23.03.1942
Efri deild: 21. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

*Páll Hermannsson:

Ég álít, að það mál, sem hér um ræðir, sé fullkomlega þess vert, að því sé gefinn gaumur, og ég verð að lýsa því yfir, að mér þykir dálítið einkennilegt, að hér skuli nú sitja 6 menn af 16 í d. Ég hugsa, að þeir, sem eiga við það að búa úti um landið að eiga í sumum tilfellum engan kost þess að afla sér læknishjálpar hvað sem fyrir kemur, gætu búizt við því, að till. til úrbóta væri meiri gaumur gefinn heldur en lítur út fyrir, að gert sé nú hér í hv. d. Ég er nú einn af þeim lánsömu mönnum, sem eiga heima í læknishéraði, sem er alveg læknislaust, og ég er þar líka nægilega kunnugur til þess að vita, að það koma oft fyrir tilfelli, sem svo stendur á, að læknishjálp er alveg útilokuð, og mér er ekki grunlaust um, að við höfum fengið að kenna á því á yfirstandandi vetri. Ég sá þetta frv. áður en það var lagt fram hér á hv. Alþ., og ég leit svo á, að það gæti orðið til bóta að því leyti að hlaupa undir bagga í héruðum, þar sem lækni vantar eða hann þyrfti að fara frá um stundarsakir. En mér finnst, að eins og þetta frv. var og er mundi það litla bót ráða á þeim örðugleikum, sem þeir menn búa við, sem engan lækni hafa og ekki sjá fram á að eiga von á lækni. Það er nú einu sinni svo, að í sumum héruðum vill svo til, að læknar þurfa að flytja burtu af ýmsum orsökum. Þeir telja sig of einangraða, og það, sem ég hygg, að kannske gæti haft veruleg áhrif, er það, að í þessum læknishéruðum eru embættin illa launuð. Ég þekki ekki ákvæðin um laun lækna önnur en þau, sem eru í launal. frá 1919. Þar sé ég, að læknar í 3. launaflokki hafa byrjunarlaun 2500–3000 og 3500 kr. á ári, síðan geta þau hækkað á næstu 5 árum, en eftir 15 ár eru þau komin upp í 3500 –4000 og 4500 kr. Nú mun það vera algengt, að menn sitja ekki í þessum læknishéruðum það lengi, að þeir nái hámarkslaunum, og sýnist mér þá, að þessi læknishéruð séu ekki eftirsóknarverð launanna vegna. Ég er hv. allshn. þakklátur fyrir að hafa komið þessu máli inn í þingið, þó að ég sé ekki viss um mikinn árangur að öðru leyti af þessu frv.

Mér finnst það góðra gjalda vert, að n. hefur þennan hátt vakið máls á þessu, því að það verð ég að telja, að það hljóti að vera blettur á ríkisvaldinu, ef það sér engin ráð til þess að láta þegnana eiga einhvern kost á læknishjálp, og ég kvaddi mér aðallega hljóðs til þess að vekja athygli hv. allshn. á þessum launakjörum. Ég tel þinginu sízt ofraun að bæta launakjör lækna þeirra, sem búa í læknishéruðum, sem eru fámenn og erfið og lítt eftirsótt, þannig að að því leyti yrðu þessi héruð ekki óaðgengileg. Mér finnst ekkert undarlegt, þó að launakjör lækna séu orðin úrelt, þar sem ákvæðin um þau eru orðin 23 ára gömul og gengið er út frá því, að þessir læknar fái 3–4 þús. kr. í árslaun. Hvers konar borgun er það, samanborið við það, sem menn fá almennt fyrir vinnu sína nú? Mér þætti æskilegt, ef hv. allshn. þyrfti að taka þetta mál til athugunar, að hún reyndi að gera sér það ljóst, hvort ekki mætti bæta launakjör lækna í erfiðu héruðunum að nokkrum mun frá því, sem nú er. Hv. frsm, n. benti á annað frv. um þessi efni, sem væntanlegt er á næstunni. Þar er gert ráð fyrir að leggja skyldur á læknaefni um það að þjóna læknisembættum úti um land áður en læknisleyfi yrði veitt. Þetta gæti orðið til þess að bæta úr bráðri neyð. Þó verð ég að telja það mjög illa farið, ef sum læknishéruð ættu að vera dæmd til þess að hafa sama lækni aðeins um stundarsakir, t.d. ½ ár. En mér finnst full nauðsyn á því að reyna að gera þessi héruð sem eftirsóknarverðust að sækja um, því að öllum mun vera það ljóst, hvaða þýðingu það hefur, að læknir sé kunnugur í sínu héraði að öðru leyti en þeim störfum, sem hann er að vinna.