13.04.1942
Efri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

36. mál, eftirlit með skipum

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti ! Í frv. því, sem. hér ræðir um, er farið fram á í höfuðatriðunum fernt. Í fyrsta lagi, að komið verði á heilbrigðiseftirliti í mannaíbúðum og matvörugeymslum í íslenzkum skipum og það sé undir eftirliti heilbrigðisnefndar, að því er virðist eðlilegast þar, sem þessi skip eiga heima. Í öðru lagi, að á öllum íslenzkum skipum, sem eru í förum milli Íslands og annarra landa og eru í förum innan lands, allt niður í 50 smálestir, skuli hafa hleðslumerki. Í þriðja lagi á að óheimila að flytja benzín og önnur eldfim efni með skipum, sem flytja farþega. Í fjórða lagi er farið fram á, að á þeim tíma, sem skip verða að sigla myrkvuð, megi ekki flytja farm á þilfari, sem torveldar umferð á þilfari. Þetta eru þau höfuðatriði, sem hafa vakað fyrir hv. flm. frv., og hefur nú sjútvn. lokið við að taka þau til mjög rækilegrar athugunar.

N. hefur talað við forráðamenn Skipaútgerðar ríkisins og Eimskipafélags Íslands um nokkur þessi atriði og eiginlega öll, en þó aðallega um flutning á eldfimum efnum og þilfarsflutning að vetrarlagi. Um reglur fyrir hleðslu skipa var sérstaklega rætt við n., sem sett var samkv. reglugerð, sem gefin var út í byrjun jan. 1941, um hleðslu og eldsneytisforða skipa, er flytja ísvarinn fisk til Bretlands á ófriðartímum. Einnig ræddi n. um þetta efni og önnur við skipaskoðunarstjóra, en rétt er að geta þess, að í greindri reglugerð er framkvæmd þess eftirlits, sem um ræðir í reglugerðinni, ætlað að heyra undir skipaskoðunarstjóra, en n., sem sjútvn. átti einnig tal við, sem starfar samkv. þessari reglugerð, gerði skrá yfir skip og hleðsluborð þeirra og þann eldsneytisforða, sem skipunum væri ætlaður.

Að því er snertir þessa reglugerð, er rétt að taka þegar fram, að samkv. 1. gr. hennar er svo áskilið, að öll íslenzk skip, sem sigla til annarra landa, skuli hafa a.m.k. 23 sentimetra hleðsluborð 15. Okt. til 1. Apríl, á öðrum tímum má það vera 5 sentimetrum minna. Eftir því, sem upplýst var í sjútvn. og í viðtali við þá aðila, sem ég þegar hef greint, hefur framkvæmd þessarar reglugerðar að vísu náð til allmargra skipa, en þó ekki til allra, því að hún hefur ekki enn náð til botnvörpuskipa, en af hvaða ástæðum það er, skal ég láta ósagt. Getur verið, að menn hafi álitið erfiðara að hafa eftirlit með hleðsluborði þeirra skipa, sem hlaða sig úti á miðum, en þeim skipum, sem hlaða sig uppi við bryggjur. En þess ber að geta í þessu sambandi, að nú á þessum stríðstímum munu öll botnvörpuskip, sem fiska sjálf, koma í höfn, meira að segja ákveðna höfn, til þess. að fá skilríki sín til útsiglingar. N. virðist þess vegna, að frá upphafi hefði átt að láta sams konar eftirlit gilda um hleðslu á botnvörpungum og öðrum skipum, sem fiska í sig og flytja út sinn eiginn fisk, eins og þau skip, sem kaupa fisk og eru hlaðin uppi við land.

Það er víst, að það hefur ekki verið að ófyrirsynju að setja þá reglugerð, sem hér ræðir um. Það mun víst vera nokkuð á almanna vitorði, að það gætti allmikillar og allt of mikillar óforsjálni, þegar fram í sótti, um Englandssiglingar, einkum að vetrarlagi, um hleðslu þeirra skipa, oft og tíðum smáskipa, sem notuð voru og eru enn í Englandssiglingum. Má segja, að það sé einstök mildi, hvað lítið það hefur komið að sök hingað til.

