28.04.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (1001)

42. mál, aðstoð við íslenzka námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi

Pálmi Hannesson:

Herra forseti ! Ég fyrir mitt leyti get unað við brtt. hv. fjvn. Þó vildi ég gjarnan, að styrkurinn næði einnig til þeirra kandídata erlendis, sem mér og öðrum þm. er kunnugt um að hafa lokið námi, en komaat ekki heim. Flestir þeirra vilja nota tímann til náms og rannsókna ytra og hafa enda e.t.v. lítið að starfa og lifa að mestu við sömu kjör og stúdentar.

Ég nefni t.d. Sigurð Þórarinsson jarðfræðing, er nú dvelst í Stokkhólmi og vera mun eitt hið mesta vísindamannsefni, er Íslendingar hafa eignazt um langan tíma, og Hermann Einarsson náttúrufræðing, er starfar nú á vegum fiskideildar atvinnudeildar háskólans við rannsóknir í Kaupmannahöfn. Ég óska yfirlýsingar hv. frsm. fjvn. um það, að hann og n. geti fallizt á, að þessir kandídatar og aðrir slikir njóti sömu kjara og stúdentar, samkv. þál. þessari, ef til kemur.