20.05.1942
Sameinað þing: 18. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (1124)

134. mál, stjórnarskrárnefnd

*Flm. (Bergur Jónsson):

Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að ákvarðanir eins og þær, sem við gerðum 10. apríl 1940, um að flytja æðsta valdið inn í landið, þrátt fyrir ákvæði stjskr., mega ekki eiga sér stað, nema á bak við þær standi meiri hluti þjóðarinnar og rík nauðsyn. Hv. þm. sagði, að ef menn hefðu talið löglegt að fresta kosningum í fyrra, gæti hann ekki skilið annað en að það sé löglegt að samþ. tvær stjórnarskrárbreyt. En þetta tvennt er ólíks eðlis. Með frestuninni í fyrra var gerð Alþ.-samþykkt, sem var sett yfir stjórnarskrána, en ákvæðum stjskr. var ekki haggað. Mér þykir leitt, að þetta skyldi hafa verið gert, af því hve illa hefur verið staðið við þá samþykkt, en því ber ekki að neita, að hún var fullkomlega lögleg og annars eðlis en þegar verið er að gera breyt. á stjsk. sjálfri.

Aðfaranótt 14. apríl 1940 var gerð samþykkt um að flytja æðsta valdið inn í landið. Það kom fram hjá einum þm., að hann teldi, að hér væri verið að brjóta stjskr., en hann áttaði sig strax og sá sem var, að það var ekki hægt að framfylgja stjskr., því að æðsta valdið var hertekið af ófriðarþjóð og allt samband lokað. Það var neyðarráðstöfun.

Ég hef ekkert á móti brtt., ef n. getur lokið störfum sínum fyrir næsta þing, en ég er á móti því, ef ætlazt er til, að næsta Alþ., eftir að það er búið að samþ. stjórnarskrárbreyt., á að fitja upp á nýrri breyt., áður en gengið verður aftur til kosninga. Þm. mega ekki ganga í berhögg við öryggisákvæði sjálfrar stjórnarskrárinnar.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist á, að það væri betra, að í n. væru fulltrúar frá öllum þingflokkum, en það er ekki unnt með 5 manna n. nema með samkomulagi. Í frumritinu stóð 7, en það var prentvilla, og ég hef ekkert á móti því, að það væri á þann veg. Ég hygg, að þessari umr. ljúki með því, að brtt. verði teknar aftur.