30.04.1942
Sameinað þing: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (1066)

77. mál, menntaskólinn í Reykjavík

Flm. (Pálmi Hannesson):

Herra forseti ! Hér hafa margir hv. þm. tekið til máls, og marga þeirra má kippa saman í eina kippu, því að þeir hafa skipað sér á sama sjónarhól um þessi mál. Þó bar þar nokkuð mikið á því hjá hv. 5. þm. Reykv., sem talaði fyrst, að hann áleit óþarft að rannsaka skólaskilyrði í Skálholti, með því að það kæmi ekki til mála að flytja skólann úr bænum. Ég skal ekki segja, hvort þau skilyrði eru þar, að það kæmi til mála; ég veit það aðeins, að enn er það nokkuð almennur vilji, ef skólinn er fluttur úr bænum, að hann verði þar. Þess vegna er eðlilegt, að um leið og litazt er um eftir stað handa skólanum, þá sé sérstaklega athugað, hvernig háttar til á þessum stað. Get ég allt eins búizt við, að sú rannsókn verði neikvæð, a.m.k. ætla ég ekki að taka mér svipaða stöðu og hv. þm. Seyðf., sem sagði, að ekki komi til mála, að þetta verði gert. Ég hef enn þá aðstöðu, að ég leyfi mér að beygja mig fyrir rökum og niðurstöðu rannsóknar.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði annars mjög hóflega um þetta mál, en með þeim skilningi, að hann sjái dýpra inn í málið sjálft en ýmsir aðrir þm., sem hér hafa talað. Hann minntist á það, hv. þm., að menn yrðu að þola, að unglingarnir misfærust á leiðinni út í lífið, betra væri að grisja strax. Ég vænti, að hann skilji, að sá, sem telur sig bera ábyrgð á þessum unglingum, eins og skólastjóri hlýtur að gera, getur ekki grisjað þannig með jafnaðargeði. Hann hlýtur að taka sína afstöðu til nemendanna, aðra afstöðu en þá, að hann geti skorið þá niður eins og kálfa eða annað kvikfé. Ef menn líta svo á, að með öðrum hætti og kannske á öðrum stað mætti koma þessum mönnum til meiri þroska, þá hlýtur það að hafa áhrif á skoðun manna um skólastaðinn sjálfan.

Hv. þm. lauk máli sínu með því, að hv. alþm. gætu rannsakað þetta sjálfir, hver fyrir sig. Honum var í nöp við, að fram færi önnur rannsókn. Ég á bágt með að skilja, að jafngreindur maður og hann sjái ekki, að betra mundi verða að fá til nokkra af hinum hæfustu mönnum, sem gætu gefið sér meira tóm til að athuga þetta mál en við alþm. getum gert hver fyrir sig, áður en atkvgr. fer fram. Þó að ég hafi hugsað mikið um þetta mál, þá er ég ekki tilbúinn að greiða atkv. um annað nú en að athugun skuli fara fram, en fullnaðaratkvgr. ekki fyrr en á næsta þingi. En hv. þm. Seyðf. og hv. 1. þm. Reykv. þurftu ekki tengi að vefjast í vafa um þetta mál. Þeir hafa kannske aðra aðstöðu en ég og mínir líkar, þar sem annar hefur verið kennslumálaráðh. um nokkra hríð, en hinn lengi prófessor við háskólann. Getur verið, að það gefi þeim möguleika til að dæma skjótt um þessi mál, sem hér ræðir um. Hv. 1. þm. N.-M. kom með dálitið óskylt mál, þál. um nefndarskipun frá síðasta þingi. Þar ræðir í raun og veru um allt annað. Ég hef gert mínar till. á sérstökum stað um skipun á unglingafræðslunni í Reykjavík og óskaði fyrir þær sakir og aðrar, að þetta mál, samband barnaskóla, unglingaskóla og menntaskóla, yrði rannsakað til nokkuð meiri hlítar en verið hefur. Hv. þm. muna, hvað gekk í miklum brösum að fá þessa nefndarskipun samþ. á Alþ., og kennslumálaráðh. lýsti yfir, að hann teldi sig ekki hafa svo mikið þingfylgi, að hann gæti skipað n. Ég óska, að hv. 1. þm. N.-M. taki eftir því, að hér er um að ræða nýtt hús fyrir menntaskólann, en enga breyt. á hinni innri skipun hans, og í sambandi við það sé leitað eftir hentugum stað. M.ö.o., það er allt annað mál en um var að ræða í fyrra, og ég hugsa, að áa þess að slá fast í samvizkuna, gæti hv. 1. þm. N.-M. fylgt þessari till. hér.

