16.03.1942
Efri deild: 16. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

36. mál, eftirlit með skipum

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti ! Eins og grg. fyrir þessu frv. hermir, er þar tekið fram í aðaldráttum, hvað fyrir okkur flm. vakir með þessu frv. Ég skal þó bæta nokkru við og gefa nánari skýringu á ýmsum atriðum frv. heldur en grg. hermir.

Það hefur komið í ljós, sérstaklega nú á þessu síðasta ári, eftir að sú breyting var gerð með flutningaskip, bæði veiðiskip og flutningaskip ísfiskjar, að fiskurinn var allur hausaður í skipunum, að skipin virtust vera meira hlaðin heldur en góðu hófi gegndi. Það er vitað, ekki einungis meðal fiskimanna, sem eiga að sigla skipunum, heldur hlýtur öllum, sem utan hjá standa, að vera það ljóst, eftir þeim heimildum, sem bent er á í grg. frv., að farmur þessara skipa hefur komizt upp í 27% meira heldur en áður var. Það þótti sjálfsagt, að því meiri sem fiskurinn var, því stærra þurfti farmrýmið að vera, og því var reynt að auka það. Hefur komið í ljós, að svo kölluð netalest hefur verið tekin fyrir fisk, en það hefur verið algerlega óþekkt fyrirbrigði hér áður. Þessi lest er fremst í skipinu og veldur því, að skipið leggst óeðlilega mikið fram. Einnig hefur kolageymslan v erið minnkuð og á þann hátt fengizt meira rúm fyrir fiskinn, en í því tilfelli má segja, að fiskurinn vegi nokkuð upp á móti þeim kolum, sem skipið var hlaðið með, þegar það lagði úr höfn. því hefur skapazt nokkur uggur meðal þeirra manna, sem eiga að sigla skipunum út. Enn þá má segja, að ekkert slys hafi orðið af þessum sökum, en eins og máltækið segir: „flýtur á meðan ekki sekkur.“ Ég hef heyrt þau ummæli, jafnvel meðal þeirra manna, sem eiga að sigla skipunum, að ef til vill sé meiri hætta orðin af hleðslu skipanna heldur en af djúpsprengjum, sem þau mega búast við að mæta á hverri stundu.

Í l. um eftirlit með skipum frá 1938 er fylgt þeirri reglu að undanskilja fiskiskip. Er farið eftir svokallaðri „Lundúnasamþykkt“ frá 5/7 1930, en þar er eftirlitið ekki látið ná til fiskiskipa almennt, heldur aðeins átt við skip, sem flytja farm, svo og farþegaskip. Þar af leiðir, að ekki er hægt að láta fara fram athugun við burtför fiskiskipa, né gefa út reglur um, hversu mikið eigi í þau að láta. Af þessu er nauðsynlegt að setja strax reglur í þessum efnum, svo að ekki sé hægt að skjóta sér undan því, sökum þess, að engin fyrirmæli voru um þetta í gildandi l. Vegna umkvartana fór fram athugun á því, hvað smáskip, sem eingöngu flytja fisk til Bretlands, mættu hafa mikinn fisk meðferðis, og var í því skyni sett nefnd, sem átti að hafa eftirlit með þessu. En sú nefnd starfaði eingöngu hér í Reykjavík, og þar af leiðandi náði eftirlit hennar ekki til annarra staða, sem líka flytja út mikinn fisk, svo sem Vestmannaeyja og Austur- og Vesturlands. Þrátt fyrir þetta eftirlit með stærri skipunum, hefur n. alls ekki heimild til að hafa afskipti af togurunum, sem afla í sig sjálfir og flytja afla sinn til annarra landa. En reynslan er sú, að hvert það skip, sem fiskar í sig sjálft, fer út með öll lestarrúm full, því að fiskurinn er dýrmætt verðmæti. Þess vegna fer varla nokkurt skip út svo, að það sé ekki „fullt undir lúgur“, eins og sagt er á sjómannamáli. Það er því fullkomið tilefni til, að haft verði strangt eftirlit í þessu efni.

Ég vænti þess, að ég hafi nú skýrt þetta ákvæði í frv. Okkur er annt um líf sjómanna okkar, og okkur er skylt að sjá um, að þeim sé borgið í hvaða veðrum, sem eru.

Ef til væru skýrslur um, hvernig farið er með mannaíbúðirnar á skipum, þegar ekki er búið í þeim, er það kapítuli út af fyrir sig. — Á flestum togurum er það svo, að er þeir sigla út, geta skipsmenn búið miðskips, en þá eru vistarverur háseta frammi á notaðar til geymslu, rétt eins og lestar skipsins. Þegar svo farið er út til þess að fiska, verða hásetarnir að flytja í þetta pláss, en er þá alla jafna lítið sinnt um að þrifa til áður en flutt er inn, og hreinlætis er alls ekki gætt svo sem skyldi og nauðsynlegt er.

Um matvælageymsluna í þessum skipum er það að segja, að hún er mjög ófullkomin. Lekar og rakasamar eru þær, — svo að maturinn stórskemmist oft og tíðum. — Ég fjölyrði ekki meira um þetta, en vil svo drepa á hin atriði frv.

Í fyrsta lagi er það bann við flutningi eldfimra efna á farþegaskipum, og er þá einkum um benzínflutninga að ræða. — Um þetta atriði hefur þráfaldlega verið rætt af sjómanna hálfu, þá er þeir hafa gengið til samninga, og hafa þeir krafizt þess, að slíkir flutningax féllu með öllu niður. Vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lofa hv. þingmönnum að heyra aðalrökin, sem sjómenn færa fyrir því, að benzínflutningum á farþegaskipum sé hætt.

