28.04.1942
Sameinað þing: 9. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (1044)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti ! þessari þáltill. er farið fram á það, að ríkisstj. láti undirbúa fyrir næsta reglulegt Alþ. till. mu framtíðarhúsakost og hentugan stað fyrir Menntaskólann í Reykjavík. Hér er um tvennt að ræða, nýtt skólahús og nýjan skólastað, eða réttara sagt rannsókn á því, hvar og hvernig hentugt sé að reisa skólann, og síðan verði till. um þessi atriði lögð fyrir næsta reglulegt Alþ.

Menntaskólahúsið er orðið 100 ára gamalt, því að menntaskólinn, sem þá hét latínuskóli, fluttist til Reykjavíkur frá Bessastöðum árið 1846. Ég tel rétt að rekja það mál að nokkru hér, áður en ég held lengra í ræðu minni. Þegar latínuskólinn var fluttur til Bessastaða, var honum fengið þar til afnota nokkuð gamalt hús. Síðan var tekið að gera við það, en þeirri viðgerð var aldrei lokið, vegna ófriðar, sem þá geisaði í álfunni. Og þegar fór að líða að 1830, komu fram kröfur um endurbætur á húsinu. Rektor skólans lagði til í bréfi, sem hann ritaði 1838, að gagngerðar breyt. væru gerðar á skólanum. Þá var komið til tals að flytja skólann til Reykjavíkur. Embættismannanefndin 1839 tekur svo þetta mál til meðferðar og klofnar um það. Meiri hlutann skipuðu: Bjarni. Thorarensen amtmaður, Bjarni Thorsteinsson amtmaður, Steingrímur Jónsson biskup, Árni Helgason stiftprófastur, Björn Blöndal sýslumaður og Jón Jónsson sýslumaður. Í minni hlutanum voru: Bardenfleth stiftamtmaður, Þórður Sveinbjörnsson háyfirdómar, Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti og Páll Melsted sýslumaður. Þessi nefnd samdi ýtarleg álit, sem lesa má í tíðindum frá fundum embættismannanefndarinnar. Álitin eru mjög merkileg vegna þess, að þar komu fram þá þegar allskýrt þau atriði, sem mjög hafa verið á baugi síðan þá, einkum utanlands, en það er skipun skólamála með tilliti til sveita og kaupstaða. Bardenfleth var með því að flytja skólann til Reykjavíkur, en þessi maður fer svo utan og lætur af embætti sínu sem stiftamtmaður. Segir dr. Jón Helgason biskup mér, að Bardenfieth hafi beitt sér fastast fyrir því, að latínuskólinn yrði fluttur til Reykjavíkur. Segir nú ekki af málinu fyrr en árið 1841, en þá er gefinn út konungsúrskurður 7. júní, sem undirbúinn er og lagður fram af háskólaráðinu í Kaupmannahöfn og stjórn latínuskólanna, þar sem ákveðið er að flytja latínuskólann til Reykjavíkur og stofna þar innan tíðar prestaskóla.

Ég hef talið rétt að rekja hér þetta sögukorn vegna þess, að því hefur verið haldið fram, sem ekki hefur við rök að styðjast, að það hafi verið Jón Sigurðsson forseti, sem hafi beitzt fyrir því að flytja skólann til Reykjavíkur. Meiri hluti embættismannanefndarinnar og meiri hluti þjóðarinnar var á móti flutningnum á skólanum. Og þau rök, sem um það voru borin fram, má lesa í tíðindum frá embættismannanefndinni.

Nú er málinu haldið áfram. Húsið er teiknað af einum frægasta húsameistara á Norðurlöndum. Síðan er það smiðað á Þelamörk í Noregi og flutt hingað tilhöggvið. Árið 1844 er grunnurinn byggður, og 1845 er svo skólahúsinu komið upp að mestu, alveg að utan og að miklu leyti að innan, enda er Alþingi endurreist einmitt í menntaskólahúsinu. Byggingu hússins að innan er svo haldið áfram veturinn 1845–46, og var henni lokið árið 1846. Húsið kostaði þá uppkomið 40000 ríkisdali, „þó að nærgætinn áætlunarreikningur áliti, að byggjast mundi af 14000 rd.“, segir Brandsstaðaannáll. Af þessu sést, að skeikað hafi til frá „nærgætnum áætlunarreikningum“ oftar en á vorum dögum viðkomandi slíkum framkvæmdum.

Konungsúrskurðurinn um flutning skólans er staðfestur 24. apríl 1846, og tekur skólinn fyrst til starfa í þessu nýja húsi 1. október sama ár með 33 nemendum. Þegar húsið var reist, var gert ráð fyrir, að í skólanum gætu verið 60–70 nemendur auk prestaskólanemenda, sem áttu að vera þar fyrst um sinn. En gert var ráð fyrir, að húsið rúmaði 100 pilta, þó þannig, að allmargir gætu haft þar heimavist. En það gekk heldur hægt með fjölgun nemendanna. 1870 voru þeir 65, 1875 voru þeir 70, 1880 93, árið 1900 102, 1920 162, 1925 276. Síðan hefur nemendatalan verið svipuð, eða kringum 250, og er þá hið fyllsta á sett með húsrúmið.

