28.04.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (1005)

42. mál, aðstoð við íslenzka námsmenn á Norðurlöndum og í Þýzkalandi

*Eiríkur Einarsson:

Ég tel, að stjórn og þing hafi tekið máli því, er hér um ræðir, til öryggis fyrir námsmenn erlendis, með góðum skilningi. En þótt ég sé einn flm., þætti mér vænna um, að till. væri orðuð á annan hátt, og hefur sú skoðun mín skýrzt fremur við brtt. þær, er fram hafa komið. Mér hefði þótt eðlilegt, að fram hefðu komið einhver ákvæði, er tækju tillit til fjárhags og ástundunar stúdentanna, og þætti mér það sanngjarnari og viturlegri mælikvarði en í till. fjvn., er vill rígskorða styrkinn við visst tímabil. Vitanlega eru þeir til, er draga námið árum saman, því verður ekki neitað. En þetta var nú innskot, mín einkaskoðun, mér hefði þótt þessi rýmkun eðlileg, en þykir till. fjvn. aftur þrengja of mikið að.

Sízt var það stúdentunum að kenna, er stunda nám á hinu forna menntabóli, Norðurlöndum, þótt þeir tepptust þar. Nú er það einnig vitað, eins og hér hefur einnig komið fram, að það fer mjög eftir námsgreinum þeim, er stúdentar hafa stundað, hvort þeir geta sjálfir séð sér farborða að náminu loknu. T.d. munu verkfræðingar vera bezt settir. En hins vegar getur nám margra þeirra komið í góðar þarfir hér heima, þótt starfskraftar þeirra séu ekki eftirsóttir þar, sem þeir eru.

Að öllu samanlögðu þykir mér nokkur ástæða hér til endurskoðunar orðalags.