30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (1062)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

Páll Zóphóníasson:

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svar hans. Vil þó jafnframt gera nokkrar aths. Það er ekki aðeins heimild til nefndarskipunar, sem hæstv. Alþ. samþ. 16. júní 1941. Það var ályktun á þá leið, að Alþ. ályktaði að fela ríkisstj. að skipa nefnd. Hins vegar er ekkert í þáltill. þessari um það, hvenær ríkisstj. eigi að skipa nefndina. En milliþn. átti það að vera eftir þál. í fyrra, og þess vegna er líklegt, að það hafi átt að vera búið að skipa hana, áður en Alþ. kæmi saman aftur. Hv. flm. þessarar þáltill. hefur vitað, að þessi n. var ekki skipuð. Hins vegar fer hann af stað með aðra till., sem byrjar eins, „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni ... “, en nú er bara sá munur, að ekki á að skipa nefnd, heldur er farið fram á, að „ríkisstj. láti undirbúa“ till. fyrir næsta þing, ekki um skólamálin í heild, eins og stóð í þál. í fyrra, heldur á nú þál. bara að gilda um Menntaskólann Reykjavík.

Afstaða mín til þessa máls er sú, að þar sem hæstv. ríkisstj. hefur þegar haft fyrirskipanir hæstv. Alþ. frá í fyrra um að skipa milliþn. til að athuga skólamál, sem ekki enn þá hefur verið gert, þá sé ég enga ástæðu til að fela henni að vinna sama verkið nú, sem hún átti að vera búin að láta vinna. Í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. skipi þessa milliþn., sem henni var samkv. þál. í fyrra falið að skipa um skólamálin í heild, sé ég ekki ástæðu til að greiða atkv. um þessa þáltill., sem hér liggur fyrir.