Það er öllum kunnugt, að þetta skólahús var með ágætum gert í upphafi vega, enda var næsta mjög til þess vandað, útveggir og innveggir hlaðnir úr tilhöggnu timbri, en ekki þiljað á grind. Og enn er viðurinn að mestu ófúinn og steinharður orðinn. Húsið hefur líka þennan langa tíma síðan það var byggt að mestu orðið að búa að fyrstu gerð. Árið 1874 voru, vegna konungskomunnar, gerðar lítils háttar aðgerðir á húsinu, og einnig var nokkuð dyttað að því 1907, af sömu ástæðum (vegna konungskomunnar þá;. Árið 1921 var enn konungskoma hingað til lands, og var húsið þá endurbætt í þriðja sinn. Það hefur verið notað við móttöku tiginna gesta, og hefur skólinn notið þess, en ekki hins, að hugsað hafi verið um þarfir skólans. 1930–31 var gert til muna við húsið og bætt um það eftir því, sem þá var unnt. En áður en viðgerðinni væri lokið, skall kreppan yfir, og reyndist ekki fært að endurbæta t.d. hátíðasal hússins, svo sem ætlað hafði verið. Ég reit hæstv. Alþ. þá bréf og þeirri nefnd, sem sá um undirbúning alþingishátíðarinnar, og fór fram á, að hátíðasalurinn yrði prýddur, m.a. með því að mála mynd á innvegg salarins af þjóðfundinum, er sýna skyldi það augnablik, er íslendingar í þeim sal á þjóðfundinum 1851 stóðu upp og mótmæltu aðförum Trampe stiftamtmanns. En þessum tilmælum var ekki sinnt. — Salurinn hefur verið í niðurlægingu og okkur til skammar, þangað til Bretar hafa nú á honum gert nokkra bót.

Nú er ekkert af húsinu að segja þangað til í maí 1940, er Bretar gerðu hernám sitt og tóku skólahúsið til sinna afnota. Því var lofað, að húsinu yrði skilað ekki síðar en 1. október sama ár, og var jafnframt samið um, að skólinn fengi að halda geymslurúmi allmiklu í skólanum. Allt hefur þetta brugðizt. Þegar herstjórnin fór úr skólahúsinu, var herspítali fluttur í húsið.

Húsið fer nú mjög að nálgast tíræðisaldurinn, og slitið á því hefur farið í vöxt. Allir þeir, sem þekkja, hve mikið mæðir á stofum og húsum yfirleitt, þar sem hundruð ungra manna og kvenna ganga um dags daglega, munu undrast, að þetta hús er sæmilega við lýði enn, eftir allt, sem á daga þess hefur drifið. En slitið er það mjög. Og það, sem hér skiptir mestu máli, er, að þrátt fyrir það, hve vel var til þess vandað í upphafi, þá er það nú orðið úrelt til skólahalds, kennslustofur þess of litlar og dimmar, því að gluggarnir eru miklu minni heldur en æskilegt og nauðsynlegt er á kennslustofum. Gangar eru einnig of litlir. Hvers konar afdrep vantar fyrir nemendur og ekki sízt hitt, að í skólann vantar mjög sérkennslustofur, snyrtiherbergi og annað það, sem horfir til fegurðarauka, en er býsna nauðsynlegur liður í uppeldi ungs fólks. Lóðin er allt of lítil, og nemendur eiga of litinn kost á að vera undir beru lofti, en til þess að það gæti orðið, vantar skýli þarna á lóðinni til afnota, sérstaklega þegar kalt er eða úrkomur.

Engu að síður er menntaskólinn tengdur húsakynnum sínum, og það svo, að mönnum er tamt að kalla húsið menntaskólann, þegar þeir sjá það af götunni. Og vissulega varð sú raunin, sem spáð var í upphafi, að það var mjög mikill skaði fyrir mennaskólann að þurfa að flytjast burt úr húsinu, og sérstaklega það, að komast á hrakning. Það er engri stofnun hollt og sízt skóla. Það hefur skapazt við það þverbrestur í allar venjur, sem tengt hafa nemendur við skólann. Og umgengnin í þessu húsi undir núverandi ástæðum hefur verið þannig, að húsið mun aldrei verða aftur það, sem það áður var í augum nemenda. Og þó að skólinn verði fluttur í húsið aftur, mun aldrei gróa um heilt milli stofnunarinnar og hússins framar. Það er að vísu talin nokkur von þess, að húsið verði látið af höndum nú á þessu sumri, en fullt öryggi er a.m.k. ekki fengið um það enn, að það fáist í notkun og leikfimishúsið og að burt verði teknar þær byggingar, sem reistar hafa verið í porti skólans. Og meðan svo er ástatt, að það er ekki gert, tel ég þess engan kost, að stofnunin verði flutt inn í húsið á nýjan leik. En ég held hinu hiklaust fram, að þó að skólahúsið fáist og öll hús skólans, þá sé samt nauðsynlegt að byggja yfir skólann sæmileg húsakynni, í fyrsta lagi af því, hve húsinu er ábótavant og það að ýmsu leyti fullnægir ekki þeim kröfum, sem til slíks húss á að gera, í öðru lagi fyrir þá hrakninga, sem skólinn hefur nú undanfarið þurft að sæta, og í þriðja lagi vil ég herma það upp á hæstv. Alt, að það greiði gamla skuld við húsið og standi að því með fullkomnum myndarskap að byggja hús yfir menntaskólann. Nú er í ráði að hlaupa undir baggann með stúdentum og reisa stúdentagarð. Stúdentar hafa orðið að vera á hrakningi að undanförnu. Skyldi ríkinu þá ekki líka bera á sama hátt skylda til að hlaupa undir baggann með þessari sérstöku stofnun sinni og byggla yfir menntaskólann góðan húsakost?

Mun ég nú láta lokið umr. um þennan þátt málsins, nauðsyn þess, að byggt verði yfir skólann. — Ég sé, að það hefur verið boðaður hér annar fundur í hæstv. Alþ., og skal ég því fresta ræðu minni, ef hæstv. forseti óskar þess.