10.04.1942
Efri deild: 30. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

74. mál, lendingarbætur í Skipavík

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég þarf ekki að láta fylgja þessu máli langa framsögu. Það fylgir því ýtarleg grg. og umsögn frá vitamálastjóra og frá verkfræðingi, sem hefur athugað málið. Málið hefur tvisvar verið rannsakað, af tveimur verkfræðingum. Kemur þeim saman um, að eðlilegast sé að gera lendingarbætur á Selströnd, og eru sammála um, að Skipavík er staðurinn, sem á að velja. Það hefur áður verið veitt fé í fjárl. til lendingarbóta á Selströnd, í Gautshamarsbæli, 7 þús. kr., en það hefur verið ósamkomulag hjá sjómönnum þar nyrðra um, hvar ætti að hef jast handa, og hefur verið um a.m.k. 3, ef ekki 4, staði að ræða. En eftir að rannsóknir hafa farið fram, hefur komið í ljós, að Skipavík er rétti staðurinn. Vegna þess hafa þeir peningar, sem veittir höfðu verið úr ríkissjóði, ekki verið hafnir. En eftir að auðsætt þótti, hvaða stað skyldi velja, hef ég reynt að ýta undir, að samkomulag yrði meðal sjómannanna, og er það nú fengið.

Það þarf ekki að leiða frekar rök að því, að það er hin mesta nauðsyn, að mannvirki þetta komist í framkvæmd, því að bátar fást ekki tryggðir á legunni, enda hefur það komið í ljós, að þótt þarna séu ein beztu fiskimið við landið, hefur útvegurinn borið sig illa, af því m.a., hvað atvinnutímabilið er stutt, en það verður ekki lengt nema með góðri bátalegu.

Ég tel því, að þörfin sé tvímælalaus, því að þarna er töluverð byggð og gerðir út um 20 bátar. Einnig er verið að byggja þarna hraðfrystihús. Auk alls þessa er Skipavík einstök í sinni röð, því að þar má gera góða bátalegu með sáralitlum tilkostnaði. Það var gert ráð fyrir 28 þús. kr. tilkostnaði fyrir stríð.

Ég vona, að hv. n. fallist á að afgreiða málið sem fyrst, en ég mun senda n., sem eflaust verður sjútvn., teikningar af Skipavík og hinu væntanlega mannvirki, væntanlega með yfirlitsuppdrætti yfir hina lendingarstaðina, sem um var að ræða. Stórgrýti er þarna nóg til þess að byggja upp hafnargarðinn, svo að lítið þarf af útlendu efni.

Óska ég svo, að málið gangi til 2. umr. og sjútvn., en mun afhenda n. áðurnefndar teikningar strax og ég fæ þær sendar.