Um botnvörpuskipin er það að segja, að það er í sjálfu sér full ástæða til, að viðvíkjandi þeim séu teknar til framkvæmda reglur þær, sem hér um ræðir, eða þá aðrar, sem tryggja meira eftirlit með þessum skipum, ekki sízt fyrir þeirra hluta sakir, að nú mun það vera orðinn fastur síður, að botnvörpuskip afhausa þann fisk, sem innbyrtur er, og ísa hann þannig, en um það kemur öllum saman, að með því komist miklu meiri fiskþyngd í skipið en ef fiskurinn er látinn í ís með haus og hala. Það er þess vegna rétt að taka fram, að meðal okkar nm. kom fram sú skoðun, að við töldum, að þessi reglugerð, sem hér um ræðir frá 10. jan. 1941, um eftirlit með hleðslu og hleðsluborði, ætti að sjálfsögðu að ná til íslenzkra botnvörpuskipa alveg eins og annarra skipa. N. getur ekki fallizt á, að sett séu hleðslumerki á íslenzk skip önnur en þau, sem nú er skylt að hafa hleðslumerki á samkv. Lundúnasamþykktinni. Hins vegar telur n., að beita þurfi reglunum um hleðsluborð á öllum íslenzkum skipum, sem eru í utanlandssiglingum eða í stöðugum flutningum milli hafna innan lands. Um þetta var n. sammála, þó að hún gæti ekki fallizt á að hafa hleðslumerki á öllum skipum. því er það, að í brtt. n. er farið inn á að leggja svo fyrir, að öll þau skip, sem ekki þurfa samkv. l. að hafa hleðslumerki, séu þau í flutningum milli Íslands og annarra landa eða í vöruflutningum innan lands, að öll þessi skip skuli hafa ákveðið hleðsluborð, og reglugerð sé sett af ráðh. um það, hvað minnsta hleðsluborð hvers þeirra skuli vera: Nær það vitanlega til botnvörpuskipa, eins og annarra skipa.

Nú er það svo, að í l., sem nú gilda um hleðslumerki, stendur svo í 31. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Öll íslenzk skip, sem eru í förum milli Íslands og annarra landa, skulu vera með hleðslumerkjum og hafa hleðslumerkjaskírteini samkvæmt alþjóðasamþykkt, gerðri í London 5. júlí 1930.

Undanskilin þessum ákvæðum eru skip, sem eru undir 150 rúmlestir, og skip, án tillits til stærðar, sem eingöngu eru notuð til fiskveiða, enn fremur skemmtiskip og skip, sem notuð eru í öðrum tilgangi en til flutnings á fólki og vörum“.

N. leggur til, að á eftir þessari málsgr. komi ný málsgr. svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Um öll skip, sem samkvæmt framansögðu eru undanskilin því að hafa hleðslumerki, en flytja farm til Íslands og annarra landa eða eru í vöruflutningum milli hafna innanlands, skal í reglugerð, er ráðherra setur, ákveða, hve mikið hleðsluborð, mælt í sentimetrum, hvert þeirra skuli hafa sem minnsta hleðsluborð. Skulu öll ákvæði laga þessara um hleðslumerki og skírteini þar að lútandi, er varða þau skip, sem að lögum er skylt að hafa hleðslumerki, vera hin sömu, þar sem þau eiga við, að því er snertir hleðsluborð og hleðsluborðsskírteini þeirra skipa, er hafa skulu ákveðið minnsta hleðsluborð samkvæmt þessari grein.“

N. virðist, að með þessu móti sé, þó ekki að orðalagi til, en að anda til, fullnægt því, að fullt eftirlit megi hafa með hleðslu allra þeirra skipa, sem nú er ekki skylt að hafa hleðslumerki, en eru í flutningum milli landa eða í flutningum hafna milli hér á landi.

Ég vænti þess, að niðurlag þessarar gr., eins og n. hefur borið hana fram, geti ekki valdið misskilningi, þ.e.a.s., það er orðalag um það, að öll ákvæði l., sem nú eru og snerta hleðslumerki og hleðsluborðsskírteini um þau skip, sem þar eiga hlut að máli og nú er skylt að hafa hleðslumerki, — að öll ákvæði l., um þessi efni komi framvegis, ef þetta nær samþ. þingsins, til greina um hleðsluborð og hleðsluborðsskírteini o.s.frv., þar sem það á við um þessi skip, sem samkv. þessari brtt. yrði gert skylt að hafa hleðsluborð ákveðið.

