17.03.1942
Neðri deild: 20. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

41. mál, læknaráð

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir um læknaráð, var fyrir síðasta reglulegu Alþ. og er þess vegna hv. þm. kunnugt áður.

Það ber stöðugt meir á því, sem ég veit, að hv. þdm. er ljóst, að það þarf úrskurði lækna um fjöldamargt. Og þeir, sem fást við réttarrannsóknir, vita, hve oft þarf að leita til lækna um úrskurði í sambandi við réttarrannsóknir þeirra. Í raun og veru hefur það verið þannig, að það er ekki ákveðið, hver á að veita slík vottorð. Það hefur að vísu verið sérstakur læknir fyrir fangahúsið í Reykjavík. Það hefur verið vitjað til bæjarlæknisins, þegar þurft hefur að framkvæma réttargerð, þar sem hefur staðið á því að skera úr um, hvort sá maður, sem fyrir réttargerðinni verður, er heilbrigður eða vanheill. En stundum er ekki hægt að ná til hans. Og vafi getur verið á því, hvort úrskurður hans á að gilda um slík mál eða annars læknis. Þetta hefur valdið ringulreið, sem rétt er að fyrirbyggja. Og þegar við þetta bætist það, að á seinni árum hafa verið leidd í l. margs konar ákvæði viðvíkjandi heilbrigðislöggjöf, um læknisúrskurði, þá þarf enn að ákveða, hvaða læknar eigi að framkvæma þessa læknisúrskurði, en um það er ekkert í l., hvaða læknar það skuli vera. Þetta frv. er flutt til þess að bæta úr þeim vanda og óreiðu, sem á vissan hátt hefur verið í þessu efni, og það er eðlilegt að setja í l. ákvæði þessa frv., af því að þessi störf hafa vaxið, úrskurðir lækna í ýmsum tilfellum. Menn finna til þess meira eftir því, sem þessi störf aukast meira, að það vantar sérstakt úrskurðarvald í þessu efni. Hér er gert ráð fyrir, að sérstakt læknaráð fari með úrskurðarvaldið í þessum málum. En af því að gert er ráð fyrir, að þetta ráð verði nokkuð fjölmennt, þá hefur verið svo ákveðið í þessu frv., að læknaráðið geti tilnefnt tvo menn eða fleiri til þess að úrskurða um slík mál. Yrðu þá valdir af læknum menn, sem sérstaklega væru færir um að úrskurða í málum, sem fyrir liggja í hvert skipti.

Ég hef fallizt á, að þetta frv. væri gert að stjfrv. Ég tel, að það, sem frv. fer fram á, sé til bóta. Vil ég vekja athygli á því, að í frv. eru ákvæði, sem takmarka algerlega starfssvið þessa ráðs, þannig að störf þess eiga að vera algerlega innan eðlilegs ramma í okkar þjóðfélagi.