20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (1123)

134. mál, stjórnarskrárnefnd

*Einar Olgeirsson:

Það var í stjskrn. Nd. rætt um þetta mál, að sett yrði milliþn. til að athuga þann meginhluta stjskr., sem ekki liggja brtt. fyrir um á þessu þingi. Ég minntist einmitt á það á þeim sameiginlega fundi, sem n. áttu um málið, að það þyrfti að skipa milliþn. í málið, og voru allir nm. sammála um það. Og tilgangurinn með því virtist mér vera sá að reyna að komast að slíkri niðurstöðu um þann hluta stjskr., sem almennt má ætla, að þm. séu nokkur n veginn sammála um, eða a.m.k. ekki koma til greina hörð flokkaátök um. Tilgangurinn var að reyna að samræma þennan vilja þm. og undirbúa málið vel undir þing, að ekki þyrftu að verða um það miklar deilur, þegar á þing kæmi. Það er hins vegar ekki hægt að ná þessu marki nema því aðeins, að þær skoðanir, sem uppi eru á þingi um breyt. á stjskr., komi fram í slíkri n. Svo framarlega sem aðeins nokkur hluti þingsins á fulltrúa í n., þá hljóta allmargar brtt. að koma fram í meðferð þingsins, alllengi verða rætt um málið og jafnvel harðar deilur um það. Hins vegar má búast við, að þeir, sem á annað borð hafa undirbúið málið, vilji ógjarnan breyta til, þegar svo er komið, og standi harðvítuglegar á móti en þeir hefðu gert, ef sama brtt. hefði komið fram í undirbúningsnefndinni. Ég býst við, að það sé ósk flestra þm., að þegar sjálfstæðismálið sjálft kemur til umr., væri hægt að afgr. stjskr. Íslands helzt með öllum atkv. þm., að málið yrði svo vel undirbúið, og að jafnvel þyrftu ekki að verða mjög miklar umr., a.m.k. ekki, þar sem alltaf er verið að þræta og deila og rífast um einstök atriði. Við vitum, hvað það er þýðingarmikið fyrir okkur sem þjóð að geta staðið svo að segja sem einn maður um grundvöllinn að stjskr. okkar, að því er sjálfstæðismálið snertir og viðurkenningu okkar út á við.

Það hafa verið hvað eftir annað gerðar ráðstafanir á síðasta tíma á Alþ., sem allverulega orka tvímælis frá venjulegu sjónarmiði, hvort löglegar séu. Það er aðeins eitt, sem getur gefið slíkum ráðstöfunum gildi gagnvart umheiminum, og það er, að þjóðin standi einhuga um þær. Sá grundvöllur, sem margt hefur verið byggt á síðustu tvö árin, m.a. kjör ríkisstjóra og þess háttar, ákvörðunin 10. apríl 1940, að flytja æðsta vald ríkisins inn í landið, er þess eðlis, að það er enginn vafi á, að deila mætti e.t.v. heilmikið um þær ráðstafanir frá hálögfræðilegu sjónarmiði. En sú ákvörðun öðlaðist það vald, sem henni hefur fylgt, í krafti þess, að það er þjóðin sem heild, hver einasti þjóðarfulltrúi, sem stendur að henni. Og það er ekkert vald til, eða persóna, utan við löggjafarþingið, sem mótmælir því, að þetta hafi verið rétt. Ég efast þess vegna ekki heldur um, að hv. þm. hafi séð, hvert gildi það hefur, að hver einasti þm. standi með þessari breyt. Það vald, sem þjóðin tekur sér — og tekur sér öll —, það eru lög eftir það. Það má kalla það byltingu, en það er grundvöllur að l. framtíðarinnar.

Stundum eru kannske l. brotin eða eitthvað gert, sem deila má um, hvort sé löglega gert, en það öðlast sinn kraft, ef þjóðin stendur að því sem einn maður. Tilgangurinn með mþn. getur aðeins verið sá, að hver þáttur í stjórnarfari okkar sé sem bezt rannsakaður og prófaður. — Ég held, að það ætti að haga þessu þannig, að þingflokkarnir eigi allir sinn fulltrúa í n.

Það hefur komið fram af hálfu sumra þm., að fjölmenn n. væri dýrari, en það er varla rétt að hor fa í það, og í annan stað er ekki óhugsandi, að pólitískir fulltrúar í slíkri n. séu ólaunaðir, en sérfræðingum sé launað úr ríkissjóði. Ég lít rétt, að þingflokkarnir athugi þetta, og það er ástæðan til, að ég er ekki meðflm. að brtt. á þskj. 422.

Þá er eitt, sem ég vildi minna á um formið á stjórnarskrárbreyt. Auðvitað heitir það breyt. á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands. En svo yrði ákveðið síðast í frv., að þessu skuli breyta. Það er ekki hægt að flytja brtt. við stjórnarskrána nema hafa titil brtt. í samræmi við titil stjórnarskrárinnar. Þetta verðum við að þola, en breyta svo fyrirsögninni, þegar þar að kemur.

Það hefur verið rætt um það, hvort samþykkja mætti tvö stjórnarskrárfrv. á sama þingi. Ég skal ekki leggja dóm á það frá lögfræðilegu sjónarmiði. En álíti hv. þm. Barð., að löglegt hafi verið í fyrra að fresta þingkosningum þvert ofan í 26. gr. stjskr., get ég ekki séð annað en að það muni vera miklu löglegra að gera tvær stjskrbreyt. á sama þingi, þar sem það er þó ekki bannað í stjórnarskránni. Og eftir samþykkt þál. 10. apríl 1940 er hæpið að vera að hengja sig í einhverjar hugsanlegar lögfræðilegar snörur, þegar við erum að koma okkur saman um, hvernig við eigum að leggja grundvöllinn að framtíðarlýðveldi okkar.