16.04.1942
Neðri deild: 36. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

59. mál, bændaskóli

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Ég tel sjálfsagt að verða við þeirri ósk hv. 1. flm. frv. um það, að þessi brtt. landbn. verði tekin aftur til 3. umr., og má þá kannske segja, að ekki sé þörf á að segja meira um þetta mál nú. Mér virtist hv. 1. þm. Árn. þykja heldur miður sú brtt., sem landbn. leggur til, að samþ. verði. En það

var skoðun landbn., að allt það, sem hér er fram tekið í sérákvæðunum, standi í l. um bændaskóla. því að í 2. gr. þeirra, 2. málsgr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Á búunum skal gera ýmsar hagnýtar tilraunir í landbúnaði, svo sem jarðrækt, garðrækt, akuryrkju, kynbótum, fóðrun búfjár og loðdýrarækt.“

Og því virtist landbn. það vera a.m.k. óþarft að fara að setja þetta þannig upp sem í frv. er gert á þessu stigi málsins, þegar ekki einu sinni er búið að ákveða skólanum stað, með sérákvæðum fyrir skólann. Ég get viðurkennt þá röksemd hv. 1. þm. Árn., að þetta geti verið sér stök ábending að setja þetta inn í, umfram það, sem l. ákveða

Þá kem ég inn á annað atriði, sem hefur verið deiluatriði búfróðra manna, einkum þeirra, sem við tilraunastarfsemi fást, og það er, að hve miklu leyti á að samrýma tilraunastarfsemina og kennsluna í búnaðarskólunum. Það eru skiptar skoðanir um það. Ýmsir fræðimenn á þessu sviði telja, að aldrei muni vera hægt að ganga mjög langt í því að samrýma slíkt á sama stað, enda mun — reynslan erlendis vera sú, að þetta hefur ekki verið gert í stórum stíl. Þar hafa slíkar tilraunir verið nokkurs konar endurtekning þess, sem gert hefur verið á tilraunastöðvunum, og meira til sýnis fyrir nemendur heldur en að þar hafi verið um fullkomlega sjálfstæðar tilraunir að ræða, sem taka málefnin fyrir frá rótum. Hér er því komið inn á mál, sem nokkuð skiptar skoðanir eru um og enn er ekki búið að átta sig á nema að nokkru leyti, hvernig á að leysa. Nú hefur Suðurlandsundirlendið aðaltilraunastöð landsins, á Sámsstöðum. Sá landshluti er því ekki afskiptur að þessu leyti. Og þessi tilraunastöð er önnur af þeim tveimur fullkomnustu slíkum stöðvum, sem nú eru starfræktar hér á landi. Það fer mjög mikið eftir því, hvaða staður þessum skóla verður ætlaður, hvers konar sér stæðar tilraunir hægt er að taka upp í sambandi við hann. En tilraunir í landbúnaði ern mjög þýðingarmiklar fyrir Suðurland og gætu vel átt heima í sambandi við þennan bændaskóla, ef hann er þannig settur, t.d. í sambandi við Flóaáveituna, sem er eitthvert stærsta landbúnaðarfyrirtæki, sem reist hefur verið hér á landi og hefur kostað mikið fé, en hefur reynzt svo vel, að það hefur gerbreytt búskap bænda í ýmsum sveitum á svæðinu. Það er ekki vafi á því, að það vantar ýmsar tilraunir í samhandi við þá áveitu, sem enn hafa ekki ver ið teknar upp nema í mjög smáum stíl. Og þetta atriði er í raun og veru svo alveg sérstætt fyrir Suðurlandsundirlendið, að tilraunir þarf að gera á þessu sviði. Gætu tilraunir þær vel átt heima í sambandi við þennan fyrirhugaða skóla, ef hann væri þannig settur, en það fer líka mjög eftir því.

Hv. 8. landsk. kom ofur lítið inn á þetta, um sérverkefni fyrir þennan fyrirhugaða skóla, og nefndi í sambandi við það meðferð málnytu og búpeningsrækt. Þetta er kannske í sjálfu sér ekkert sérstakt fyrir Suðurland. T.d. hefur alltaf verið litið svo á, að Hvanneyri væri jörð, sem sérstaklega væri fallin til nautgriparæktar og skólinn þar ætti sérstaklega að hafa með höndum að fræða um nautgriparækt. Hins vegar hefur svo verið litið á um Hóla, að betri skilyrði væru þar fyrir sauðfjárrækt og hrossarækt, og að það ætti að taka þær greinar landbúnaðarins meira í sambandi við þann skóla. Og það liggja fyrir till. frá búnaðarþingi um stofnun hrossaræktarbús á Hólum í Hjaltadal, að nokkru leyti frá því sjónarmiði, að þar séu heppileg skilyrði til þess að setja á stofn slíkt fyrirtæki. En hitt er alveg rétt hjá hv. þm., að nautgriparækt er mjög stór liður í búskap Sunnlendinga, eins og búskapur er rekinn nú á Suðurlandi. Og því hlýtur það að verða höfuðverkefni bændaskóla, sem þar yrði reistur, að taka það til meðferðar og kenna mönnum, sem þar eru við nám, að fara með þann búpening, eftir því sem unnt er.

Eins og ég tók fram áðan, er sjálfsagt að taka aftur þessar brtt. til 3. umr. Og ég þykist vita, að mér sé óhætt að segja það fyrir hönd n., að henni muni vera mjög ljúft að tala við hv. flm. frv. áður en 3. umr. fer fram.