13.04.1942
Efri deild: 31. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

36. mál, eftirlit með skipum

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Ég bjóst við, að hv. 2. þm. S.- M. mundi gera grein fyrir fyrirvara sínum, en ég má til með að segja nokkur orð, þótt ekki sé nema til að þakka samstarfsmönnum í n. fyrir þann skilning, sem þeir hafa sýnt á málinu. Ég tek þetta fram, þar sem mér er ljóst, að hér er um mál að ræða, sem er hvort tveggja í senn, hagsmuna- og tilfinningamál fyrir ýmsa, sem hlut eiga að máli. Ég játa, að ég hefði kosið, að lengra hefði verið gengið í sumum atriðum, en ég legg mikið upp úr hvaða umbótum sem eru, þegar þess þarf að gæta, að samkomulag haldist, og ég er ánægður með hverjar þær umbætur, sem á nokkurn hátt stuðla að því að bjarga mannslífum. Hvert spor, sem stigið er þar, er í áttina til fullkomnunar. Reynslan mun skera úr, hvort við þarf að bæta, en hins vegar er ljóst, að hversu ýtarleg l., sem sett eru, eru dauð, ef framkvæmdirnar eru ekki í anda þeirra. Ég býst við, að ef þetta frv. yrði samþ., þá megi segja, að miklu sé náð.

Ég mun vera fáorður um brtt., því að mjög ýtarlega hefur verið gerð grein fyrir þeim af hv. frsm. Ég get vel sætt mig við, að í stað hleðslumerkis komi hleðsluborð. Hins vegar virðist mér hleðsluborð, sem ekki er markað á skipshlið, ekki vera eins táknræn auglýsing fyrir allan þorra manna, því að það hleðsluborð er aðeins í meðvitund þeirra, sem ákveða það, og svo auðvitað skipsmanna. N. hefur og fellt niður, að þessi ákvæði nái til fiskiskipa, sem fiska í sig. Það er eðlilega dálítið erfitt fyrir yfirvöld í landi að fást við það, og verður þar að treysta á þegnskap skipstjóra, en oft er svo, að lítil forsjá fylgir miklu kappi, þegar mikill afli er í aðra hönd. En n. taldi ekki rétt, að fullt eftirlit væri ekki haft með hleðslu þessara skipa, sérstaklega þeirra, sem sigla með fisk milli landa. Svo hefur n. ekki talið ástæðu til, að sett yrðu l. um flutning á þilfari skipa, sem sigla milli landa um vetrartímann, þegar n. var kunnugt um, að frjálsir samningar væru um það atriði milli sjómanna og skipaeigenda og sameiginlegur vilji beggja aðila að fullnægja þessari kröfu frv. — Ég gat því sætt míg við, að það ákvæði félli niður. Hinu ber ekki að neita, að hjá skipaskoðunarmönnum hefur komið fram sú skoðun, að ekki einungis mannslífum sé stofnað í hættu með þilfarsflutningi, heldur einnig skipunum sjálfum. En það er í þessu tilfelli eins og öðrum, að kapp er bezt með forsjá. Að öðru leyti hefur hér ekki orðið nein veruleg breyt., nema hvað orðalag snertir á einum stað, sem ég játa, að er töluverð efnisbreyting. Það er um benzín og sprengiefnaflutning. Eins og hv. frsm. benti réttilega á, þá var það í frv. orðað svo, að „á skipum“, sem flytja farþega, skuli óheimilt að flytja þetta, en nú er það „á farþegaskipum“, eins og það er orðað frá n., og það er náttúrlega þrengra en áður var. Ég skal ekki segja, hvort í framkvæmdinni verður farið eftir því, sem skráning segir til um skip, en skip eru hér skoðuð farþegaskip, sem hafa skilyrði til að flytja farþega. Af skipum Eimskipafélagsins eru það líklega 4, ég hygg, að Selfoss sé ekki talinn með. Bæði strandferðaskipin voru a.m.k. skráð farþegaskip; en ég veit, að með Súðina var þessu breytt á tímabili. Ég hygg, að því hafi þó tvímælalaust orðið að breyta aftur. Síðan hún hætti að sigla til útlanda, varð hún að flytja farþega eins og rúm frekast leyfði, og hún getur varla gert það nema hún sé skráð farþegaskip, svo að þetta hlýtur að ná til hennar.

Flóabátar eru ekki skráðir farþegaskip, svo að það mætti skilja það svo, að þetta ákvæði næði ekki til þeirra. Að mínu viti ber samt að fara mjög varlega um flutning slíkra efna, jafnvel á slíkum fleytum, og ég álít, að sú reglugerð, sem við leggjum til að gangi í gildi um sérstakan umbúnað á sprengiefnaflutningi, ætti að ná til hinna minni báta, sem stundum eru kallaðir flóabátar. Hv. 2. þm. S.-M. skrifar undir nál. með fyrirvara, og ég þykist vita, að það sé m.a. með tilliti til þessa, sem hann kannske skýrir hér. En til viðbótar því, sem ég sagði við 1. umr. og benti svo réttilega á, vil ég segja það, að það er of seint að byrgja brunninn, eftir að barnið er dottið ofan í. Við viljum, að augu löggjafans séu opin fyrir hættunni, og að hann, eftir sinni getu, komi í veg fyrir hana. Líkurnar fyrir því, að stórslys geti hent skip á þessum tímum, eru svo miklar, að okkur ber, með öllum hugsanlegum ráðstöfunum, að reyna að koma í veg fyrir þau, að svo miklu leyti sem í mannlegu valdi stendur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í það, hvernig hægt er að fullnægja þörf landsmanna um flutning þessara vara, nema sérstakt tilefni gefist til. En ég er reiðubúinn, eftir minni þekkingu og eftir því, sem ég bezt veit, að gefa hv. d. fullkomna skýrslu um það, á hvaða hafnir í landinu benzínflutningar eru mestir, og hvernig hægt er að koma þeim, án þess að notaðar séu þessar fleytur, sem oft verða að flytja fjölda fólks. Mín skoðun er sú, án þess að ég rökstyðji hana frekar, að þetta sé kleift, ef aðeins er fyrir hendi fullkominn vilji og skilningur hjá þeim riðilum, sem skipti eiga með vöruna. Nú er það svo, að í reglugerð, sem hvergi hefur verið prentuð, um frágang á flutningi á benzíni, þá er t.d. ekki leyft að flytja dynamit eða tundurefni, ef benzín er um borð í skipi. Í sömu reglugerð segir einnig, að það skuli vera sérstök slökkvitæki í námunda við, þar sem slík efni eru geymd, og það má ekki vera þar á skipinu, sem nokkrar líkur eru til, að óviðkomandi maður geti komizt að því.

Ég get verið n. þakklátur fyrir það, að hún hefur þó fallizt á að taka rök okkar ''flm. og annarra til greina og fallizt á aðalefni frv. okkar, eins og sjá má á brtt. n.

Ég held, að ég hafi þá skýrt frá því, sem frv. hefur inni að halda, og því, sem ég til samkomulags hef fallið frá, í því trausti, að þar sem jafn íhugulir menn og meðnm. mínir eru, þá fallist þeir á að láta þetta ganga hljóðalítið í gegnum Alþ., svo að það geti orðið að l., og þá tel ég, að höfuðtilgangi okkar sé náð, með því að bæta úr því, sem á vantar, að gengið sé sem tryggilegast frá öryggi manna á þeim skipum, sem hér heyra undir.