1. Benzín er einhver eldfimasta vara, sem flutt er hér hafna milli, og er ekki leyft að flytja hana undir þiljum, sökum uppgufunar, sem myndar lofttegundir, er tíðast valda sprengingu í hinu byrgða farrúmi.

2. Þótt umbúðir séu stáltunnur, eru þær oft rakar á botnum og hliðum og veruleg uppgufun á sér stað í heitu veðri, svo og, að tunnurnar hitna við sólarhita, svo að kælingu þarf að viðhafa með sjó til þess að draga úr sprengingarhættunni. Þá er leki á tunnum alltíður.

3. Eld- og sprengingarhætta er því mjög mikil af benzíni. Ber því að forðast, að eldur komist nærri því. Eldspýta eða vindlingur, sem lifir í, er nægilegt til þess að setja allt í bál.

4. Í hafnarreglugerð Reykjavíkur eru ákvæði, sem leggja ríkt á um meðferð benzíns og steinolíu við fermingu og affermingu, og er skylt að kalla brunavörð til eftirlits, svo að engin eldhætta geti átt sér stað, meðan varan er flutt að og frá skipi og meðan skipið liggur í höfn fermt slíkri vöru. Um leið og skip fer frá hafnarbakkanum fer vörðurinn í land, og vörður er enginn framar til. Þilfar er þakið benzíni, skipið fullt farþega; annar hver maður með vindling í munninum. Mikill fjöldi farþega verður að leggja leið sína yfir benzínið eða meðfram því. Skipverjum er, því miður, ekki hlýtt sem skyldi um að kasta ekki frá sér vindlingum eða fara gætilega með eld. Þegar mikill mannfjöldi er með skipi, er þetta næstum óviðráðanlegt.

5. Á skipum, sem einvörðungu flytja olíu og benzín (Skeljungur) eru allar reykingar bannaðar skipverjum (og að sjálfsögðu farþegum; ef nokkrir eru).

6. Talið er, að í nágrannalöndum vorum hafi ekki verið leyfður benzínflutningur á farþegaskipum og þar hafi gilt reglur um flutning á benzíni um borð í skip.

7. Sökum þeirrar hættu, sem hverju skipi er búin af árás hernaðaraðila, sem siglir á hinu bannlýsta svæði, þá er talið, að benzín á þilfari skips torveldi eða jafnvel útiloki undankomu skipverja og farþega, þótt björgunartæki öll séu í bezta lagi, þar sem reikna má með því, að skip verði fljótt alelda og sjórinn í kringum það af völdum benzínsins.

Ýmis fleiri rök hafa sjómenn fært fyrir þessu máli, en þetta verður að nægja.

Ég hef viljað láta koma fram höfuðrök sjómanna fyrir þessari tillögu. — Fleiri efni er hér um að ræða. Má þar t.d. nefna dynamit og hvers konar önnur sprengiefni, sem að vísu er nú bannað að flytja með farþegaskipum, skv. reglugerð þar að lútandi.

Reglugerðin um benzínflutningana er mjög ófullkomin og þarfnast lagfæringar og breytinga. Nú vil ég geta þess, eins og hv. þdm. ef til vill er kunnugt, að strandferðaskipin okkar, t.d. Esja, eru vopnuð skip. Komi nú til árása á þau, væri svo að segja engir björgunarmöguleikar, hvorki fyrir skipverja né farþega. Ein kúla, sem hitti slíkt skip, mundi hleypa öllu í bál og brand. Um skip í millilandasiglingum þarf ekki að ræða, því að þessar vörur eru ekki fluttar með þeim.

Þá vil ég að lokum drepa á síðasta nýmæli frv. um hina svokölluðu þilfarsflutninga. Þessi krafa er mjög hávær meðal farmanna.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, verða öll skip nú að sigla í fullkomnu myrkri. Engin ljósglæta má sjást. Allur þorri skipverja býr fram á skipinu, og verða hásetar og kyndarar að klifra yfir þennan flutning á leið sinni aftur skipið, hvernig sem á stendur, og í hvaða veðri, sem er. Þetta er, eins og liggur í augum uppi, hrein og bein lífshætta. Þess skal getið hér, að fulltrúar sjómanna hafa ekki farið til opinberra stjórnarvalda með þá beiðni sína að afnema þennan flutning, en málið hefur verið rætt við skipaeigendur, og hafa þeir ekki séð sér fært að verða við þessum tilmælum. Þessi tillaga nær einnig til skipa í innanlandssiglingum. Þó má veita undanþágur meðan nóttin er björt, þó að ávallt skyldi sem minnst flytja á þilfari.

Ég hef nú lýst í aðaldráttum því, sem farið er fram á með frv. þessu. Markmið frv. er að tryggja betur en nú er líf þeirra, sem starfa á skipunum eða ferðast með þeim. Ég skal einnig benda á það, að hið nýlokna fiskiþing komst alveg að sömu niðurstöðum um öryggi sjómanna. Ég vil því mega vænta þess, að málið fái góðar undirtektir og hraða afgreiðslu og það verði afgreitt á þessu þingi. Legg ég svo til, að því verði vísað til sjútvn. að þessari umræðu lokinni. Vona ég, að nefndin síðari athugi frv. með velvilja og greiði fyrir afgreiðslu þess.

Orðlengi ég þetta svo ekki frekar á þessu stigi málsins.