Hv. 4. landsk. kom með nokkur atriði, sem. stungu allmjög í stúf við ræður annarra hv. þm. Hann sagði, að ég. hefði talað af kala í garð nemenda. Ég bið hann að nefna dæmi þess. Ég er fús að játa það, að ég álít nemendur menntaskólans yfirleitt úrvalsungmenni að gáfum. Allur þorri þeirra er ágætlega upp alið ungt fólk, mög skemmtilegt í viðkynningu, svo að ég tel, að það hafi verið í raun og veru mesta ánægjan, sem ég hef haft í skólastjórastarfi mínu, sambúðin og kynningin við nemendurna. Hitt er annað mál, að ég gat þess, að ég hefði fylgzt með, hvernig þeir notuðu frístundir sínar, og gat þess, að þeir hefðu nokkuð mikið sótt kvikmyndahús og annað slíkt, en áður fyrr hefðu nemendurnir stundað meira bókmenntir og kvæðalestur. Hvernig er hægt að fá út úr þessu, að ég hafi talað af kala til skólans? Hann talaði um menningarstrauma, em nemendur yrðu að fá að komast í kynni við. Ég reyndi hér áður fyrr að koma upp áhugaflokkum um bókmenntir, listir og mál í skólanum. Nemendur gátu tekið þátt í þeim eftir vild.

En það var annríkið og bíógöngurnar, sem drógu þá frá þessum áhugaflokkum. En það yrði ekki útilokað, þótt skólinn færi úr Reykjavík, að fá beztu menn til að koma og flytja erindi um bókmenntir, listir og vísindi og líklegt, að þar yrði unnt að njóta þeirra betur en nú er kostur á.

Þá sagði hv. 4. landsk., að ég hefði beitt mér fyrir því að útbreiða pólitískar skoðanir í skólanum. Ég leyfi mér að vísa þessu til allra foreldra, sem hafa átt hjá mér nemendur frá fyrsta tíð. Ég fullyrði, að það var haft auga á skólanum fyrst, hvort ég reyndi að útbreiða pólitískar skoðanir, og mundi varla hafa legið í láginni, ef verið hefði. Slíka ásökun sem þessa hlýt ég að taka mér nærri, því að með henni er sérstaklega verið að vega að embættisheiðri mínum. Hv. 4. landsk. talaði um Finnlandsmálin. Ég talaði ekkert um þau, en vafalaust hafa allir vitað, að ég hafði samúð með Finnum, er þeir urðu fyrir árás voldugs nágranna, eins og ég hef samúð með Rússum, þegar þeir verða fyrir ágengni Þjóðverja.

Ég má víst ekki þreyta hv. Alþ. með langri ræðu. Hv. þm. Seyðf., fyrrv. kennslumálaráðh., hafði sínar skoðanir um skóla tilbúnar „í dósum“ svo að segja og þurfti ekki að velkjast í vafa um, hvernig með þetta ætti að fara. Það er ekki hægt að flytja skólann frá Reykjavík, sagði hann. Ég segi: Þetta kann vel að vera, en það eru ekki skólaleg rök. Ef skólinn er betur settur annars staðar, þá er frá skólalegu sjónarmiði betra að setja hann þar. Annað mál er hitt, hvaða gaum menn gefa að hinu atriðinu, að bærinn þoli ekki að sjá af skólanum. Það er atriði, sem ef til vill verður að taka með í reikninginn, en það er vald, ekki rök.

Hv. þm. talaði um erlenda skóla. Hann sagði, að ensku skólunum væri sérstaklega haldið uppi af ríkum mönnum. Þetta er ekki rétt, og svona ætti ekki maður, sem hefur verið í broddi menntamálanna, að tala. Það er almenn skoðun, ekki aðeins í Bretaveldi, heldur allri Evrópu, að enska heimsveldið hafi verið byggt upp á leikvöllunum í Eton. Brezkir skólamenn skildu þýðingu líkamsuppeldisins, enda koma frá þessum skólum menn með óvenjulegan dugnað. Það er ekki út í bláinn, að Norðurlönd, Holland, Belgía og Sviss hafa komið upp hjá sér eftir föngum þessu fyrirkomulagi, ofurlítið breyttu að vísu. Hv.- þm. Seyðf. sagðist ekki vera á móti því, að stofnaður væri nýr skóli uppi í sveit, en þessi yrði að vera hér. Það er mál fyrir sig, en ef skólanum er betur fyrir komið hér af uppeldisfræðilegum ástæðum, þá er réttara að byggja hér annan skóla heldur en að hafa annan hér og annan uppi í sveit. Ég verð að geta þess, að það er ekki langt síðan komu fram kröfur frá einum skóla í bænum, að hann fengi rétt til að útskrifa stúdenta. Ég veit ekki annað en að undirbúningur undir það sé á fullum rekspeli og að þar muni koma upp menntaskóli, áður en langt líður. Hitt er annað mál, hvar ríkið álítur sinn skóla bezt settan, hvort það er hér eða annars staðar utan bæjarins.

