24.04.1942
Sameinað þing: 8. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (1028)

98. mál, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti ! Ég skal vera fáorður um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að þetta mál fari til rannsóknar hv. fjvn. Og ég mun birta þeirri hv. n. ástæður nar fyrir því, að þessi þáltill. er fram komin. En ég get þó í örfáum orðum skýrt frá því, sem reyndar er að víkið í grg., að hér er ekki farið fram á neina sérstaka nýja fjárveitingu, heldur það, að Samábyrgðinni verði greitt stofnféð allt í einu. Ég hef borið þetta undir hæstv. fjmrh., sem hefur tjáð mér, að það muni frá sínu sjónarmiði koma í sama stað niður. Ástæðan fyrir því, að farið er fram á þetta, er sú, að vegna styrjaldarinnar hefur orðið mjög mikil breyting á endurtryggingum. Samábyrgðin er skyldug samkvæmt l. til að taka við af bátafélögum mestu af endurtryggingunum og verður að tryggja erlendis. Nú hefur Samábyrgðin orðið að færa endurtryggingar sínar frá Norðurlöndum, af því að þau eru lokuð, og, til Englands. Og kannske sumpart vegna þess ótta, sem styrjöldin hefur vakið um misfarir skipa, þá verður stofnunin að greiða iðgjöld af endurtryggingunum strax og um þær er beðið. En þetta veldur því, að stofnunin verður að hafa talsvert mikið veltufé, af því að hinni gömlu reglu, að iðgjaldagreiðendur skipa greiði iðgjöldin í tvennu lagi á ári, verður fylgt áfram. En Samábyrgðin verður hins vegar að greiða fyrir fram ársiðgjöldin af öllum tryggingunum, þegar tryggingar er beiðzt, en áður þurfti hún aldrei að greiða iðgjöldin fyrr en reikningsskil voru gerð.

Ég mun að öðru leyti gera hv. fjvn. grein fyrir málinu eins og n. óskar.