16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

59. mál, bændaskóli

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Eins og nál. á þskj. 165 ber með sér, mælir landbn. með því, að frv. þetta sé samþ., með 1 breyt. á sama þskj. Ég skal geta þess viðvíkjandi afstöðu minni til frv., sem var hér á ferðinni í fyrra um þetta efni, að þá mælti ég móti því, að það yrði samþ., vegna þess að mér fannst málið eigi nægilega undirbúið. Enn fremur benti ég á, að þar sem ekki vær í búið að ákveða skólanum stað, þá bæri ekki að samþ. frv. að svo komnu máli. Þetta hefur breytzt síðan, því að nú virðist komin almenn hreyfing á málið, og enda þótt skólanum sé ekki ákveðinn staður, þá er þó í frv. ákvæði um, að landbúnaðarráðuneytið skuli ákveða skólanum stað að fengnum till. Búnaðarfélags Íslands. Meiri aðsókn er nú að hinum núverandi bændaskólum en þeir geta orðið við, og er því full þörf á einum skóla í viðbót. Enn fremur væri athugandi, hvort ekki bæri að reyna samvinnu við héraðsskólana um, að þeir kenndu eitthvað, er að slíkri menntun lyti. Sumir forráðamenn héraðsskólanna hafa tekið upp kennslu í þessa átt, en ekki í því formi, er ég hefði talið heppilegast. Ég er á sömu skoðun og í fyrra, að þetta beri að athuga í sambandi við héraðsskólana. Landbn. hefur, eins og ég gat um áður, gert eina breyt. við frv. Hún er viðvíkjandi sérákvæðum bændaskóla sunnanlands, og vill n. fella þau niður, vegna þess að í núgildandi 1. um bændaskóla er heimild til þess að taka upp ýmiss konar tilraunastarfsemi á skólabúunum, sem ganga einmitt í sömu átt og sérákvæðin gera ráð fyrir. Þess vegna sáum við ekki ástæðu til að setja þessi sérákvæði um væntanlegan skóla á Suðurlandsundirlendinu. Ég álít, að bændaskóli á Suðurlandsundirlendinu eigi á nokkurn hátt að vera miðaður við, á hvern hátt menn geti stundað búskap á litlu landrými. Það er talað um að fjölga býlum hér á næstu árum, og þyrfti þess vegna hinn nýi skóli að vera byggður á því að miklu leyti. Ég tek fram, að þetta sagði ég aðeins frá eigin brjósti, en talaði ekki fyrir hönd n.

Búnaðarfélag Íslands mun reyna að kynna sér skoðun búenda hér sunnanlands á þessu máli. Einmitt valið á staðnum ætti að gera til hliðsjónar þessu. — Ég get lofað því fyrir hönd Búnaðarfélags Íslands, að það mun kynna sér skoðun bænda hér sunnanlands, áður en það ákveður staðinn.

Ég held svo, að fleira þurfi ekki að taka fram, en ég vil geta þess, að einn nm., hv. þm. Seyðf., var ekki á fundi, er landbn. afgreiddi frv.