16.04.1942
Efri deild: 34. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

74. mál, lendingarbætur í Skipavík

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég vil þakka n. afgreiðslu þessa máls og get lýst yfir því, að ég er samþykkur þessari breyt., sem n. hefur gert, og álít hana vera til bóta. Að öðru leyti get ég fullvissað hv. þd. um það, að lendingarbætur á þessum stað eru nauðsynlegar og mjög aðkallandi. Þarna eru 20–30 bátar, og er lýst í grg., hvað þeir eiga við að búa. Mál þetta er flutt svo seint vegna þess, að ég vildi ekki koma fram með það, fyrr en það væri vel undirbúið. Þarna á Ströndum eru margar víkur og vogar, og vill hver eðlilega hafa lendingarstaðinn sem næst sér. Áður hafði verið veitt fé til lendingarbóta þarna á ströndinni, á öðrum stað, en ég lét ekki taka það fé, þegar það kom í ljós, að annar staður var hentugri, og hafa menn nú komið sér saman um það, allir sem einn, að þessi staður sé heppilegastur.

Vegna þessara athugana er frv. svo seint fram komið, og verð ég að biðja hv. d. velvirðingar á því, að það er ekki flutt fyrr.