04.05.1942
Efri deild: 48. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

59. mál, bændaskóli

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég hef litlu að svara um þetta. Hv. síðasti ræðumaður hefur heyrt það, sem ég sagði, að ég tel skólans fulla þörf, og þegar ég er með því, að skólanir séu 3, þá treysti ég því, að þingið sjái svo um, að það dragi ekki úr því, að þeim skólum, sem fyrir eru, verði komið í það horf, sem þeir þurfa að komast í. Þess vegna segi ég ekkert um og hef enga hugmynd um, hvenær farið verður af stað með að stofna þennan skóla, enda liggur það á valdi Alþ., því að í sérákvæðunum stendur, að það skuli gert, þegar fé er veitt til þess í fjárl.

Mér er ekki kunnugt um neinn sérstakan stað fyrir þennan skóla, en á Suðurlandi eru ýmsar jarðir, sem eru sæmilega fallnar til skólaseturs, svo sem Skálholt og Ólafsvallatorfan, en ekkert hefur verið ákveðið um það, og Nd. setti það inn í frv., að ef hentugt jarðnæði skorti, væri heimilt að kaupa jörð. Getur vel verið, að það verði að bitbeini, svo að einhver verði að skera úr að síðustu. (SÁÓ: Nýtt Laugarvatnsmál). Ef eins vel rættist úr því og með Laugarvatn, álít ég það vel farið. Mér virðist, að sú reynsla sé ekki til að hræðast, hvað það snertir.