30.03.1942
Neðri deild: 27. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

59. mál, bændaskóli

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég hef leyft mér, ásamt öðrum hv. þm., að flytja þetta mál hér. Ég get að vísu látið nægja að vísa til grg. frv., en ég mun þó í fáum orðum drepa á aðalatriði málsins. Nú á síðari árum hefur sífellt aukizt eftirspurn eftir að komast inn í bændaskólana, og fleiri og fleiri hafa þar orðið frá að hverfa, svo að nú er jafnmörgum vísað frá og þeim, sem inntöku fá. Bændaskólarnir taka nú til samans 80–90 nemendur, og skólavistin tekur tvo vetur, svo að aðeins helmingur þessarar tölu útskrifast árlega. Þegar þetta er borið saman við tölu bænda í landinu, sem nú mun vera nær 7 þúsundum; þá sést, hversu lítill hluti verður aðnjótandi þessarar menntunar.

Hér á landi, eins og annars staðar, er undirbúningsmenntun fyrir bændur mjög nauðsynleg á öllum tímum og ekki sízt nú, þegar þessir erfiðu tímar eru framundan, þegar mjög reynir á þekkingu bænda, skilning þeirra og menntun alla, og með aukinni þekkingu verður stéttin enn betur hæf til þess að leysa þau verkefni, sem hennar bíða.

Nú streymir fólkið úr sveitum og í kaupstaðina, og það verður að stöðva með einhverjum ráðum. Þetta mál er eitthvert allra þýðingarmesta mál, sem nú er hér á Alþ., og vænti ég þess, að hv. þm. sýni skilning í því. Sú löggjöf, sem nú er um þetta, heimilar ekki nýjar aðgerðir, og þess vegna þarf nýjan lagastaf.

Ekki er gert ráð fyrir, að skólar þeir, sem nú eru, verði stækkaðir, heldur að byggður verði nýr skóli, og allt mælir með því, að hann verði reistur þar, sem frv. mælir fyrir. Ég vona, að Alþ. greiði götu frv. og það fái bæði skjóta og góða afgreiðslu.

Ég óska svo, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og landbn.