Hv. 1. þm. Reykv. talaði í nokkuð svipuðum dúr. Hann talaði um, að það væri meiningin að láta bæinn hafa engan menntaskóla. Það er undarlegt, að menn skuli leiða sér slík orð í munn. A.m.k. veit ég ekki til, að ég hafi haldið þessu fram. Hann talaði um, að eðlilegt væri, að skólinn væri á sama stað og hann er nú og að mikið kostaði að byggja hann uppi í sveit. Það eru nokkur rök, en hitt þarf enginn að ætla, að það kosti neina smámuni að gera lóðakaup eða byggja nýtt skólahús hér við Lækjargötuna.

Ég skal ekki þreyta hv. þm. með lengri ræðu, en vil þó taka fram, að mér virðist, að þótt hv. þm. hafi talað hér af góðvilja, þá hafi þess gætt allmikið, að þeir hafa álítið sig koma fram af hálfu Reykjavíkurbúa í þessu máli. Ég get sagt dálítið svipað og þeir sögðu þeir góðu embættisnefndarmenn árið 1839, sem er þetta: „og þar að auki kynni það að vera lagt út einsog vér vildum fella rýrð á þá umgengnisháttsemi og bæjarbrag, sem nú er í Reykjavík“. Þeir hafa orðið varir við hið sama og hér kennir í þessu máli, að bærinn hefur viljað halda kostum sínum nokkuð fram.

Ég endurtek það, að fyrir mér er það ekki höfuðatriði þessa máls, hvort skólinn er í Reykjavík eða annars staðar, heldur hitt, að ef rök hníga að því, að hann sé betur kominn á öðrum stað, þá beygi menn sig fyrir því, en séu ekki fyrirfram sannfærðir. Ég er þess vís af kynnum mínum við foreldra þessa bæjar, að þeir mundu vilja beygja sig fyrir réttum rökum í þessu máli, sérstaklega ef það er ekki flutt með ofsa frá annarri hlið. Ég álít yfirleitt, að við verðum að geta ræðzt við um víssa hluti, eins og menningarmál, án þess að dregin sé inn í það allt of mikil hreppapólitík af ýmsu tagi. Ég álit, að við stöndum frammi fyrir mjög miklum uppeldislegum vandamálum, sem við verðum að reyna að horfast í augu við og bæta úr, án þess að til stórdeilna dragi um óskilin efni.

Við verðum að gera okkur ljóst, að menningarlífið í Reykjavík, — og ég endurtek það, ekki til að kasta rýrð á Reykjavík, heldur til að draga fram það, sem rétt er, að menningarlífið í Reykjavík hefur hingað til fyrst og fremst byggzt á innflutningi manna til bæjarins. Við skulum athuga, hve margir þeirra manna, sem hafa verið ráðherrar þessa lands, hafa fengið uppeldisþroska sinn í Reykjavík, hve margir dómarar, hve margir alþm., ég ætla, að það séu ekki nema þrír, sem sitja á þingi nú, — hve margir æðstu embættismenn o.s.frv. Sérstaklega er það athugunarvert, þegar við komum að þeim, sem nýskapa andleg verðmæti, frömuðum og sköpuðum, — og á ég þar við listamenn, skáld og fræðimenn. Þar er fátæki Reykjavíkur næsta augljóst. Hins vegar er það jafn ljóst, að hér í bænum hefur alizt upp mjög mikið af bráðduglegu fólki til verzlunarstarfa. Það má fylla langa lista yfir fólk, sem alizt hefur upp í Reykjavík, skemmtilegt, hjartagott, ágætt fólk. Hins vegar finnst mér það ljóst, að það sé einhver dragbítur á skapandi þroska ungra manna, sem alast hér upp. Það getur verið, að það komi ekki við skólalífinu.

Getum við ekki verið sammála um, að það beri að rannsaka þetta mál, taka málið fyrir í heild og beygja okkur svo fyrir þeim rökum, sem fram koma?