05.03.1942
Efri deild: 10. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

19. mál, hafnarlög fyrir Neskaupsstað

*Flm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er samhljóða frv., sem ég og hv. 11. landsk. fluttum á síðasta aðalþingl. Þá barst okkur ósk frá bæjarfélagi Neskaupstaðar um að flytja frv. Við fluttum frv., og því var vísað til sjútvn., en þar eð áliðið var þings, og e.t.v. engu síður af því, að sjútvn. vildi kynna sér alla málavexti nánar, þá var málið ekki útrætt á þessu þingi. Vitamálastjóri hafði ekki fengið nægar upplýsingar viðvíkjandi málinu, og varð því að samkomulagi á Alþ. að láta málið bíða. Vitamálastjóri lofaði að láta rannsaka aðstöðu til bryggjugerðar, og það hefur hann gert, en í viðtali, sem ég átti við hann núna á dögunum, tjáði hann mér, að ekki hafi enn þá verið unnið úr þessum rannsóknum, en það yrði gert innan skamms, og mun ég því áður en langt um líður geta lagt þann árangur fyrir sjútvn. Að öðru leyti get ég vísað til framsöguræðu hv. 11. landsk., er hann hélt á aðalþinginu í fyrra. Hann tók réttilega fram, að um hafnargerð yrði ekki að ræða, en hins vegar væri hægt að bæta höfnina. — Það hefur að vísu verið gert, en þær aðgerðir eru of litlar. Með þessu frv. er fyrst og fremst meiningin að fá hafskipabryggju, sem yrði eign hafnarsjóðs Neskaupstaðar. Til skamms tíma voru þrjár hafskipabryggjur í Neskaupstað, og milli þrjátíu og fjörutíu smærri bryggjur. Tvær hafskipabryggjurnar hafa nú hrunið, og er það af völdum trjáætu í sjónum, er eyðileggur öll trjávirki. Þetta hefur vaxið mjög á síðari árum, og mun ég ekki dæma um, af hverju slíkt stafar, en e.t.v. er það sökum þess, að trébryggjur hafa mjög aukizt og trjáætan hafi við það fengið betri lífsskilyrði en áður. Fyrsta bryggjan var byggð árið 1896, og hef ég, þar sem ég bý þarna, haft ágætt tækifæri til að fylgjast með þessu. Þessi fyrsta bryggja var mjög ófullkomin hafskipabryggja, en við hana var þó látið sitja þar til á árunum 1914–1920. Þá voru byggðar tvær stórar hafskipabryggjur. Árið 1916 eða 1917 var fyrsta bryggjan rifin, því að hún var þá orðin mjög ófullkomin og hafði auk þess lent innan í annarri hinna bryggjanna. Hún reyndist ekki mjög skemmd, er hún var rifin, og sýnir það, að trjáætan hefur ekki verið eins mögnuð og síðar, því að bryggjurnar, sem byggðar voru 1915–18, eru nú hrundar eftir mikið viðhald. Sama máli gegnir með smábátabryggjurnar. Þær þurfa mikið viðhald, og má búast við, að eftir 5 ár þurfi að endurnýja þær. Af þessu er ljóst, að hér er um alvöru- og vandamál að ræða, er krefst skjótra aðgerða, og því hefur bæjarstjórn Neskaupstaðar lagt til, að sér verði fengin þessi mál í hendur. Neskaupstaður er stærsti útgerðarstaður á Austfjörðum. Þar eru skrásettir tuttugu vélbátar frá 12–40 smálestir að stærð, og þrjú vélskip frá 80– 100 smálestir hvert, enn fremur eitt skip, sem er um 60 smálestir. Auk þess eru þarna árabátar. Af þessu er ljóst, að aðstæður til losunar fyrir skipin þurfa að vera góðar. Bæjarstjórnin álítur, að ekki sé tiltækilegt að koma upp bryggju nema úr járni eða steinsteypu. Vitamálastjóri álítur, að þrátt fyrir þennan vágest, trjáætuna, þá sé mikið álitamál, hvort ekki beri að hafa trébryggju, en með þeirri aðferð að járnverja hverja spýtu, er í sjóinn kemur. Um þetta atriði er ágreiningur, en úr honum verður ekki skorið af löggjafarþingi, heldur annars vegar af bæjarstjórn Neskaupstaðar og hins vegar af verkfróðum mönnum; en hvor leiðin, sem farin verður, kemur til með að kosta mikið fé. Ég held, að teljast verði réttmætt að fengnum fordæmum, að mannvirki þetta sæti sömu kjörum um fjárframlög úr ríkissjóði og önnur hafnarmannvirki. Við, sem flytjum þetta frv., göngum inn á, að upphæðum þeim, sem nefndar eru í frv., verði stillt í hóf, svo að ekki eru líkur til, að Alþ. hitti á hæfilegri fjárupphæðir.

Ég hygg, að með skírskotun til grg., er fylgdi frv. 1941, og framsöguræðu hv. 11. landsk., þá sé þetta nægilegt, er ég hef hér sagt, og að hv. deildarmönnum finnist hér um sanngirnismál vera að ræða. Ég óska svo, að þessu máli verði vísað til sjútvn. að þessari umr. lokinni.