Okkur þótti nægilegt að setja þessi ákvæði um hleðsluborð. Um hreinlætiseftirlitið er n. sammála og finnst sjálfsagt að eftirlit fari fram af hálfu hins opinbera á matargeymslum og mannabústöðum alveg jafnt og í landi á veitingahúsum og greiðasölustöðum. Nýbúið er að gera ráðstafanir til að skerpa eftirlitið í mjólkurbúðum og veitingahúsum, og væri því eðlilegast, að slíkt væri líka tekið upp á skipum, að heilbrigðisnefndir bæjanna færi verksvið sitt líka til skipanna.

Þá eru tvö atriði, sem um ræðir í frv. og n. hefur tekið til athugunar, flutningur á benzíni og öðrum eldfimum efnum með farþegaskipum og flutningur á þilfari skipa, sem sigla milli landa. Þeir menn, sem n. ræddi við frá skipafélögunum, töldu nokkur vandkvæði á að takmarka frekar þetta tvennt. Um benzínflutninginn á farþegaskipum er það að segja, að gripið hefur verið til þess ráðs að tjalda yfir benzíntunnurnar á þilfarinu, og skapar það mikið öryggi gegn eldneistum, sem bæði geta stafað frá reykjandi mönnum og einnig frá reykháfnum. Þetta hefur þó aðeins verið gert á einu eða tveimur aðalfarþegaskipunum. N. veit, að mjög er erfitt að fást við þetta mál. Það er hættulegt að gera ekkert í því og erfitt að setja skorður um þennan flutning á skipum, sem sigla með ströndum landsins. Þótt svo sé, að olía sé flutt á sérstöku olíuflutningaskipi, eða réttara sagt skipum, því að Ægir flytur oft olíu víðs vegar, þá er það ekki nægilegt. En það ætti að flytja meira benzín með þessum skipum, og láta strandferðaskipin um smurningsolíuna, því að af henni stafar ekki svo mikil hætta. Enn fremur eru bátar í flutningum, og bifreiðaflutningur gæti og létt mikið undir með flutning á benzíni og batnar eftir því sem vegakerfið eykst og bílarnir stækka. Af þessum ástæðum hefur n. fallizt á, að benzín verði ekki flutt á skipum, sem skráð eru sem farþegaskip. N. hefur ekki getað gengið eins langt, hvað viðkemur skipum, sem flytja farþega, því að það nær til margra skipa, því að oft eru farþegar með flutningaskipum. Nú á tímum er sá möguleiki alltaf fyrir hendi, að skipin verði fyrir árásum eða lendi á tundurduflum, og ef slíkt kæmi fyrir skip, sem flytja hundruð manna ,og hafa benzín á þilfari, þá yrðu afleiðingarnar hryllilegar.

Þá er fjórða atriði frv., sem er um að banna þilfarsflutning á skipum, sem eru í millilandasiglingum, um vetrartímann. N. virtist ekki nauðsyn á að setja l. um þetta efni, þótt hún skilji vel þá hættu, sem af því getur stafað, þegar skipsmenn þurfa að klifra yfir flutning á þilfarinu í myrkri og stórsjó. Menn hafa komið auga á þessa hættu, og sjómenn og skipaeigendur hafa samið um þetta innbyrðis þannig, að þegar um „dekklest“ er að ræða, þá skuli skipsmenn búa aftur á skipinu en ekki frammi á. Þar sem upplýst er, að aðeins þrjú skip geta ekki fullnægt þessu, og þegar vitað er, að það er sameiginlegur vilji Eimskipafélags Íslands og sjómanna að bæta úr þessu, þá féll n. frá því að fullnægja þessari kröfu frv.

Í sambandi við benzínflutninginn gleymdi ég einu atriði. Um leið og n. fer fram á að banna flutning benzíns með farþegaskipum, er í 2. málsgr. óskað eftir, að sett sé reglugerð um það, hvernig búið sé um benzín, þegar það er flutt á öðrum skipum, því að ekki er sama, hvernig um það er búið. Ég gat þess, að breiddur væri segldúkur yfir það, og er það gott, en þó mundi það ekki nægja, ef skipin yrðu fyrir loftárásum eða rækjust á tundurdufl. Ég legg því áherzlu á það, að n. óskar þess, að sett verði reglugerð um, hvernig farið skuli með benzínflutning milli hafna.

Ég held, að ég hafi þá tekið fram þær brtt., sem n. hefur komið með. Ég hef sagt álit n, í flestum tilfellum, en hins vegar má vera, að einn nm., hv. fyrri flm. frv., telji ekki nógu langt gengið í öllum atriðum, en hitt er rétt, að fullt samkomulag er hjá n. um brtt. á þskj. 143.