16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

59. mál, bændaskóli

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég vil fyrir hönd flm. þakka hv. landbn. fyrir afgreiðslu málsins. Okkur er mikið áhugamál, að málið nái fram að ganga, því að mikil þörf er á umbótum í þessu efni. Það sýnir sig, að bændaskólarnir geta aðeins tekið hluta af þeim nemendum, sem sækja um inntöku. Bændastéttinni er mikil nauðsyn að vera sem bezt menntuð, og slíkt fæst aðeins með skólum að meira eða minna leyti. Þessi stétt hefur þann vanda á höndum, að hún þarf að vera vel að sér. Ef til vill skortir ekki hvað sízt á, að menn hafi fullan skilning á þýðingu hennar fyrir þjóðfélagið, og því miður er ekki laust við, að þess séu dæmi, að ýmsir þegnar þjóðfélagsins geti ekki metið starf hennar að verðleikum. Þýðingarmesta atriðið er þó, að stéttin sjálf skilji köllun sína, enda þótt það sé ekki nóg, en slíkt getur tæpast orðið, nema bændur hafi fulla þekkingu og skilning á starfinu. Skólaganga í þessum efnum sem öðrum er ekki einhlít, og menn afla sér oft þekkingar og þroska án skóla, en þessar stofnanir gera mönnum auðveldara að ná þessu marki. Í því skyni eru þær til orðnar. Ég þykist þess fullviss, að landbn. sé okkur sammála um nauðsyn málsins, og er það gott. Hvað viðvíkur því, er hv. frsm. minntist á í sambandi við héraðsskólana, þá munu þeir að vísu geta bætt úr um fræðslu bænda, en ég tel það ekki geta orðið nema að nokkru leyti, aðeins hvatningu, en þó er betra en ekki, ef slíkt fengist. Þótt þessi skóli yrði reistur, þá minnkaði samt ekki nauðsyn þess, að bændastéttin eigi víðar athvarf en á bændaskólunum, og þyrfti þess vegna liðsinnis héraðsskólanna.

Ég sé, að hv. landbn. leggur til, að hluti 3. gr. frv. verði felldur niður. Enda þótt þessi sérákvæði yrðu felld niður, þá er ekki útilokað; að skólinn geti starfað fyrir því samkv. bændaskólal., en okkur flm. virtist, að ef þessi ákvæði yrðu sett, þá mundi ekki undir höfuð leggjast að láta þessa starfsemi fara fram í sambandi við skólann, svo fljótt sem auðið er, vegna sérstöðu héraðsins, því að það hefur mesta þýðingu, að þetta fari fram.

Eitt atriði láðist okkur flm. að taka fram. Það er viðvíkjandi skóggræðslu, en ef hv. landbn. er einhuga um, að ekker t sérákvæði verði, og hefði hún e.t.v. litið sömu augum á það. Ég hef ekki haft ráðrúm til að bera mig saman við meðflm. mína, en ég geri ráð fyrir, að þeir líti sömu augum og ég á brtt. landbn., og ef hv. n. væri því ekki mótfallin, þá vildi ég mælast til, að atkvgr. um brtt. verði frestað til 3. umr. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar að sinni.