið fyrir dómstólana um það, hvernig afleiðingarnar hafa orðið út af þessu. Halda menn, að það bæti úr húsnæðisvandræðunum, svo ég taki dæmi, sem ég þekki til, að það er fjölskylda, sem fór í vor í sumarbústað, húsnæði, sem hægt er að komast af með yfir sumarið, þegar bezt er tíðin. Þessi fjölskylda lánaði húsnæði, sem hún hafði leigt hér í bænum, en þegar hún ætlaði að flytja í það aftur,

komst hún ekki inn. Fólkið, sem þessi fjölskylda hjálpaði upp á, neitaði að fara og notar sér m. a. af þessum brbl., sem hér hafa verið sett. Ég get ekki séð þá bót, sem þetta veitir á húsnæðisvandræðunum. Í 1. frá 1941 eru ákvæði um, að leigusala sé óheimilt að segja upp húsnæði, nema hann þurfi að halda á húsnæðinu sjálfur fyrir sig eða fjölskyldu sína. Nú er þessu breytt með brbl. á þann hátt, að leigusala er óheimilt að segja upp, nema honum sé þess brýn þörf til eigin íbúðar. M. ö. o., mér skilst, að þarna séu tvenn 1., sem bæði eru í gildi og stangast algerlega. Í öðrum segir, að húsnæði megi ekki segja upp, nema húseigandi þurfi á því að halda fyrir sig eða vandamenn sína, en í hinum segir, að ekki megi segja upp, nema húseigandi hafi brýna þörf fyrir húsnæðið til eigin afnota. Ég veit ekki, hvernig hæstv. ráðh, hefur hugsað sér að framkvæma þetta. Ég get ekki séð, að brbl. felli úr gildi það ákvæði eldri 1., sem þetta brýtur í bága við. Nú er það svo, að húsaleigunefnd á að úrskurða um, hvort húseigandi þarf nauðsynlega sjálfur á húsnæðinu að halda. Ég verð að segja, að mér finnst það hart, að húseigendur skuli ekki hafa meiri umráðarétt yfir eignum sínum en þetta. Það er óneitanlega hart, að húseigandi skuli ekki geta valið, hverja hann hefur í húsum sínum, og þurfi að láta óviðkomandi menn sitja í húsnæði, sem hann hefur, jafnvel þótt einhver vandamaður hans hafi þörf fyrir það og hann vilji greiða fyrir honum. Ég verð líka að segja það, að mér finnst harla hart að setja ákvæði í brbl. um, að uppsagnir á húsnæði, sem áður voru lögmætar, skuli vera felldar úr gildi. Hverju eiga menn að treysta, ef ekki er hægt að treysta l., sem ekki eru samþ. fyrir lengri tíma en á síðasta Alþ.? Nei, það á nú ekki lengur að vera hægt. Mér finnst öryggi borgaranna vera orðið heldur lítið, ef þeir eiga ekki að geta treyst l., sem Alþ. setur, frá degi til dags. Ég skil ekki heldur, til hvers þetta ákvæði er sett. Úr hverja á það að bæta? — Svo er hér eitt enn, sem ég vildi benda á. Það er það, að maður, sem kaupir hús í þeim tilgangi að fá húsnæði sjálfur, hann getur ekki lengur fengið leigutaka burt fyrir sjálfan sig, ef húsið var ekki keypt fyrir gildistöku 1. Mér er ekki alveg ljóst, hvað ríkisstjórnin hefur hugsað sér með þessu ákvæði. Hún hefur sennilega litið svo á, að menn færu að kaupa hús til þess að koma leigutökum út með því að segjast þurfa sjálfir á húsnæðinu að halda. Þetta yrði þess valdandi, að fleiri húsasölur færu fram. Og þetta getur verið rétt. En hins vegar verð ég að segja, að eftir að búið er þessi ár, síðan upphaflegu 1. voru sett, að halda niðri húsaleigunni með örlítilli hækkun, þá finnst mér hart, ef svo á þar á ofan að fara að banna mönnum að selja hús. Það er ekki vafi á því, að húsaleigulögin hafa gert það að verkum, að margir hafi átt erfitt með að halda húseignum sínum, en margir mundu vilja kaupa sér hús núna til þess að afla sér húsnæðis. Þessi ákvæði um bann gegn því, að kaupendur húsa megi segja upp leigjendum til þess að komast sjálfir í íbúðirnar, verkar þannig, að þeir, sem eru komnir í vandræði með húseignir sínar, vegna hinna ströngu ákvæða, sem gilt hafa um húsaleigu, þeir geta ekki fengið kaupendur að þeim. Mér finnst það vera að bera í bakkafullan lækinn að ætla að halda áfram að níðast á þessari stétt manna. Ég skil heldur ekkert í því — nema ríkisstj. sé komin inn á algert héraðabann —, að bannað skuli vera að leigja öðrum húsnæði en heimilisföstum innanhéraðsmönnum. Það getur vel verið, að þetta sporni eitthvað við flutningi manna til bæjarins, en ég held, að það hefði verið viðkunnanlegra að setja almenn 1. um það, en binda þetta ekki við húsnæðið sérstaklega.

Ég hygg, að það sé fullkomin ástæða til þess fyrir Alþ. að athuga vel þessi húsnæðisvandamál, áður en þessi brbl. verða samþ. Ég hygg, að það „kaos“, sem hér er komið fram, hljóti að sannfæra menn um, að ekki hafi alls staðar verið haldið á spöðunum sem skyldi. Hvað sem því veldur og þrátt fyrir allar lagasetningar varðandi húsnæðismálin, hafa húsnæðisvandræðin aldrei verið meiri en nú.